A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
Íþróttahúsið á Hálogalandi í Rvk. Hér stóð vagga handboltans á Íslandi frá stríðslokum 1945 til 1970 er húsið var rifið. Ljósm. Frambókin.
Íþróttahúsið á Hálogalandi í Rvk. Hér stóð vagga handboltans á Íslandi frá stríðslokum 1945 til 1970 er húsið var rifið. Ljósm. Frambókin.

Í dagsins önn:


Strákarnir okkar eru mikil himnasending fyrir hina sundurþykku íslensku þjóð. Mitt í öllu þjóðarrifrildinu koma þeir oft eins og himnasending og á það reyndar við um stelpurnar okkar líka að sjálfsögðu.

   Sjáiði til dæmis handboltann núna. Þarna sameinast stór hluti Íslendinga fyrir framan sjónvarpsskjáinn. Hinn hlutinn lætur sér fátt um finnast og er ekkert nema gott um það að segja. En að vísu gengur oft á ýmsu hjá þeim sem líma sig við skjáina þegar darraðardansinn gengur yfir klukkutíma í senn. 

  Tökum nú létt dæmi af leiknum við Makedóníu.

   Gvendur smali, Vestfirðingurinn, er nokkuð þungur á brún fyrir leikinn. En ekkert nema sigur kemur til greina og hygg eg að það sé sannmæli. Og Logi okkar með slaufuna fer eins og logi yfir akur í stofunni  á sinn skemmtilega hátt með félögum sínum. Nú er að duga eða drepast! Í fjölmiðlum almennt eru Íslendingar búnir að vinna leikinn fyrirfram að vanda og hinir fjölmiðlafíknu landar taka að sjálfsögðu undir það. Á það ekki síst við um mörg okkar hérna fyrir vestan. 

    Grímur gamli á Eyrinni var svo spenntur í fyrri hálfleik, að hann var langt kominn með að ryðja í sig hverjum einasta mola úr konfektkassa heimilisins. Þá tók frúin í taumana, reif kassann af kallinum og faldi hann á óhultum stað. Áður var hann búinn að kaupa 5  stykki af Conga af stærstu sort í sjoppunni hjá henni Diddu. Lét svo vin sinn Miðbæjarkallinn hafa 2 stykki fyrir leikinn. Þetta var nú bara eins og dropi í hafið hjá þeim félögum. Þegar hasarinn var sem mestur, þoldi Miðbæjardrengurinn ekki við, fór fram í eldhús, tók kústinn og fór að sópa. Það gerði Grímur gamli líka heima hjá sér. Merkilegt. Kunnugir vita að þetta hafa þeir smalarnir ekki gert í mörg ár. Eitthvað hefur nú hjartslátturinn verið farinn að aukast. Svo varð Miðbæjarsmalinn bara að fara út í bíl og setja hann í gang svo hleðslan væri örugglega í lagi, sagði hann. Og þurrkaði náttúrlega af mælaborðinu um leið. Fór svo inn aftur.

   Jæja. Þá var spennan slík að hann varð að bæta á sig nokkrum töggum. Kom nú í ljós að hver einasta karamella í Hallhúsinu var upp urin. Enda drukknir 3-4 stórir kaffifantar og veitti ekki af. Ætlaði frúin þá að hlaupa undir bagga og skjótast inn í sjoppu. Þurfti þess nú reyndar ekki því leikurinn var að enda með sigri Íslendinga. Úff! 

   Dramatíkin er oft mikil þegar allt er á fullu. Þá verður ein frúin til dæmis að láta sig hverfa út í bílskúr með prjónana þegar spennan er yfirþyrmandi og önnur fer bara að heiman. Ein fer svo inn í svefnherbergi og reynir að lesa á meðan. Svo er önnur sem oft verður að hringja á bróður sinn suður í Reykjavík til að fá uppgefin úrslit leikja. Þannig gengur þetta stundum til á Þingeyri og nágrenni í Dýrafirði þegar mikið er um að vera í handboltanum.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31