A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
13.05.2017 - 06:31 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Guðlaug Júlíana Vagnsdóttir - Fædd 14. ágúst 1932 - Dáin 28. apríl 2017 - Minning

Guðlaug Júlíana Vagnsdóttir (1932 - 2017).
Guðlaug Júlíana Vagnsdóttir (1932 - 2017).
« 1 af 2 »
Guðlaug Júlí­ana Vagns­dótt­ir fædd­ist á Ósi í Mos­dal við Arn­ar­fjörð 14. ág­úst 1932. Hún lést á Fjórðungs­sjúkra­hús­inu á Ísaf­irði 28. apríl 2017.

For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Vagn Þor­leifs­son, f. 1898, d. 1979, og Sól­veig Guðbrands­dótt­ir, f. 1909, d. 1969. Þau eignuðust þrett­án börn og var Guðlaug sjö­unda barn þeirra hjóna.

Systkini;
Gunn­ar (hálf­bróðir sam­feðra) f. 1918, d. 1977, Val­gerður, f. 1925, d. 1983, Þor­leif­ur, f. 1926, d. 2014, Hall­dóra, f. 1927, d. 2001, Mar­geir, f. 1929, d. 2000, Kristjana, f. 1931, El­ín­borg, f. 1933, d. 1992, Vagna, f. 1935, Aðal­heiður, f. 1937, Snæv­ar, f. 1939. Ómar, f. 1940, og Mál­fríður, f. 1944.

Guðlaug og Aðal­steinn Gunn­ars­son frá Hofi gengu í hjóna­band á aðfanga­dags­kvöld 1953.
For­eldr­ar Aðal­steins voru hjón­in Gunn­ar Guðmunds­son og Guðmunda Jóna Jóns­dótt­ir.

Guðlaug og Aðal­steinn eignuðust sex börn. Þau eru:
G. Sól­veig, Gunn­ar Vagn, sam­býl­is­kona hans er Bjarney Ólsen Rich­ards­dótt­ir, Hlyn­ur, G. Brynj­ar, eig­in­kona hans er Guðrún Hrönn Tóm­as­dótt­ir, Aðal­steinn Guðlaug­ur og Ísleif­ur Bern­h­arð, eig­in­kona hans er María Kol­brún Vals­dótt­ir. Barna­börn­in eru sex­tán tals­ins og barna­barna­börn­in eru líka sex­tán.

Guðlaug, eða Gulla eins og hún var kölluð, ólst upp á Ósi til tólf ára ald­urs. Þá flutt­ist hún með fjöl­skyldu sinn að Álfta­mýri í sama firði. Fimmtán ára fór hún að vinna utan heim­il­is og þá sem vinnu­kona á ýms­um stöðum eins og tíðkaðist í þá daga, eða fram að því er hún gift­ist Alla sín­um. Þau byggðu sér hús að Brekku­götu 20 og bjuggu þar alla tíð.

Gulla vann sem verka­kona megnið af sinni starfsævi í frysti­húsi Kaup­fé­lags Dýrfirðinga, og í slát­ur­húsi þess sama fé­lags á haust­in. Sam­hliða vinn­unni var fjár­bú­skap­ur þeirra hjóna mikið áhuga­mál lengi.

En áhuga­mál­in voru fleiri þegar hinni eig­in­legu starfsævi lauk, svo sem berjatínsla, fjalla­grasatínsla, leita að fal­leg­um stein­um til að smíða úr, eða hvað sem tengd­ist því að vera úti í nátt­úr­unni.

Veiðiárn­ar sem þau hjón­in heim­sóttu eru líka tölu­vert marg­ar. Þar fyr­ir utan prjónaði Gulla mikið og saumaði út, sem sjá má á þeim hannyrðum sem til eru eft­ir hana.

Útför Guðlaug­ar fer fram frá Þing­eyr­ar­kirkju í dag, 13. maí 2017, klukk­an 11.

_______________________________________________________________________

 

Minningarorð Geirs Brynjars Aðalsteinssonar

 

Í dag kveðjum við mömmu, Guðlaugu Vagns­dótt­ir, eða Gullu, eins og flest­ir kölluðu hana.

Ég á marg­ar mjög góðar minn­ing­ar um mömmu og lang­flest­ar tengj­ast þær bernsk­unni. Ég man sér­stak­leg eft­ir stúss­inu í kring­um fjár­bú­skap­inn. Þar lærði maður að vinna og sá lær­dóm­ur var gott vega­nesti út í lífið. Þá má í þessu sam­hengi nefna að mamma var alla tíð mik­ill dýra­vin­ur og þekkti all­ar kind­urn­ar þeirra pabba með nafni og hélt ná­kvæma skrá yfir burð og fleira. Þá fékk hún sér einu sinni hæn­ur og mér fannst ein­hvern veg­inn að pabbi væri ekki sér­lega hrif­inn af þeim, en egg­in gerðu sitt í bakst­ur­inn.

Maður á stund­um erfitt með að trúa því hvernig hún hafði tíma fyr­ir öll þau verk­efni sem hún hafði á sinni könnu með þenn­an krakka­hóp. Hún hikaði aldrei við að bæta á sig verk­um, hnýta öngla á færi, landa úr bát­um, svíða hausa, þrífa fyr­ir fólk og fleira. Svona var hún bara, alltaf sí­vinn­andi. Ég man eft­ir að hafa stund­um haldið í hesp­ur fyr­ir hana, þegar hún sett­ist niður á kvöld­in í „af­slöpp­un“ og tók til við prjón­ana.

Mamma mín reykti, eins og svo marg­ir af henn­ar kyn­slóð. Filters­laus Ca­mel var hið eina sem kom til greina – enda hafði hún al­veg sín­ar skoðanir á blessuðum filtern­um. Á tíma­bili ákvað hún svo að spara í reyk­ing­un­um og prófa að „meika“ sjálf síga­rett­ur í ein­hvers­kon­ar apparati. Auðvitað fékk maður að prófa að rúlla þessa jurta­stöngla fyr­ir hana, en þegar nokkr­ar rett­ur voru komn­ar sem litu út eins og sver­ir vindl­ar þá fannst henni þetta orðið fínt.

Mamma hafði mjög ríka rétt­lætis­kennd, bæði gagn­vart sjálfri sér og öðrum. Hún var mjög fylg­in sér og það þýddi því ekk­ert að ráðskast með hana. Ég man þó ekki eft­ir því að hún hafi skipt skapi við mig, þrátt fyr­ir ýmis prakk­arastrik­in. Maður fann hins veg­ar fyr­ir ákveðninni í rödd­inni þegar henni mis­líkaði, en mikið var gott að finna að maður gat alltaf leitað til henn­ar með hvað sem var.

Hún hafði mjög gam­an af því að kom­ast út í nátt­úr­una. Þau pabbi fóru víða, mest til berja, en einnig í fjalla­grös og í veiði. Pabbi hafði mikla veiðidellu og náði að smita hana af henni. Ég var svo hepp­inn að sjá mömmu draga sinn fyrsta lax á land – veiðihjólið bilaði og þá var bara tekið í girnið með hönd­un­um. Hún skar sig auðvitað, en lax­inn skyldi á land.

Ég flutt­ist að heim­an á nítj­ánda ári, og var því ekki mik­ill þátt­tak­andi í lífi for­eldra minna, fyr­ir utan ár­viss­ar heim­sókn­ir vest­ur. Eft­ir að pabbi dó fór ég að heim­sækja mömmu oft­ar og það má segja að ég hafi farið að kynn­ast henni bet­ur. Hún stóð eins og klett­ur við hlið pabba í hans veik­ind­um og missti mikið þegar hann kvaddi þenn­an heim. Í heim­sókn­un­um til mömmu voru marg­ar skemmti­leg­ar minn­ing­ar rifjaðar upp við eld­hús­borðið. Hún hafði mjög gott minni allt til enda og það var gam­an að heyra hana fara með göm­ul ljóð sem hún hafði lært í bernsku. Hún fiktaði reynd­ar sjálf svo­lítið við ljóðagerð.

Elsku mamma, eitt átt­irðu sér­stak­lega erfitt með og það var að liggja las­in í rúm­inu. Ég veit að það fór mjög illa í þig síðustu árin, að finna að skrokk­ur­inn var að gefa eft­ir. En alltaf var koll­ur­inn í lagi og stutt í húm­or­inn. Þú verður alltaf hetj­an mín og þú lif­ir í okk­ur. Gunna mín og börn­in okk­ar þakka þér líka fyr­ir sam­fylgd­ina.

Ég elska þig. Þinn son­ur,

 

Geir Brynj­ar Aðal­steins­son.
 
Morgunblaðið laugardinn 13. maí 2017.



« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31