Guðmundur St. Gunnarsson á línunni: - Skoða þarf vel hvort Sveinseyrarflugvöllur í Dýrafirði gæti ekki þjónað norðanverðum Vestfjörðum bæði í innan- og utanlandsflugi
Maður er nefndur Guðmundur Steinarr Gunnarsson, frá Þorfinnsstöðum í Önundarfirði, Vestfirðingur í húð og hár. Guðmundur er einn af brautryðjendunum í vestfirskri vegagerð. Vann lengi undir stjórn Lýðs Jónssonar og varð seinna sjálfur héraðs-og rekstrarstjóri Vegagerðarinnar hér fyrir vestan. Guðmundur býr nú á Akureyri. Hann fékk flugmannsréttindi fyrst 1968 og er þaulkunnugur flugvallarmálum hér vestra. Við slógum á þráðinn.
„Hvað segir þú um flugvallarmálin hér fyrir vestan, Guðmundur?“
„Það er náttúrlega ýmislegt hægt að segja um þau. Ýmsir hafa meira vit á þeim en ég. Hitt get ég sagt, að ég tel að Ísafjarðarvöllur eigi að vera þar sem hann er, með kostum sínum og göllum. Nú hafa samgöngur batnað með jarðgöngunum og leiðin til Þingeyrar því nokkuð góð að vetri til. Þingeyrarflugvöllur var endurbyggður fyrir nokkru, en lega hans og stærð takmarka þó notagildi hans til að uppfylla kröfur um flugvélar og öruggari samgöngur í dag.“
„Hvað þá með flugvöll á Sveinseyrarodda í Dýrafirði sem talað var mikið um á sínum tíma?“
„Það er nú málið. Athugun fór þar fram á vegum Flugmálastjórnar fyrir all mörgum árum, veðurathuganir og fleira. Síðan hefur maður ekkert heyrt um það mál.“
„Er ekki sjálfsagt að athuga það áður en menn fara að byggja Hnífsdalsflugvöll?“
„Það væri vissulega fróðlegt að fá Sveinseyrarflugvöll inn í umræðuna í dag. Þar er miklu meira rými og opnara en ég veit um annars staðar á norðanverðum Vestfjörðum. Og ekki þarf að efast um undirstöðuna. Sennilega er hvergi betri aðstaða fyrir millilandaflug. Það þýðir að hægt væri að fljúga þangað milliliðalaust með erlent ferðafólk. Og fljúga svo þaðan með ferskan fiskinn beint á erlenda markaði. Um það var reyndar talað á sínum tíma.“