A A A
06.02.2013 - 06:31 | Morgunblađiđ

Hjólar, gengur og sigrar fjöll

 Bjarni Kr. Grímsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri á Ţingeyri,
Bjarni Kr. Grímsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri á Ţingeyri,
Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ, hefst í dag. Þátttaka í verkefninu hefur farið ört vaxandi og hefur aukist um 170% þau fimm ár sem verkefnið hefur staðið. Bjarni Kr. Grímsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri á Þingeyri, ætlar að landa sínu fjórða platínumerki, en til að fá það þarf að hreyfa sig á hverjum degi í 335 daga samfleytt.

 
Það var afar góð tilfinning að komast upp á Hvannadalshnjúk, ég verð að viðurkenna það. Þangað fór ég árið sem Eyjafjallajökull gaus og við fengum einstaklega gott veður,“ segir Bjarni Kr. Grímsson sem klárar nú í fjórða sinn platínuár í tengslum við Lífshlaupið, heilsu- og hvatningarverkefni ÍSÍ. Til að fá platínumerki þarf að hreyfa sig í þrjátíu mínútur daglega í 335 daga samfleytt. „Þegar ég byrjaði á þessu árið 2008 þá var ég kominn í svolitla yfirvigt með tilheyrandi og ég varð að gera eitthvað í málinu. Þá byrjaði ég í ræktinni en komst fljótt að því að ekki gekk upp að fara þangað á hverjum degi. En ég hef haldið mig við að fara þangað þrisvar í viku og þess á milli fer ég út í hádeginu í göngutúra. Svo geng ég á fjöll um helgar og stundum líka í miðri viku. Mér finnst gott að hafa hreyfinguna fjölbreytta. Ef ég er eitthvað slappur þá fer ég á þrekhjólið inni hjá mér,“ segir Bjarni og bætir við að margt bjóði upp á hreyfingu í hversdagslífinu, hann reyni til dæmis að sleppa lyftum og taki frekar stiga.

 

Örlar á keppnisskapi

Bjarni segir að þetta sé ekkert stórmál, hann viti vel að fullt af fólki hreyfi sig daglega í þrjátíu mínútur eða meira án þess að skrá það. „Mér finnst gott að halda þessa dagbók yfir hreyfinguna mína sem felst í því að fara inn á Lífshlaupsvefinn og skrá þetta jafnóðum inn í einstaklingskeppnina,“ segir Bjarni og bætir við að vissulega sé hvetjandi að finna fyrir keppnisskapinu þegar hann fer að sjá fyrir endann á árinu, og þá passi hann vel að missa ekki úr dag. Eðli málsins samkvæmt hreyfir Bjarni sig oft meira en í þrjátíu mínútur á dag. „Þegar ég gekk á Hvannadalshnjúk þá var það fimmtán klukkutíma hreyfing þann sólarhringinn. Í venjulegum fjallgöngum er þetta aldrei minna en tveir til sex tímar. Á sumrin tek ég líka einn og einn hring á golfvellinum en golfið hefur liðið fyrir fjallgöngurnar.“

 

Gengur nú með Fjallavinum

Bjarni er mikill náttúruunnandi og hefur beitt sér fyrir náttúruvernd. „Ég er ekki með neina fanatík í þeim efnum, ég vil að fólk geti bæði notið og nýtt. Við gætum ekki byggt ný hverfi og stækkað byggð ef ekki mætti hreyfa við neinu. En allt þarf það þó að vera innan skynsamlegra marka.“ Fyrir allmörgum árum var Bjarni í gönguhóp sem var skipaður vinum og kunningjum og tengdist kórastarfi. „Síðan gekk ég í klúbbinn 52 fjöll, hjá Ferðafélagi Íslands, og úr því varð ákveðinn vinskapur og í framhaldinu fórum við á fleiri fjöll. Síðasta ár hef ég gengið með Fjallavinum, sem er félagsskapur sem hefur áhuga á fjallgöngum, tilheyrandi náttúruvernd og að vera í góðum félagsskap. Við höfum skipulagt ákveðnar ferðir og höfum sigrað fjörutíu til fimmtíu fjöll á ári, en hluti af hópnum fer líka í meira krefjandi fjallgöngur, erfiðari og lengri. Ég hef verið í báðum þessum hópum og tekið að mér fararstjórn, eða eigum við að segja að ég hafi séð um eftirreksturinn.“

 

Hrútfellstindar fagrir

Þegar Bjarni er spurður að því hvað standi upp úr í fjallasigrum þá segir hann að síðasta sumar hafi hann ásamt góðum vinahóp farið með Ferðafélagi Akureyrar og gengið á Herðubreið, sjálfa drottningu íslenskra fjalla. „Það er afar eftirminnileg og skemmtileg ferð. Það er ekki hægt að fara upp á þetta fjall nema á einum stað, en það var þó auðveldara en ég hélt. En Herðubreið reyndi samt alveg á,“ segir Bjarni og bætir við að ganga á Hrútfellstinda hafi líka verið eftirminnileg, en þeir eru við hlið Öræfajökuls. Þó hann hafi sigrað mörg fjöll á Íslandi segist hann eiga fjölmörg eftir enn. „Ég á eftir að fara á Austfirði og einhver fjöll á ég eftir fyrir norðan. Ég gæti líka hugsað mér að fara vestur á firði í þeim erindum að fara á fjöll. Svo getur vel verið að maður prófi að ganga á fjöll í öðrum löndum.“
« Júlí »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31