A A A
  • 1933 - Hulda Friðbertsdóttir
  • 1964 - Ingi Jón Jóhannesson
  • 1966 - Róbert Daníel Kristjánsson
13.11.2015 - 06:36 | Blaðið - Vestfirðir,Björn Ingi Bjarnason

Hljómsveitin Æfing í útrás til Berlínar

Hljómsveitin Æfing í Berlín. F.v.: Ásbjörn Björgvinsson, Árni Benediktsson, Siggi Björns og sonur hans Magnús Emil og Halldór Gunnar Pálsson.
Hljómsveitin Æfing í Berlín. F.v.: Ásbjörn Björgvinsson, Árni Benediktsson, Siggi Björns og sonur hans Magnús Emil og Halldór Gunnar Pálsson.
« 1 af 19 »

Það bar til þann 27. desember 1968 að hljómsveitin Æfing á Flateyri, sem þá hét reyndar Víkingar, kom fram fyrsta sinn á fundi í Verkalýðsfélaginu Skildi í Samkomuhúsinu á Flateyri.

 Í hljómsveitinni Víkingum voru:  Árni Benediktsson,  Kristján J. Jóhannesson, Sigmar Ólafsson, Eiríkur Mikkaelsson og Gunnlaugur Mikkaelsson.

Hljómsveitin Æfing starfaði á tveimur tímaskeiðum þ.e. tímabilið á Flateyri frá 1968 og fram yfir 1980 og lék þá á dansleikjum um alla Vestfirði og reyndar víðar um land. Meðlimir Æfingar á þessu tímabili voru allmargir en Árni Benediktsson og Kristján J. Jóhannesson voru með alla tíð.

 Seinna tímabilið er frá 1990 og þá eingöngu á samkomum sem Önfirðingafélagið í Reykjavík hafði skipulag á eða kom að með einum eða öðrum hætti.

Í hljómsveitinni Æfingu á þessu tímabili hafa verið:

Árni Benediktsson, Kristján J. Jóhannesson, Sigurður Björnsson,

Jón Ingiberg Guðmundsson, Ásbjörn Björgvinsson,

Halldór Gunnar Pálsson og Önundur Hafsteinn Pálsson.


Hljómsveitin Æfing í útrás til Berlínar

Tuttugasta og fimmta uppákoma Hljómsveitarinnar Æfingar frá endurreisnarupphafinu magnaða þann 6. október 1990 að Efstalandi í Ölfusi var svo í Berlín, höfuðborg Þýskalands, þann 23. október sl. Tilefnið var að þann 26. júní sl. varð Siggi Björns  60 ára en þá var hann við spilamennsku á Borgundarhólmi í Danaveldi eins og hann hefur verið hvert sumar í rúman aldarfjórðung. Bauð hann því til glæsilegrar afmælishátíðar á veitingastaðnum Richenbecker MUSIK INN í Berlín föstudagskvöldið 23. október. Veitingastaðurinn var troðfullur og komu gestir víða að svo sem frá; Íslandi, Noregi, Færeyjum, Danmörku, Englandi, Austurríki og Þýskalandi. 
Siggi Björns setti hátíðina með hnittnu ávarpi og kynnti síðan dagskrá sem voru glæsileg tónlistaratriði með fólki sem hann hefur átt tónlistarlega samleið með síðustu áratugina.

Fyrstir á svið voru Hljómsveitin Æfing frá Flateyri sem þarna var að koma fram í fyrsta sinni á erlendri grundu. Hljómsveitinni var gríðarlega vel tekið og sérstaklega nýjum trommuleikara sem kom þarna til liðs við sveitina en það er sonur Sigga, Magnús Emil Björnsson og er hann 8 ára. Lokalagið hjá Æfingu var „Hafið eða fjöllin“ og þá risu gestir úr sætum og fögnuðu gríðarlega og minnti það á stemmninguna í Vagninum á Flateyri.
Þá lék Stórsveit Sigga Björns sem eru tónlistarlegir félagar hans til margra ára og þar var Magnús  Emil sonur hans einng á trommum. Í lokin var síðan kvennahljómsveitin  GABYS sem fór á sviðið en hún er vinsælasta kvennasveit Berlínar og ætlaði allt um koll að keyra.


Daginn eftir, laugardaginn 24. október, var síðan afmælisgestunum boðið i sögugöngu um Berlin undir leiðsögn Júlíu B. Björnsdóttur frá Flateyri sem býr í Berlin og starfar m.a. við fararstjórn þar. Flestir Íslendingarnir sem komu til afmælishátíðarinnar fóru í gönguna eða rúmlega 30 manns.

Að kveldi þess 26. október bauð Júlía B. Björnsdóttir Íslendingunum, sem enn voru í Berlín, til kvöldverðar að  heimili sínu í Berlín. Í spjalli Æfingarmeðlima þar er ljóst að Hljómsveitin Æfing er ekki hætt og í stefnumótun kvöldsins er m.a farið að horfa til 50 ára afmælis Æfingar sem verður  þann 27. desember 2018. Víst er að þetta gleður hina fjölmörgu aðdáendur Æfingar.

Björn Ingi Bjarnason
Eyrarbakka.

« Maí »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31