A A A
28.02.2019 - 11:54 |

Heimsókn í Dýrafjarðargöng

Valdimar Gíslason og Oddur Sigurðsson við gangamunann
Valdimar Gíslason og Oddur Sigurðsson við gangamunann
« 1 af 10 »

Nú þegar búið er að grafa um 90% af heildarlengd Dýrafjarðarganga var við hæfi að Þingeyrarvefurinn sendi fréttaritara á staðinn til að athuga stöðuna. Fékk fréttaritarinn reynsluboltana Valdimar Gíslason á Mýrum og Sigmund Þórðarson til að slást í för.

Verkfræðingurinn Oddur Sigurðsson hjá fyrirtækinu GeoTek tók á móti okkur og var ánægður með gang mála.

„Við vorum búin að gefa okkur að vinnan við Dýrafjarðargöng myndi ganga hraðar fyrir sig en vinna við sambærileg göng áður. En svo hefur komið í ljós að þetta hefur jafnvel gengið hraðar fyrir sig en þær spár sögðu til um. Að meðaltali er þetta langbesti gangur í íslenskri gangasögu frá upphafi.“

Verkamennirnir sem bora göngin koma frá fyrirtækinu Metrostav og eru þeir ýmist frá Tékklandi, Póllandi og Slóvakíu. Þeir sem leggja veginn eru hins vegar frá íslenska fyrirtækinu Suðurverk. Að sögn Odds gengur samstarfið vel.

„Þetta eru mjög góð teymi sem vinna vel saman. Þeir vinna líka allan sólarhringinn, nema á sunnudögum.
Þeir búa flestir hér í vinnubúðunum okkar, nema nokkrir tékkneskir yfirmenn sem eru á Þingeyri. Mórallinn hefur verið mjög góður. Þeir hvíla sig aðallega á frívöktum, nema einhverjir fara stundum í sund eða út að veiða á litlum bát sem við erum með hér á Þingeyri.“

Vestfirðingar koma líka að verkinu á ýmsan hátt. Sveinn Lyngmó hjá Tækniþjónustu Vestfjarða sér um steypuna og Sævar Óskarsson hjá Pólnum sér um rafmagnseftirlitið. „Göngin verða alls staðar þakin steypu, bergið sjálft mun hvergi sjást. Rafmagnið mun verða flóknara og dýrara hlutfallslega en í öðrum göngum. Hér verður ógrynni af lögnum. Brunnar, vatnslagnir, rafmagn, sími, háspenna og lágspenna. Mörg hundruð kílómetrar af lögnum“ segir Oddur.

Í göngunum verða útskot á 500m fresti. Í öðru hvoru útskoti verður neyðarrými og í hinum tæknirými. Í neyðarrýmunum verður pláss fyrir 2-3 rútur og þar er sér súrefni. Göngin munu einnig verða útbúin meðalhraðamyndavélum.

„Þegar búið verður að slá í gegn er sirka 60% vinnunnar lokið, en við stefnum svo á að opna göngin fyrir umferð í september 2020.“ segir Oddur að lokum.

Meðfylgjandi eru ljósmyndir sem fréttaritari tók. Eins og sjá má voru bæði Valdimar og Sigmundur hrifnir af því sem fyrir augu bar og spenntir fyrir framhaldinu.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30