Gunnar Sigurðsson - Fæddur 6. maí 1931 - Dáinn 24. apríl 2017 - Minning
Foreldrar Gunnars voru Sigurður Jónsson, f. 10. júlí 1888, d. 11. mars 1941, frá Næfranesi við Dýrafjörð, og Margrét Arnfinnsdóttir, f. 21. júní 1895, d. 14. janúar 1969, frá Lambadal við Dýrafjörð. Gunnar var áttunda barn foreldra sinna en þau eignuðust níu börn. Systkini Gunnars voru: Sigurlaug, f. 11.1. 1914, d. 17.4. 2000, Lilja, f. 1.5. 1915, d. 6.11. 2007, Sigurður Pjetur, f. 23.3. 1918, d. 9.4. 1945, Jón Þorsteinn, f. 22.1. 1920, d. 4.5. 2015, Arnfríður Kristíana, f. 30.7. 1923, d. 5.4. 1999, Einar Garðar, f. 23.7. 1927, d. 19.4. 1990, Jóhann Sigurlíni, f. 8.7. 1928, Guðmundur Þ., f. 3.3. 1934, d. 29.10. 2002.
Gunnar ólst upp í Innri-Lambadal til sjö ára aldurs er foreldrar hans fluttu í Neðsta-Hvamm við Dýrafjörð árið 1938.
Gunnar kvæntist Jóhönnu Jónsdóttur, f. 22. apríl 1936, frá Vindheimum við Tálknafjörð árið 1954 og eignuðust þau tvo syni:
1) Hrafn Ingvar, f. 2. október 1950. Börn Ingvars eru: a) Hrafnhildur, b) Gunnar Páll, c) Ólöf Jóhanna. Dóttir Ólafar er Saga Ólöf.
2) Einar Albert, f. 23. janúar 1967, maki hans er Sunee Phothiya.
Gunnar sótti nám í Bændaskólanum á Hvanneyri í kringum árið 1950 þar sem hann lærði m.a. á jarðýtu og starfaði eftir það um nokkurra ára skeið hjá Ræktunarsambandi Vestur-Ísafjarðarsýslu við að slétta tún hjá bændum og mokstur á Hrafnseyrarheiði, auk vegavinnu. Síðar nam hann Trésmíði í Iðnskólanum á Patreksfirði og lauk þaðan meistaraprófi árið 1967. Gunnar var alla tíð sjálfstætt starfandi trésmiður og kom að byggingu mannvirkja víða um Vestfirði. Hann rak verkstæði á Þingeyri til margra ára auk verslunar, en frá árinu 1984 rak hann eingöngu verslun allt til ársins 2004 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Útför Gunnars verður gerð frá Þingeyrarkirkju í dag, 6. maí 2017, klukkan 14.
_________________________________________________________________________
Minningarorð Önnu Guðmunds
Með nokkrum orðum langar mig að minnast Gunnars, föðurbróður míns og besta vinar föður míns heitins. Nú á afmælisdegi Gunnars er kveðjustundin í hinni fallegu Þingeyrarkirkju sem hann þekkti vel. Þar hafði hann starfað lengi sem meðhjálpari áður fyrr.
Lífsförunautur hans er Jóhanna M. Jónsdóttir og bjuggu þau sér og sonum sínum fallegt heimili í húsinu Hlíð á Þingeyri.
Trésmíði varð Gunnars fag, lærði við Iðnskólann á Patreksfirði og rak síðar eigið smíðafyrirtæki með þó nokkur umsvif. Gunnar og Jóhanna sneru sér síðar að verslunarrekstri og ráku verslun í mörg ár.
Þau hjónin gættu mín í kringum fæðingu annars bræðra minna, má segja að þá hafi myndast sterk tengsl sem varað hafa æ síðan. Á hverju sumri þegar Hrafnseyrarheiðin opnaðist lá leið okkar fjölskyldunnar í fyrstu af nokkrum heimsóknum sumarsins frá Patreksfirði til Dýrafjarðar. Það var góð tilfinning þegar komið var upp á heiði að sjá Dýrafjörðinn birtast í allri sinni dýrð eftir, að okkur fannst þá, svo langa ferð og þegar neðar var komið, að sjá yfir að Fremstuhúsum þar sem móðursystir okkar bjó, inn að Neðsta-Hvammi og svo að Hlíð. Þetta voru punktarnir.
Dýrafjörðurinn varð sveitin okkar eldri systkinanna Sigurðar Péturs og mín. Ég var í stuttan tíma á sumrin í Hlíð en hann var hins vegar í lengri sumardvöl í Neðsta-Hvammi hjá föðurbræðrum okkar, Garðari og Jóhanni. Þessir Dýrafjarðardagar okkar systkinanna eru ógleymanlegir og auðvitað eru tengslin við frændfólkið stærsti þátturinn.
Gunnar var frændrækinn fjölskyldumaður. Við heyrðumst oft í síma. Skiptumst á fréttum af fólkinu okkar, hann fylgdist vel með og sýndi því áhuga sem við vorum var að fást við. Þetta voru oft hin skemmtilegustu símtöl. Lands- og bæjarmál fengu sinn skerf, skoðanirnar oft æði sterkar.
Á vorin var opnun Hrafnseyrarheiðarinnar fast umræðuefni. Hann sagði mér frá hvernig nafna hans frá Ketilseyri miðaði við opnun heiðarinnar en margir þekkja mikilvægt framlag hans til þess erfiða verks og aðdáun frænda míns leyndi sér ekki.
Gunnar og Jóhanna voru samhent og miklir félagar, bæði höfðingjar heim að sækja. Ég minnist mikils gestagangs og Jóhanna töfraði fyrirhafnarlaust fram veisluborð. Eftir að verslunin þeirra kom til breyttist landslag heimsóknanna aðeins og oft var komið við í búðinni. Ekkert var slegið af í móttökunum og börnin frá Patreksfirði fengu „malaðan ís“ eins og við köllum ís í brauði og fleira gotterí. Frændi var sérlega barngóður og nutu börnin mín þess. Gott samband skapaðist á milli hans og sonar míns Guðmundar Viðars og skemmtileg tilviljun er að hann á son sem fæddur er á afmælisdegi Gunnars.
Gæska, gleði og athafnasemi er það sem er einkennandi þegar ég minnist þessa einstaka og ljúfa frænda.
Ég votta Jóhönnu, sonunum Hrafni Ingvari, Einari Alberti og fjölskyldum þeirra samúð mína og kveð góðan frænda með kveðjunni sem hann lauk símtölum okkar oftast með.
Hjartans kveðja og Guð geymi þig.
__________________________________________________________________________
Minningarorð Guðmundar Jóelssonar
Þannig var upphafið að kynnum mínum af heiðurshjónunum Gunnari og Jóhönnu í Hlíð á Þingeyri. Mér var tekið með kostum og kynjum af þeim hjónum strax í upphafi og dvölin varð hin ánægjulegasta. Eftir verklok kvaddi ég þau hjón og hélt til míns heima.
Sumarið á eftir áttum við hjónin ásamt tveggja ára dóttur okkar leið til Ísafjarðar í heimsókn til ættingja og ákváðum að banka upp á í Hlíð í leiðinni. Móttökurnar voru einstakar og dóttirin eignaðist þarna skyndilega „aukasett“ af ömmu og afa og sama átti eftir að gerast með systur hennar tvær, sem síðar komu til sögunnar. Sú yngsta átti meira að segja eftir að dvelja hjá þeim um skeið sem „búðardama“ nokkrum sinnum. Í árlegum ferðum okkar til Ísafjarðar næstu árin var ævinlega sjálfsagt að staldra við hjá ömmu og afa á Þingeyri og njóta samvista við þau. Einstakar ánægjustundir sem lifa í minningunni og fyrir slíkt ber að þakka.
Atvikin höguðu því svo að sá er þetta ritar átti síðan, um næstum tveggja áratuga skeið, vinnutengd erindi til Þingeyrar. Í þeim ferðum var ævinlega staldrað við hjá kaupmannshjónunum þótt kaupfélagið væri oftast meginástæða ferðarinnar. Það þótti nokkuð sérstakt að ég skyldi sinna þessum andstæðu pólum verslunarinnar á staðnum en var í reynd mjög auðvelt þar sem einstakt sómafólk var að finna á báðum stöðum.
Að heilsa upp á og hlýða á sögumanninn Gunnar var síðan sérstök upplifun út af fyrir sig. Frásagnarsnilld hans var rómuð. „Meistarinn í Hlíð“ hafði einarðar skoðanir á mönnum og málefnum og lá ekki á þeim. Barátta hans var gjarnan ekki átakalaus og friðsamleg niðurstaða var ekkert endilega sjálfsögð, ef samviska hans sagði honum annað.
Síðustu árin urðu vini okkar heilsufarslega erfið þegar tengingin við umhverfið dofnaði jafnt og þétt. Engu að síður var ævinlega að finna sömu notalegheitin og velviljann þegar við áttum leið hjá og stöldruðum við í Hlíð. Það eru hrein forréttindi að hafa átt og notið vináttu þeirra hjóna og fjölskyldu þeirra og fyrir það erum við hjónin og dætur okkar ævinlega þakklát.
Jóhönnu vinkonu okkar óskum við allrar blessunar og vonum að góðar minningar megi lýsa henni tilveruna.
Blessuð sé minning Gunnars Sigurðssonar.