A A A
  • 1958 - Birgir karlsson
12.08.2016 - 06:50 | Vestfirska forlagiđ,Morgunblađiđ

Gísli Guđmundsson - Fćddur 4. nóvember 1919 - Dáinn 1. ágúst 2016 - Minning

Gísli Guđmundsson.
Gísli Guđmundsson.
Gísli Guðmundsson fæddist á Næfranesi í Dýrafirði 4. nóvember 1919, en fjölskyldan fluttist í Hjarðardal í Dýrafirði þar sem hann ólst upp. Hann lést 1. ágúst 2016.

Foreldrar hans voru Guðmundur Hermannsson, bóndi og kennari, og Guðrún Gísladóttir, húsfreyja. Gísli var þriðji í röð átta systkina sem öll eru látin, þau voru: Jóhanna, Guðbjörg, Vilborg, Hermann, Rósa og tvíburabræðurnir Sigurður og Þorsteinn. Þær Jóhanna og Guðbjörg voru dætur fyrri konu Guðmundar, Vilborgar Eirnýjar Davíðsdóttur.

Gísli kvæntist þann 16. júní 1951 Valborgu Waage Ólafsdóttur, f. 11. nóvember 1914, d. 17. maí 1994. Þau eignuðust þrjú börn: Ólaf, f. 21. október 1950, d. 24. júní 1962, Guðrúnu Þórunni, f. 19. september 1953, og Véstein, f. 19. janúar 1956, d. 13. desember 1958. Guðrún Þórunn er gift Ingiberg Magnússyni og eru synir þeirra Vésteinn, Ólafur og Magnús Gísli. Fyrir átti Valborg einn son, Guðmund Ágúst Hákonarson.

Útför Gísla fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 12. ágúst 2016, klukkan 13.

 

_______________________________________________________________

 

Minningarorð Ingibergs Magnússonar

 

Enginn veit með vissu hvenær maðurinn með ljáinn ber að dyrum. Jafnvel þó æviárin séu orðin talsvert fleiri en í meðallagi kemur heimsóknin oft á óvart. Þannig er í tilfelli Gísla Guðmundssonar sem í dag er kvaddur við ferðalok. Þó ljóst væri á síðustu mánuðum að verulega dró úr líkamlegu atgervi hans, benti margt til þess að seiglan ætti eftir að fresta skilnaðarstundinni enn um sinn. Andlegt ásigkomulag hans var allt til síðustu stundar ótrúlega gott; stálminnugur, skilningsríkur og fræðandi.

Gísli var afburða hagleiksmaður og hafði einstakt verkvit. Þeir þættir nýttust honum í ævistarfi hans öllu og einnig í tómstundastarfi eftir að eftirlaunaaldri var náð. Bókband, útskurður og ýmiskonar trésmíði urðu þar hans aðalviðfangsefni. Verk sem eftir hann liggja á þessu sviði eru allt í senn vönduð, listræn og gerð af mikilli alúð og útsjónarsemi.

Gísli var mikill náttúruunnandi og hafði yndi af ferðalögum, einkum innanlands. Hann aflaði sér mikils fróðleiks á sviði jarðfræði, grasafræði og sögu lands og þjóðar. Á ferðalögum var hann óþreytandi að miðla þekkingu sinni til samferðamanna.

Fjölmargir eiga Gísla eflaust margt að þakka fyrir hjálpsemi af ýmsu tagi, fáir þó meira en undirritaður, sér í lagi á þeim árum er fjölskylda mín var að koma sér upp þaki yfir höfuðið eins og amstrið er oft kallað. Efnahagurinn bauð ekki upp á annað en að aðkeypt vinnuafl væri notað í lágmarki. Þá bar það oft við að tengdapabbi var kominn að útidyrunum fyrir allar aldir á frídögum og spurði hvort ekki ætti að nota daginn í að gera eitthvað af viti. Hann var auk þess ekkert venjulegt vinnuafl því á nær öllum sviðum sem húsbyggingu varðar reyndist hann sérfræðingur á grunni verkvits síns og fágætrar útsjónarsemi.

Á allra síðustu árum eftir að Gísli hætti að aka gat ég endurgoldið að einhverju leyti greiðasemina með því að aka honum milli staða eftir þörfum. Jafnvel við svo hversdagslegt tilefni naut ég þess að verða vitni að því hvernig hann las í umhverfi sitt, t.d. veðurútlit o.fl.

Hann var mikill áhugamaður um sígilda tónlist og fagurkeri í þeim efnum fram í fingurgóma. Sérstakt dálæti hafði hann á Vetrarferðinni eftir Schubert og einkum í flutningi Kristins Sigmundssonar.

Með Gísla er fallinn í valinn mikill höfðingi, hugsanlega af síðustu kynslóð alhliða fjölfræðinga í alþýðustétt.

Meðal ljúfustu minninga sem ég á um Gísla eru svipmyndir frá heimsóknum hans til okkar Guðrúnar og barnabarna hans, þar sem við bjuggum á jaðri þéttbýlis og sveitar. Þá hvarf hann oft og tíðum drykklangar stundir, hafði lagst til svefns í skógarrjóðri eða á skjólsælum grasbala. Maðurinn í landinu – landið í manninum.

Ingiberg Magnússon.

 

Morgunblaðið 12. ágúst 2016.

 

 

« Júní »
S M Ţ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30