Hraðsamtalið: - Skíðað á daginn milli Jökulfjarðanna og svo bíður skútan á kvöldin!
Það vakti athygli að Ísfirðingurinn Haukur Sigurðsson og kona hans, Vaida Braziunaite, sem er fá Litháen, bjuggu í svokallaðri jurtu í fyrravetur á Bakka í Brekkudal í Dýrafirði. Jurta, sem er tjaldhýsi, er þjóðarhúsnæði þeirra í Mongólíu, en þar eru oft ríkjandi miklir kuldar á vetrum.
-Hvernig var í jurtunni, Haukur
-Bara æðislega notalegt. Okkur leið mjög vel.
-Hvernig var með upphitun?
-Við vorum með kamínu og notuðum timburdrasl úr gömlu hlöðunni á Bakka sem eldivið.
-Er eitthvert vit í þessu fyrir okkur Íslendinga?
-Þeir sem eru að sligast undan húsnæðiskostnaði ættu að skoða þennan möguleika. En þetta er heilmikil vinna, vatnsburður og annað tilheyrandi.
Auk þess að vinna sjálfstætt við alls kyns ljósmynda- og myndbandaframleiðslu brasar Haukur í ferðamennsku með föður sínum. Bjóða þeir upp á skíðaferðir með skútunni Auroru í Jökulfirði á vetrum.
-Hvenær farið þið í fyrstu ferðina í Jökulfirði í vetur?
-28. febrúar. Það er skíðað á daginn milli fjarða og svo bíður skútan að kvöldi. Þá slær karl faðir minn upp veislu um borð. Þetta eru sex daga ferðir.
-Er mikil aðsókn í þessar ferðir?
-Já. Gestir okkar eru flestir frá U. S. A. og Kanada. Svo einn og einn Íslendingur. Það er svo til full bókað í ferðirnar í vetur. Pabbi og afi eru í Hollandi núna að sækja nýja skútu.
-Hvers vegna Jökulfirðir?
-Þar er einstaklega góð aðstaða fyrir skíðafólk. Náttúran stórkostleg. En að öðru leyti er aðstaðan engin. Og þannig viljum við hafa það!