A A A
Guđrún Ásgeirsdóttir.
Guđrún Ásgeirsdóttir.
Guðrún Ásgeirsdóttir fæddist á Fjallaskaga í Dýrafirði 18. september 1923.

Hún lést á Sjúkrahúsinu á Ísafirði 17. júní 2015.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Ásgeir Sigurðsson, f. 6. febrúar 1896 í Lambadal í Dýrafirði, d. 18. október 1965, og Þórdís Þorlaug Guðmundsdóttir, f. 16. ágúst 1893 í Álfadal í Dýrafirði, d. 3 janúar 1941. Systkini hennar: Drengur, f. andvana 1922, Sigurbjörg Kristín Guðmundsdóttir, f. 26 apríl 1927. Kristín býr í Reykjavík. Guðrún giftist hinn 15. júlí 1945 Sölva Þorsteinssyni matsveini, f. 24. júlí 1921, d. 5. janúar 1978.

Börn Guðrúnar og Sölva eru: 1) Lilja, f. 1943, maki Joseph Sipos, f. 1945, d. 12. júní 2015. Lilja á þrjú börn, sex barnabörn og tvö langömmubörn. 2) Guðmundur Ásgeir, f. 1946, maki Edda Larsen Knútsdóttir, f. 1949, d. 4. júní 2012. Ásgeir á þrjú börn og sjö barnabörn. 3) Þórdís, f. 1950. Maki Sigurður G. Baldursson, f. 1944, d. 9. desember 1992. Þórdís á þrjú börn og fjögur barnabörn. 4) Erla, f. 1952. Erla á þrjú börn og fjögur barnabörn. Barnsfaðir Erlu er Birgir Ólafsson, f. 1954. 5) Kristín, f. 1953. Maki Benedikt Kröyer, f. 1953. Eiga þau þrjá syni og eitt barnabarn. 6) Steinunn, f. 1955. Maki Stefán Símonarson, f. 1953. Eiga þau þrjár dætur og fimm barnabörn.

Foreldrar Guðrúnar fluttu frá Fjallaskaga að Hólakoti í Dýrafirði. Guðrún flutti suður frá Dýrafirði og var að vinna við veitingasölu, fiskvinnslu og í sláturhúsinu í Hafnarfirði. Hún var í mörg ár umboðsmaður fyrir dagblaðið Vísi í Hafnarfirði. Guðrún kynntist Gunnari Hannessyni, f. 28. mars 1929, d. 17. nóvember 2012. Bjuggu þau saman í um 35 ár, bæði á Garðaveginum og á Ísafirði.

Útför Guðrúnar fór fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, föstudaginn 3. júlí 2015.

_______________________________________________________________________________

 

Minningarorð Stefáns Krsistjáns Simonarsonar

 

Mig langar að minnast tengdamóður minnar, Guðrúnar Ásgeirsdóttur, með nokkrum orðum. Eins og alltaf á tímamótum sem þessum hrannast upp minningarnar um þær samverustundir sem við áttum saman á lífsleiðinni. Guðrún Ásgeirsdóttir var alin upp á venjulegu sveitaheimili í Dýrafirði á Vestfjörðum við þau kjör sem tíðkuðust þá.

Fólk þurfti að hafa fyrir hlutunum, dugnaður og eljusemi var metin að verðleikum í þá tíð og það hafði hún svo sannarlega. Guðrún missti móður sína ung og varð að vinna hörðum höndum við heimilið ásamt Kristínu systur sinni. Guðrún var sterkbyggð, kraftmikil og ákveðin, og varð maður þess var þegar maður kynntist henni.

Hún var fljót að hugsa. T.d. þegar hún spurði Steinunni dóttur sína hvað hann gerði þessi piltur sem hún væri með og stæði til að tengdist fjölskyldunni, Steinunn svaraði að hann væri bifvélavirki, þá var Guðrún fljót að svara og sagði „Þá getur hann gert við bílinn hennar Dísu“, en Dísa er systir Steinunnar. Guðrún var lengi með umboð fyrir dagblaðið Vísi í Hafnarfirði, en í þá tíð var umboðsmaður í hverju bæjarfélagi og var heilmikið umstang í kringum það.

Fékk maður að kynnast því strax og maður kom í fjölskylduna, því ef maður var að fara eitthvað og vantaði blað á einhvern stað var það tekið með og skutlað í leiðinni þar sem blaðið vantaði. Guðrún ferðaðist þó nokkuð, þá aðallega til að heimsækja dætur sínar og fjölskyldur þeirra í Bandaríkjum en einnig son sinn og fjölskyldu í Svíþjóð.

Það var oft glatt á hjalla í eldhúsinu á Garðavegi 9 í Hafnarfirði, mikið skrafað og skeggrætt þegar við komum frá Ísafirði og gistum. Guðrún vildi alltaf gera vel við sitt fólk og gesti í mat og drykk, og var haft að orði þegar hún eldaði að hún væri að elda fyrir heila skipshöfn. Guðrún sat sjaldan auðum höndum, enda sá maður það á heimili hennar þar sem voru útsaumaðir stólar, borð og myndir.

Guðrún vann lengi í sláturhúsinu í Hafnarfirði hjá Guðmundi Magnússyni. Þar kynntist hún Gunnari Hannessyni frá Hækingsdal og bjuggu þau saman á Garðaveginum. Þegar árin færðust yfir fluttu Guðrún og Gunnar til Ísafjarðar í íbúð fyrir aldraða á Hlíf 2 og bjuggu þar til þau fóru á öldrunardeildina á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði.

Guðrún lét vel af veru sinni á öldrunardeildinni, þar prjónaði hún og föndraði og var glöð og ánægð þegar maður kom í heimsókn til hennar. Að lokum vil ég þakka Guðrúnu samfylgdina.

Hvíl í friði.

 

Stefán Kristján Símonarson.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 3. júlí 2015

« Maí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31