A A A
30.01.2016 - 08:46 | Hallgrímur Sveinsson

Gunnar M. Magnúss segir frá: - Á Suðureyri árið 1918

Gunnar var fæddur á Flateyri við Önundarfjörð og bjó síðar á Suðureyri við Súgandafjörð.
Gunnar var fæddur á Flateyri við Önundarfjörð og bjó síðar á Suðureyri við Súgandafjörð.
« 1 af 4 »

„Hér höfðu líka verið erfiðleikar, jafnvel sultur á heimilum, svo sem veturinn 1918, er hafís fyllti voga og víkur og enginn bátur komst á sjó í margar vikur, en vöruskortur í versluninni, enda fáir eða engir peningar til að kaupa fyrir lífsbjörg. Ég hafði þá í tíu til tólf daga verið soltinn, hvað þá foreldrar mínir. En móðir mín sauð þá blóðtálkn af þorskhausum, einu matartætluna sem til var, ef mat skal kalla. Hún sauð þetta og við dyfum bitunum í lýsi. En þetta bjargaði okkur frá algjöru hungri og það bjargaði okkur frá því að leita á náðir þess opinbera og biðja um sveitarlán. Móðir mín forðaði þeirri niðurlægingu að þiggja af sveit og missa þar með almenn mannréttindi.

   Svo kom að því að ísinn leysti frá og fyrsti báturinn brauzt út á miðin. Þegar hann kom að landi með aflann, komu þorpsbúar í vörina, en formaðurinn sagði við þá:

   -Já, fáðu þér steinbít eða lok, ýsukettling eða bútung, - gjörðu svo vel - það kostar ekkert. Og það var sæt máltíð í flestra húsum eftir þennan dag.

   Slík viðbrögð komu oftar fyrir, þótt ekki væri hungur fyrir dyrum, ef einhver fór einskipa á sjóinn. Það var eins og allir væru í óskráðu sameignarfélagi, sem treysta mætti á, ef nauðsyn bar til.“

 ( Úr bókinni Sæti nr. sex, Skuggsjá Rvk. 1975)

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30