A A A
Guđmundur Jón Matthíasson (1959-2016)
Guđmundur Jón Matthíasson (1959-2016)
Guðmundur Jón Matthíasson fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 22. desember 1959. Hann lést á líknardeild LSH í Kópavogi 10. júlí 2016, á 57. aldursári.

Foreldrar Guðmundar Jóns voru Camilla Sigmundsdóttir, húsmóðir, f. 5.8. 1917, d. 14.4. 2012, og Matthías Guðmundsson, vélsmiður og véltæknifræðingur, f. 16.9. 1911, d. 3.6. 1995. Systkini Guðmundar Jóns eru: Jónas, f. 7.5. 1944, og Gerður, f. 10.7. 1954.

Guðmundur Jón kvæntist 3. apríl 1986 æskuunnustu sinni og jafnöldru, Margréti Jónsdóttur, f. 26.12. 1959. Margrét fæddist og ólst upp í Bolungarvík, dóttir hjónanna Jónínu Rannveigar Kjartansdóttur, f. 29.9. 1940, d. 27.11. 2015, og Jóns Eggerts Sigurgeirssonar, f. 17.10. 1937, d. 15.12. 1995.

Synir þeirra hjóna eru: 1) Matthías, f. 1.8. 1980, kvæntur Svanhildi Björk Jónsdóttur, f. 12.10. 1980. Þeirra börn eru Maríanna Hlíf, Jóel Kári og Aníta Björk. 2) Henrý, f. 20.8. 1992.

Guðmundur Jón lauk stúdentsprófi 1979 frá Menntaskólanum á Ísafirði. Milli skólavetra vann hann í vélsmiðju afa síns og alnafna á Þingeyri. Síðan tók við nám í véltæknifræði við Odense Teknikum, en þaðan útskrifaðist hann 1983 og réðst í kjölfarið til starfa hjá ráðgjafarfyrirtækinu J.G. Hvirvelkær A/S í Óðinsvéum. Starfaði Guðmundur Jón þar fram til ársins 1986 að haldið var til heimalandsins og ráðist til starfa hjá Varmaverki ehf., nýstofnuðu fyrirtæki Jónasar bróður hans. Þar starfaði hann í tæp sjö ár, eða fram til 1993 að hann tók sér fyrir hendur framkvæmdastjórn í útibúi norska fyrirtækisins Kværner Fisktækni, sem síðar varð MMC Fisktækni og enn síðar Optimar Iceland. Guðmundur Jón keypti Optimar ásamt félögum sínum árið 2003 og veitti fyrirtækinu forstöðu til ársins 2015, að hann hætti vegna heilsubrests.

Útför Guðmundar Jóns fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 19. júlí 2016, klukkan 13.

___________________________________________________________________________

 

Minningarorð Gerðar Matthíasdóttur

 

Þá er hetjulegri baráttu bróður míns við hinn illvíga sjúkdóm, krabbameinið, lokið. Það er sárt að svona fór.

Sú besta jólagjöf sem ég hef fengið var þegar hann fæddist. Hann var sannkallaður gleðigjafi foreldra minna, afa okkar sem bjó á heimilinu og allra í fjölskyldunni og því umfaðmaður og elskaður. Þarna fékk ég, 10 ára stúlkan, líka stórt ábyrgðarhlutverk. Ég tók, að mér fannst, fullan þátt í umönnun og gæslu þessa káta og elskulega bróður míns öll hans æskuár og það var góður tími.

Seinna eignaðist hann svo hana Margréti sína og þar bundust tvær stjörnur á blárri festingu... eins og segir í ljóði Megasar. Þau voru alla tíð miklir sálufélagar og hamingjan var fullkomnuð með fæðingum drengjanna þeirra, Matthíasar og Henrýs. Söknuður þeirra, tengdadóttur og barnabarna er mikill.

Á Þingeyri áttum við okkar bestu og kærustu gleðistundir bæði á meðan foreldrar okkar voru á lífi og löngum eftir það. Hann var hrókur alls fagnaðar og sá spaugilegar hliðar á flestum málum og því gaman að vera með honum. Guðmundi var sérlega umhugað um varðveislu æskuheimilis okkar og lagði mikið af mörkum í þágu þess. Eins var hann vakinn og sofinn yfir velferð gömlu smiðjunnar og var glaður með hennar málalok.

Vænt þótti mér um þá hluttekningu sem þorpsbúar á Þingeyri sýndu á dánardægri bróður míns þar sem allstaðar var flaggað í hálfa stöng.

Við systkinin áttum það sameiginlegt að hafa gaman af kvartettsöng og oftar en ekki var slíkur flutningur úr safni mömmu og pabba látinn á fóninn fyrir vestan. Fallegu lögin sem MA-kvartettinn söng á árum áður voru í sérstöku uppáhaldi. Því kveð ég elskulegan bróður minn með broti úr ljóði Jóns frá Ljárskógum:

 

Kom ljúfa nótt, sigra sorg og harm,

svæf mig við þinn barm.

Svæf glaumsins klið og gef mér frið.

Góða nótt.

Margréti mágkonu minni og hennar fjölskyldu votta ég mína dýpstu samúð.

Gerður systir.

 

______________________________________________________________________

 

Minningarorð Jónasar Matthíassonar

 

Guðmundur Jón fæddist tveimur dögum fyrir jólin 1959; heldur en ekki óvænt jólagjöf vegna þess að undirritaður (JM) kom í jólafrí frá skóla, allsendis grunlaus um þennan pakka. Engin Facebook í þá daga.

Fyrstu fjögur til fimm árin frá fæðingu Gumma Nonna var JM einungis heima yfir sumarmánuðina og stráksi þá rétt að byrja að fóta sig. Snemma var þó ljóst að þarna fór piltur sem vissi hvað hann vildi. Minnisstætt er sumarið 1964, en þá ók JM vörubíl, „Tradernum“, með fyllingu í nýja hafnargarðinn; stráksi á fimmta ári. Hann vildi fá að sitja í, nokkuð sem var harðbannað, því farmurinn var stórgrýti. En piltur gaf sig ekki, heldur stóð í vegkantinum og ýmist baðaði út höndum og stappaði fótum eða grét sárt og nuddaði augun svo eftir yrði tekið. Eftir að hafa bitið á jaxlinn og ekið framhjá peyjanum nokkrum sinnum og enn allt við það sama, þá gafst ökumaður upp og minn maður klifraði snarlega upp í farþegasætið, hróðugur með sólskinsbros á vör; allt fyrirgefið: „Stóri brói góur við Gumma Nonna sinn.“

Síðan liðu mörg ár stopulla samverustunda sem ekki ná samfellu fyrr en 1986 að GJM, þá 26 ára, nýgiftur, flyst heim frá Danmörku og ræðst til starfa í þá nýstofnuðu fyrirtæki undirritaðra, Varmaverki ehf. Hér tókust endurkynni og farsælt samstarf sem stóð í ein sjö ár. GJM var afburða fagmaður, glöggur, hirðusamur, nákvæmur, röskur og umfram allt traustur vinur með hjartað á réttum stað. Húmor vantaði Guðmund svo sannarlega ekki. Við bræður skiptum með okkur verkum sem fól í sér að senior lagði frekar áherslu á hitatæknina en junior aftur á móti kælitæknina. Þannig skiptar urðu svo okkar starfsævir, mikið til, og sameiginleg útkoman þá líklega eftir því, „passlegur hiti“, hvorki of né van. Kannski getum við tekið upp þráðinn „hinum megin“ ef eitthvert ólag er á systemunum þar; bítum úr nálinni með það „til sin tid“ bróðir!

Utan vinnu áttum við margar gleðistundir, útilegur o.fl. og ævinlega var GJM hrókur alls fagnaðar, fyndinn og uppátækjasamur í meira lagi.

Í febrúar í fyrra dundu svo ósköpin yfir; ólæknandi sjúkdómur tók smám saman hin líkamlegu völd, en mátti sín aldrei neins gegn andlegum styrk GJM. Allt til hinsta dags var hann rólegur, jákvæður og huggandi, umhyggjusamur um allt sem í kringum hann var. Sama er að segja um eiginkonuna, Margréti. Hún stóð sem klettur við hlið hans allan þennan langa og erfiða feril á enda. Við vottum henni, sonum, tengdadóttur og afabörnum innilega samúð. Kærar þakkir.

Kæri bróðir og mágur, komið er að kveðjustund:

 

Ferð þín er hafin.

Fjarlægjast heimatún.

Nú fylgir þú vötnum

sem falla til nýrra staða.

Og sjónhringar nýir

sindra þér fyrir augum.

(Hannes Pétursson)

Við minnumst þín með hlýju og þakklæti og biðjum góðan Guð að varðveita þig og hugga þína ástvini, eiginkonu, syni, tengdadóttur og afabörnin.

Við munum ávallt minnast litla fjörkálfsins, Gumma Nonna, og atorkumannsins, sterka og æðrulausa, Guðmundar Jóns Matthíassonar.

Farðu í friði, bróðir og mágur.

Jónas og Guðbjörg.

 

Morgunblaðið þriðjudagurinn 19. júlí 2016

« Maí »
S M Ţ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31