Guðlaug Júlíana Vagnsdóttir - Fædd 14. ágúst 1932 - Dáin 28. apríl 2017 - Minning
Foreldrar hennar voru hjónin Vagn Þorleifsson, f. 1898, d. 1979, og Sólveig Guðbrandsdóttir, f. 1909, d. 1969. Þau eignuðust þrettán börn og var Guðlaug sjöunda barn þeirra hjóna.
Systkini;
Gunnar (hálfbróðir samfeðra) f. 1918, d. 1977, Valgerður, f. 1925, d. 1983, Þorleifur, f. 1926, d. 2014, Halldóra, f. 1927, d. 2001, Margeir, f. 1929, d. 2000, Kristjana, f. 1931, Elínborg, f. 1933, d. 1992, Vagna, f. 1935, Aðalheiður, f. 1937, Snævar, f. 1939. Ómar, f. 1940, og Málfríður, f. 1944.
Guðlaug og Aðalsteinn Gunnarsson frá Hofi gengu í hjónaband á aðfangadagskvöld 1953.
Foreldrar Aðalsteins voru hjónin Gunnar Guðmundsson og Guðmunda Jóna Jónsdóttir.
Guðlaug og Aðalsteinn eignuðust sex börn. Þau eru:
G. Sólveig, Gunnar Vagn, sambýliskona hans er Bjarney Ólsen Richardsdóttir, Hlynur, G. Brynjar, eiginkona hans er Guðrún Hrönn Tómasdóttir, Aðalsteinn Guðlaugur og Ísleifur Bernharð, eiginkona hans er María Kolbrún Valsdóttir. Barnabörnin eru sextán talsins og barnabarnabörnin eru líka sextán.
Guðlaug, eða Gulla eins og hún var kölluð, ólst upp á Ósi til tólf ára aldurs. Þá fluttist hún með fjölskyldu sinn að Álftamýri í sama firði. Fimmtán ára fór hún að vinna utan heimilis og þá sem vinnukona á ýmsum stöðum eins og tíðkaðist í þá daga, eða fram að því er hún giftist Alla sínum. Þau byggðu sér hús að Brekkugötu 20 og bjuggu þar alla tíð.
Gulla vann sem verkakona megnið af sinni starfsævi í frystihúsi Kaupfélags Dýrfirðinga, og í sláturhúsi þess sama félags á haustin. Samhliða vinnunni var fjárbúskapur þeirra hjóna mikið áhugamál lengi.
En áhugamálin voru fleiri þegar hinni eiginlegu starfsævi lauk, svo sem berjatínsla, fjallagrasatínsla, leita að fallegum steinum til að smíða úr, eða hvað sem tengdist því að vera úti í náttúrunni.
Veiðiárnar sem þau hjónin heimsóttu eru líka töluvert margar. Þar fyrir utan prjónaði Gulla mikið og saumaði út, sem sjá má á þeim hannyrðum sem til eru eftir hana.
Útför Guðlaugar fer fram frá Þingeyrarkirkju í dag, 13. maí 2017, klukkan 11.
_______________________________________________________________________
Minningarorð Geirs Brynjars Aðalsteinssonar
Í dag kveðjum við mömmu, Guðlaugu Vagnsdóttir, eða Gullu, eins og flestir kölluðu hana.
Ég á margar mjög góðar minningar um mömmu og langflestar tengjast þær bernskunni. Ég man sérstakleg eftir stússinu í kringum fjárbúskapinn. Þar lærði maður að vinna og sá lærdómur var gott veganesti út í lífið. Þá má í þessu samhengi nefna að mamma var alla tíð mikill dýravinur og þekkti allar kindurnar þeirra pabba með nafni og hélt nákvæma skrá yfir burð og fleira. Þá fékk hún sér einu sinni hænur og mér fannst einhvern veginn að pabbi væri ekki sérlega hrifinn af þeim, en eggin gerðu sitt í baksturinn.
Maður á stundum erfitt með að trúa því hvernig hún hafði tíma fyrir öll þau verkefni sem hún hafði á sinni könnu með þennan krakkahóp. Hún hikaði aldrei við að bæta á sig verkum, hnýta öngla á færi, landa úr bátum, svíða hausa, þrífa fyrir fólk og fleira. Svona var hún bara, alltaf sívinnandi. Ég man eftir að hafa stundum haldið í hespur fyrir hana, þegar hún settist niður á kvöldin í „afslöppun“ og tók til við prjónana.
Mamma mín reykti, eins og svo margir af hennar kynslóð. Filterslaus Camel var hið eina sem kom til greina – enda hafði hún alveg sínar skoðanir á blessuðum filternum. Á tímabili ákvað hún svo að spara í reykingunum og prófa að „meika“ sjálf sígarettur í einhverskonar apparati. Auðvitað fékk maður að prófa að rúlla þessa jurtastöngla fyrir hana, en þegar nokkrar rettur voru komnar sem litu út eins og sverir vindlar þá fannst henni þetta orðið fínt.
Mamma hafði mjög ríka réttlætiskennd, bæði gagnvart sjálfri sér og öðrum. Hún var mjög fylgin sér og það þýddi því ekkert að ráðskast með hana. Ég man þó ekki eftir því að hún hafi skipt skapi við mig, þrátt fyrir ýmis prakkarastrikin. Maður fann hins vegar fyrir ákveðninni í röddinni þegar henni mislíkaði, en mikið var gott að finna að maður gat alltaf leitað til hennar með hvað sem var.
Hún hafði mjög gaman af því að komast út í náttúruna. Þau pabbi fóru víða, mest til berja, en einnig í fjallagrös og í veiði. Pabbi hafði mikla veiðidellu og náði að smita hana af henni. Ég var svo heppinn að sjá mömmu draga sinn fyrsta lax á land – veiðihjólið bilaði og þá var bara tekið í girnið með höndunum. Hún skar sig auðvitað, en laxinn skyldi á land.
Ég fluttist að heiman á nítjánda ári, og var því ekki mikill þátttakandi í lífi foreldra minna, fyrir utan árvissar heimsóknir vestur. Eftir að pabbi dó fór ég að heimsækja mömmu oftar og það má segja að ég hafi farið að kynnast henni betur. Hún stóð eins og klettur við hlið pabba í hans veikindum og missti mikið þegar hann kvaddi þennan heim. Í heimsóknunum til mömmu voru margar skemmtilegar minningar rifjaðar upp við eldhúsborðið. Hún hafði mjög gott minni allt til enda og það var gaman að heyra hana fara með gömul ljóð sem hún hafði lært í bernsku. Hún fiktaði reyndar sjálf svolítið við ljóðagerð.
Elsku mamma, eitt áttirðu sérstaklega erfitt með og það var að liggja lasin í rúminu. Ég veit að það fór mjög illa í þig síðustu árin, að finna að skrokkurinn var að gefa eftir. En alltaf var kollurinn í lagi og stutt í húmorinn. Þú verður alltaf hetjan mín og þú lifir í okkur. Gunna mín og börnin okkar þakka þér líka fyrir samfylgdina.
Ég elska þig. Þinn sonur,