A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
02.11.2012 - 05:11 | mbl.is

Herráð vaktar æðarvarpið

Herráðsfundur.  Þeir fá sér kaffisopa og gefa skýrslu eftir annasama nótt, Jón Gíslason frá Mýrum, Zófonías F. Þorvaldsson, bóndi á Læk, og Valdimar Gíslason, bóndi á Mýrum. Erfitt er að verja æðarvarpið fyrir tófunni.
Herráðsfundur. Þeir fá sér kaffisopa og gefa skýrslu eftir annasama nótt, Jón Gíslason frá Mýrum, Zófonías F. Þorvaldsson, bóndi á Læk, og Valdimar Gíslason, bóndi á Mýrum. Erfitt er að verja æðarvarpið fyrir tófunni.
« 1 af 3 »

• Heimildarkvikmynd um baráttu æðarbænda í Dýrafirði við refinn fer víða

• Skylda að koma með vísu á morgunfund í herráðinu og smjörköku þegar við á

 „Tófan hefur breytt hegðan sinni og lífsháttum á seinni árum og þetta er ekki lengur lágfóta. Við höldum því fram sumir að við séum ekki lengur með þessa þjóðlegu íslensku tófu, hún sé orðin menguð af innfluttum dýrum,“ segir Zófonías F. Þorvaldsson, bóndi á Læk í Dýrafirði. Hann og Valdimar Gíslason, bóndi á Mýrum, skipuleggja sólarhringsvakt gegn tófunni og öðrum vargi á viðkvæmasta tíma æðarvarpsins.

Heimildarkvikmynd sem gerð var um baráttu þeirra við refinn hefur farið víða.

 
„Þegar þú ert með skólaverkefni er ekki víst að það nái út fyrir prófið. Ég vissi því ekki hvað ég var að fara út í,“ segir Haukur Sigurðsson um heimildarkvikmyndina Skolliales sem er hluti af meistaranámi hans í mannfræði við Háskólann í Tromsø. Hún hefur fengið óvænta athygli erlendis.
 

Æðarbændurnir og þeirra lið kalla sig herráðið. Það vakir yfir æðarvarpinu tæpa tvo mánuði á ári til að verja það fyrir refnum og gengur þá á ýmsu. Zófanías segir að fjórir til fimm séu á vakt á hverri nóttu og ef það komi sérlega erfiður refur geti þurft að fjölga um annað eins. „Þetta er orðið miklu meira mál en var áður fyrr, á meðan refnum var haldið í skefjum. Maður sá kannski tófu þriðja hverju nótt, ekki þrjár á nóttu eins og nú,“ segir Zófanías. Þá segir hann að menn séu heldur ekki óhultir um hábjartan daginn, í hitteðfyrra hafi til dæmis komið bæði hádegismóri og hádegismóra. Það sé breyting frá því sem áður var.

 

Skylda að koma með vísu

Þrátt fyrir þessa öflugu vakt herráðsins gerist það allt of oft að tófunni takist að lauma sér inn í æðarvarpið, sérstaklega nái hún að naga úr jaðrinum á Mýrum.

„Þetta eru hugrenningar um refinn og baráttu bændanna við hann, hefðir þeirra og siði sem oft eru í skrítari kantinum,“ segir Haukur um myndina. Nefnir hann að eftir hverja næturvakt þurfi vaktmaðurinn að skila af sér einni vísu á herráðsfundi klukkan sex um morguninn. Ef refur hafi verið skotinn á svokölluðu smjörkökusvæði sé heit smjörkaka með morgunkaffinu, annars ekki.

Haukur er að ljúka meistaranámi í sjónrænni mannfræði við Háskólann í Tromsø í Noregi. Heimildarmyndin gildir sem helmingur af lokaverkefni og ritgerðin sem hann skilaði í vikunni gildir jafnmikið.

Myndina sýndi Haukur einu sinni í heimabæ sínum, Ísafirði, sl. sumar. Þangað komu æðarbændurnir úr Dýrafirði og fleira fólk, raunar um 140 gestir sem kom honum mjög á óvart. Zófonías var meðal bíógesta og leist vel á. „Ég held að þetta hafi lukkast vel hjá honum.“

Myndin hefur vakið áhuga víðar. Haukur fór með hana á kvikmyndahátíðir í Sviss og Rúmeníu fyrr í þessum mánuði og hefur verið boðið að fara á hátíð í Murmansk í nóvember.

Haukur segir að æðarbændurnir séu skemmtilegir persónuleikar og það haldi myndinni uppi. Þá nefnir hann til skýringar á áhuga útlendinga að æðarræktin sé séríslenskt fyrirbæri. Fuglinn sé frjáls og gefi af sér dúninn en fólk sé vanara því að sofa með sængur og kodda með fjöðrum sem plokkaðar séu af stríðöldum gæsum. „Myndin sýnir þetta samband á milli æðarfuglsins, mannanna og refanna,“ segir Haukur.

„Ætli það sé ekki að gera fleiri myndir, það væri ekki leiðinlegt,“ segir Haukur þegar hann er spurður um áhugamálin að námi loknu.

Morgunblaðið föstudagurinn 2. nóvember 2012. 

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31