Guðmundur Eggertsson - Fæddur 29. jan. 1928 - Dáinn 16. okt. 2017 - Minning
Guðmundur var sonur hjónanna Eggerts Guðmundssonar, f. 10.1. 1883, d. 14.5. 1966, og Guðríðar Gestsdóttur, f. 11.9. 1897, d. 13.1. 1993.
Systkini hans eru Jón Þorberg f. 7.10. 1922, Andrés Magnús, f. 20.10. 1929, og Herdís, f. 5.9. 1932, d. 23.9. 2001.
31.desember 1955 giftist Guðmundur Idu Elviru Óskarsdóttur, f. 4.7. 1932, d. 26.4. 2001. Ida var yngsta barn hjónanna Óskars Vilhelms Olsbo, f. 4.4. 1870, d. 1.5. 1963, og Elviru Henriettu Olsbo, f. 5.4. 1893, d. 18.1. 1966.
Börn Idu og Guðmundar eru:
1) Óskar Vilhelm, f. 16.12. 1956, d. 7.2. 1985 af slysförum, var kvæntur Önnu Kjartansdóttur, og eignuðust þau tvo syni; Birgi Vilhelm Óskarsson, f. 3.3. 1982, og Auðberg Þór Óskarsson, f. 25.3. 1984.
2) Eggert, húsasmíðameistari og verktaki, f. 2.4. 1959, kvæntur Lilju Guðmundsdóttur og eiga þau fjögur börn, Kolbrúnu Dögg, f. 5.10. 1980, Sólrúnu Tinnu, f. 20.11. 1982, Guðmund, f. 23.6. 1984, og Þuríði Elvu, f. 1.7. 1994.
3) Guðmundur Pétur, gegnir stöðu lögreglufulltrúa og afbrotafræðingur að mennt, f. 9.3. 1962, kvæntur Elísabetu Helgu Pálmadóttur, uppeldis- og fjölskyldufræðingi, og eiga þau fimm börn, Karenu Ósk, f. 24.4. 1985, Pálma, f. 13.8. 1986, Lindu Björk, f. 31.5. 1990, Vilhelm, f. 14.1. 1994, og Rakel Sól, f. 20.3.2002.
4) Andrés, kraftamaður og mótshaldari, f. 17.4. 1965, kvæntur Láru Berglindi Helgadóttur skrifstofustjóra og eiga þau þrjá syni, Axel Óskar, f. 27.1. 1998, Jökul, f. 25.8.2001, og Örn, f. 24.9.2004
5) Rafn Hilmar, aðalvarðstjóri í lögreglunni og afbrotafræðingur að mennt, f. 30.12. 1973, kvæntur Heiðu Rafnsdóttur, f. 20.9.1974, og eiga þau tvö börn, Óskar f. 5.4. 2006, og Þórdísi, f. 27.12. 2007.
6) Guðrún Elvíra, hjúkrunarfræðingur, f. 10.10. 1976, gift Hilmari Þór Sævarssyni, iðnrekstrarfræðingi að mennt og framkvæmdastjóra, og eiga þau þrjár dætur, Idu Maríu, f. 13.6. 2002, Emilíönu f. 1.11. 2004, og Viktoríu Lind, f. 1.11. 2004, d. 4.5. 2010.
Barnabarnabörnin eru orðin tólf talsins, og eitt á leiðinni.
Guðmundur ólst upp í Haukadal í Dýrafirði en fluttist ungur suður til Reykjavíkur og stofnaði þar heimili ásamt eiginkonu sinni Ídu. Eftir nokkur ár við sjómennsku fór hann í Stýrimannaskólann, hann útskrifaðist þaðan árið 1951 og hélt áfram sjómennsku þar til hann fór í lögregluskóla Ríkisins þaðan sem hann útskrifaðist 1956. Hann starfaði sem lögreglumaður í Reykjavík til ársins 1964 og síðan sem verkstjóri í Slippnum þar til 1972 er fjölskyldan flutti í Tungu í Gaulverjabæjarhreppi. Hann stundaði búskap og vann í lögreglunni á Selfossi samhliða. Guðmundur bjó síðar á Selfossi, í Mosfellsbæ og nú síðast á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Reykjavík.
Útför Guðmundar fór fram frá Guðríðarkirkju í dag miðvikudaginn 25. október 2017.
________________________________________________________________________
Minningarorð Eggerts Guðmundssonar og Lilju Guðmundsdóttur
Þá hefur hann kvatt okkur hann pabbi og tengdapabbi í þessu lífi. Fyrir mér eru það forréttindi að hafa fengið hann sem pabba. Góðhjartaður, traustur og drenglyndur, og dugnaður fram úr hófi en þetta voru eiginleikar sem að einkenndu þennan góða mann. Með þetta í farteskinu greypt í hjarta mitt held ég ótrauður óhræddur minn lífsveg, og held hans góðu gildum á lofti til niðja minna.
Ég minnist hans úr æsku, hann gaf sér alltaf tíma til að leika við okkur, eftir vinnu úr slippnum, þá voru öll húsgögn færð til og gert pláss og við strákarnir teknir í kennslu í alls kyns leikfimisæfingum. Þar kenndi hann okkur að labba á höndum, flikk flakk, heljarstökk, kraftstökk og höfuðstökk og þá er ekki allt upp talið. Og svo gönguskíðaferðirnar um Rauðhólana á skíðunum sem hann smíðaði handa okkur. Og skautaferðirnar á Rauðavatni voru líka margar og ógleymanlegar. Ferðalögin á sumrin, þar sem var gist í botnlausa tjaldinu, stefnan oftast tekin vestur í Dýrafjörðinn þar sem okkur leið svo vel. Eftir að flutt var í sveitina var hlaðan notuð sem leikvöllur, með hjálp pabba voru settir kaðlar milli sperra og þar var mikið klifrað og pabbi kenndi okkur réttu handtökin. Einnig leikið sér í ánni, fjörunni og sandhólunum.
Eftir að mamma féll frá fór pabbi með okkur á hverju sumri vestur í Dýrafjörð, þar sem okkur leið svo vel saman. Þar var ýmislegt brallað, farið út á fjörð að veiða á Togaranum, ógrynni af aðalbláberjum sótt upp í hlíð og pabbi sat heima í gamla Sæbóli og hreinsaði. Fórum skemmtilega bíltúra bæði fyrir og norður og hreint um allt. Svo má ekki gleyma gönguferðunum, en pabbi labbaði á hverjum morgni inn að Meðaldal og þá var gaman að vera með honum því að hann þekkti hvert fjall og hverja þúfu með nafni, og svo fylgdu skemmtilegar sögur með. Meðan pabbi hafði heilsu var hann kominn eldsnemma út á morgnana ber að ofan í sólinni með orf og ljá í hendi og sló blettinn í kringum húsið, þegar baggarnir voru flestir töldu þeir 105 stykki. Hann fór sína síðustu ferð með okkur vestur í fyrrasumar og þá tókum við Baldur yfir Breiðafjörð og þá minntist hann á að hann hefði aldrei séð fjörðinn jafn spegilsléttan, og vestfirsku fjöllin jafn tignarleg og falleg, það var eins og að hann væri að kveðja sveitina sína.
Það er mikill söknuður og eftirsjá að þessum flotta manni.
Vertu sæll elsku pabbi minn og tengdapabbi.