A A A
  • 1957 - Jón Reynir Sigurðsson
  • 1963 - Ísleifur B Aðalsteinsson
  • 2000 - Lilja Kristín Björgvinsdóttir
03.09.2016 - 06:58 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Guðrún S. Valgeirsdóttir - Fædd 11. ágúst 1934 - Dáin 23. ágúst 2016 - Minning

Guðrún S. Valgeirsdóttir (1934 - 2016)
Guðrún S. Valgeirsdóttir (1934 - 2016)
Guðrún Sigríður Valgeirsdóttir fæddist á Gemlufalli í Dýrafirði 11. ágúst 1934. Hún lést á Fjórðungssjúkrahúsi Ísafjarðar 23. ágúst 2016.

Foreldrar hennar voru Ingibjörg Margrét Guðmundsdóttir, hún ólst upp að Mýrum í Dýrafirði, f. 15. september 1901, d. 8. mars 1993, og Valgeir Jónsson frá Höfðaströnd í Grunnavíkurhreppi, f. 3. apríl 1899, d. 5. júlí 1981. Þau hófu búskap að Gemlufalli í Dýrafirði.

Ingibjörg og Valgeir eignuðust alls níu börn og var Guðrún sú sjötta í röðinni. Hin eru: Guðbjörg Sigrún, f. 28. mars 1926, d. 27. október 2011, Jón Kristinn, f. 25. október 1927, d. 7. maí 1999, Ingibjörg Elín, f. 21. febrúar 1929, Anna Jónína, f. 4. apríl 1931, d. 21. febrúar 2012, Arnór, f. 9. ágúst 1932, Elísabet, f. 6. júlí 1936, Friðrik Halldór, f. 11. febrúar 1940, d. 4. júlí 2006, og Guðmundur, f. 6. ágúst 1942.

Guðrún giftist 24. desember 1955 Matthíasi Vilhjálmssyni, f. 9. desember 1933, d. 18. maí 1999. Foreldrar hans voru hjónin Sesselja Sveinbjörnsdóttir f. á Botni í Súgandafirði 11. febrúar 1893, d. 10. desember 1950, og Vilhjálmur Jónsson, f. á Höfða í Grunnavíkurhreppi 25. maí 1888, d. 24. nóvember 1972.

Börn Guðrúnar og Matthíasar eru:
1) Sesselja Magnea, f. 16.8. 1955, maki: Kristján Hilmarsson, f. 28.3. 1956.
2) Ómar Hafsteinn, f. 16.8. 1956, maki: Guðný Guðmundsdóttir, f. 27.9. 1954.
3) Ingibjörg Margrét, f. 15.8. 1957, maki: Jökull Jósefsson, f. 2.8. 1952.
4) Auður Kristín, f. 18.10. 1959, maki: Aðalsteinn Ómar Ásgeirsson, f. 3.11. 1958.
5) Vilhjálmur Valgeir, f. 11.1. 1963, maki: Ásdís Birna Pálsdóttir, f. 16.8. 1969.
6) Guðmundur Friðrik, f. 5.3. 1965, maki: Júlía Margrét Jónsdóttir, 5.2. 1969.
7) Kolbrún, f. 11.11. 1966, maki: Erlendur Geirdal, f. 24.10. 1963.
8) Guðrún Sigríður, f. 26.3. 1971.

Alls eru afkomendurnir orðnir 51 talsins.

Tæpra tveggja ára fór Guðrún í fóstur til Hagalíns Guðmundssonar og Magneu Jónsdóttur að Lækjarósi í Dýrafirði og fluttist síðan með þeim að Hrauni á Ingjaldssandi þar sem hún ólst upp ásamt sex fóstursystkinum.

Þau eru: Ólafía, Guðmundur, Margrét, Valdís, María og Viggó. Átján ára réðst hún sem kaupakona eitt sumar að bæ í Borgarfirði og flutti svo um haustið til Ísafjarðar þar sem hún hóf störf á sjúkrahúsinu.

Á Ísafirði kynntist hún Matthíasi og þar hófu þau búskap og bjuggu síðan alla sína tíð á Ísafirði. Guðrún var heimavinnandi að mestu á meðan börnin voru lítil en þegar það elsta var 14 ára fór hún að vinna í rækjuverksmiðjunni O.N. Olsen. Síðar starfaði hún í öðrum rækjuverksmiðjum og samtals vann hún 34 ár í rækjunni. Jafnframt því og inni á milli vann hún við ræstingar og stundum sem næturvörður á hótelinu.

Guðrún verður jarðsungin frá Ísafjarðarkirkju í dag, 3. september 2016, og hefst athöfnin kl. 14.

 

____________________________________________________________________________________

 

Minningarorð Erlendar Geirdal

 

Nú þegar kjarnakonan Guðrún Valgeirsdóttir, tengdamóðir mín, er fallin frá leita góðar minningar á hugann. Ég kynntist henni fyrir rúmum þrjátíu árum er ég kom inn í fjölskylduna og frá fyrstu tíð reyndist hún mér vel. Minningarnar eru um kraftmikla konu og glaðværa svo gustaði af. Því Gunna Valgeirs, eins og hún var jafnan kölluð hafði létta lund og hressleika sem fékk mann til að taka eftir og hlusta því hún hafði jafnan frá mörgu að segja.

Hún naut sín þegar hún lýsti skemmtilegum atvikum úr hversdagslífinu og þó sérstaklega þegar hún rifjaði upp prakkarastrik sín og Gumma bróður síns frá barnsárunum á Hrauni á Ingjaldssandi. Þá hló hún og tísti eins og henni var svo lagið. Þessir eiginleikar hennar, ásamt umhyggjusemi fyrir samferðamönnum sínum, sköpuðu henni enda orðspor sem sú hressa og skemmtilega manneskja sem hún var því allir sem kynntust henni bera henni gott vitni.

Börnin og barnabörnin nutu eðlilega mestu umhyggjunnar og hún reyndi eftir megni að halda sambandi við þau og fjölskyldur þeirra sem hún fylgdist með eftir megni. Hafði oft áhyggjur ef hún vissi af einhverjum í vanda og jafnvel bara á ferðalagi um þjóðvegina. Þá þótti henni betra að fólkið hringdi í hana og léti vita hvernig ferðin gengi allt þar til áfangastað var náð. Þá fyrst varð hún róleg.

Það var alltaf svo gott að koma í heimsókn til þeirra Matta heitins á Urðarveginn á Ísafirði því saman stóðu þau hjónin sem traustur klettur í fjölskyldunni. Séð var til þess að gesti skorti aldrei neitt í mat og drykk og fiskibollurnar hennar Gunnu, sem voru dálæti allra, voru hafðar í matinn að minnsta kosti einu sinni í hverri heimsókn. Við matargerðina voru handtök hennar snögg og fumlaus og það var eftirminnilegt að sjá hana baka pönnukökur með hraði á tveimur pönnum samtímis.

Eftir að Matti lést fyrir aldur fram árið 1999 fluttist hún í Sundstræti þar sem hún bjó síðan.

Gunna Valgeirs var sannur Ísfirðingur og sagði þar best að vera. Meira að segja veðrið væri oftast betra þar en annars staðar á landinu og minnti hún gjarnan á það símleiðis suður til okkar ef þannig stóð á að betra veður væri fyrir vestan en á suðvesturhorninu. Hún sagði líka margoft að aldrei mundi hún geta hugsað sér að búa annars staðar en á Ísafirði. Hún stóð við það þrátt fyrir að hafa litist illa á bæinn milli fjallanna fyrst þegar hún kom þar átján ára gömul. En svo kynntist hún Matta sínum og þau bjuggu sér heimili og komu upp börnunum átta.

Það er gott að geta yljað sér við minningar um þá sómakonu sem Guðrún Valgeirsdóttir var. Hennar er sárt saknað og ég votta börnum hennar og aðstandendum öllum mína dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Guðrúnar Valgeirsdóttur.

Erlendur Geirdal.

 

Morgunblaðið laugardagurinn 3. september 2016.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30