Hrafnseyrargöng: - Eftir Jakob Ágúst Hjálmarsson
Ég hef séð með eigin augum hversu mjög Vestfjarðagöngin hafa breytt byggðaforsendum í Ísafjarðarsýslum, opnað landið og greitt samgöngur til aðfanga, útflutnings og menningarsamskipta. Og því veit ég að göngin nýju eiga eftir að valda stórfelldum umbótum.
En sem ég ók út Hrafnseyrarhlíðina þá hugsaði ég að nú værum við að víkja vegi frá menningarstaðnum mesta sem við eigum vestra, sjálfri Hrafnseyri, fæðingarstað þjóðhetjunnar Jóns Sigurðssonar og bústað Hrafns Sveinbjarnarsonar, landnámsstaðarins þar sem Grelöð fann forðum ilm úr grasi.
Öll voru þau framfarasinnar. Jón reit margt um framkvæmdir og atvinnuháttu í því skyni að örva til framfara. Hann hefði glaðst yfir öllum þessum vegabótum með eflingu mannlífs og atvinnureksturs.
Það er því miður ef framkvæmdin gerir það að verkum að Hrafnseyrar verði miður minnst og sjaldnar heimsótt eftir að hún verður ekki lengur í þjóðbraut. Því vil ég benda á ágæta leið til þess að halda nafni Hrafnseyrar meir á lofti og minningu þeirra sem þar gengu um garða og að fleiri víki af leið sinni til þess að heimsækja staðinn. Látum göngin heita Hrafnseyrargöng!
Dýrfirðingar hafa verið manna duglegastir við að rækja minningu Jóns en allir Vestfirðingar sækja staðinn þegar mikið er við haft, síðast á Hrafnseyrarhátíðinni 2011, og heiðra söguna og minnin sem Hrafnseyri eru bundin. Hugsið um þetta, góðir landsmenn, og þið sem ráðið þessum málum. Hafið gjarnan samkeppni um svona nöfn.
Séra Jakom Ágúst Hjálmarsson
Höfundur er frá Bíldudal.