A A A
  • 2012 - Freyja Dís Hjaltadóttir
22.03.2015 - 06:59 | Fréttablaðið

Get ekki hugsað mér lífið án ástar

Dýrfirðingurinn Vilborg Davíðsdóttir. Ljósm.: Fréttablaðið.
Dýrfirðingurinn Vilborg Davíðsdóttir. Ljósm.: Fréttablaðið.
« 1 af 3 »
Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur hefur skrifað sig í gegnum þá erfiðu reynslu að missa sinn heittelskaða og finnur að kærleikurinn sem þau gáfu hvort öðru varir þótt eiginmaðurinn sé horfinn úr veröldinni. Hún lítur á ekkjutitil sem sæmdarheiti, vegna þess þroska sem hann feli í sér, leitast við að lifa ríkulegu lífi og lofar þriðju bókinni um Auði djúpúðgu.

Það þýðir ekkert að spyrja hvers vegna einhver deyr. Dauðinn sem slíkur hefur engan tilgang en við getum gefið honum merkingu með því hvernig við vinnum úr sorginni og hvað við gerum við lífið eftir missinn. Mín leið var að skrifa," segir Vilborg Davíðsdóttir sem hefur gefið út nýja bók, Ástin, drekinn og dauðinn. Þar fjallar hún um þann dýrmæta tíma sem hún og eiginmaður hennar, Björgvin Ingimarsson sálfræðingur og kennari, áttu saman eftir að hann greindist með krabbamein í heila árið 2006, þar til yfir lauk 2013 og einnig fyrsta árið eftir að hann lést. Hluta af efninu hafði hún birt áður í bloggfærslum.

 

"Ég fann fyrir knýjandi þörf til að skrifa um það sem gerðist. Bloggið var líka mín leið á sínum tíma til að vinna úr þeim erfiðu tilfinningum sem fylgdu því að vita að hann mundi deyja. Ég vissi það frá deginum sem hann greindist en sjálfur var Björgvin í einbeittri afneitun fyrstu mánuðina. Síðan kvarnaðist úr henni smám saman."

 

Hún kveðst vona að bókin verði til þess að hjálpa öðrum því ef lífslok og sorg eru alltaf sniðgengin sem umræðuefni verði þau mun ógnvænlegri en þau þurfi að vera. "Mér finnst ég hafa gefið dauða Björgvins tilgang ef ég get opnað fyrir fólki mikilvægi þess að taka dauðann út úr skugganum," segir hún.

 

Sorgin dýpkar sálarlífið

 

Við sitjum við litla eldhúsborðið hennar Vilborgar sem er dúkað landakorti, sötrum nýlagað latte úr kaffimaskínunni hennar og höldum áfram að tala um lífið og dauðann.

 

Á einu og hálfu ári missti Vilborg þrjá úr hópi sinna kærustu ástvina, sinn heittelskaða Björgvin, Sigrúnu tengdamóður sína og föður sinn. Hún segir það forréttindi að hafa fengið að fylgja þeim síðasta spölinn. "Það hljómar kannski undarlega að síðasti kaflinn í lífinu geti verið fallegur og merkilegur áfangi, en hann er það," segir hún sannfærandi.

 

Hún kveðst búin að læra margt um sorgina sem tekur á sig ýmsar myndir, rís og hnígur. "Fyrstu mánuðina og misserin er hugurinn að meðtaka veröldina án þessara mikilvægu manneskja í lífinu. Svo eru margir litlir hversdagslegir hlutir sem stinga mann í hjartað. Bara til dæmis fjarsýnisgleraugun hans úti um allt hús. Það er hversdagshlutur en þegar eigandinn er horfinn og kemur aldrei að eilífu til baka þá verða gleraugun tákn um þann missi. Munnharpan sem hann blæs ekki í framar, hálffull rakspíraflaska."

 

Vilborg segir sorgina dýpka sálarlífið og opna augun enn betur en áður fyrir því hversu lífið sé dýrmætt og mikilvægt að sóa ekki takmörkuðum tímanum sem við fáum. En trúir hún á framhaldslíf?

 

Þögn. "Þetta er erfið spurning. Pabbi greindist með lungnakrabbamein daginn eftir jarðarför Björgvins, í febrúar 2013, og dó í júlí síðastliðnum. Við ræddum þetta nokkuð. Ég hallast að því sem hann hafði sjálfur eftir ömmu sinni: "Það sem er hulið verður bara að vera hulið þar til kemur að umskiptunum." Svo kom hann reyndar til mín í draumi stuttu eftir andlátið eins og ég hafði beðið hann að gera þegar við kvöddumst í síðasta sinn og lét mig vita að allt væri nú eins gott og það gæti framast orðið. Ég er sannfærð um að sálin hefur ein

hvers konar tilvist þegar líkaminn er horfinn. Hver hún er hef ég ekki hugmynd um. Björgvin hafði þá skoðun að eftir dauðann væri öllu lokið. Við vorum sammála um að vera ósammála um það."

 

Björgvin hafði mikinn áhuga á núvitund og tókst á við sjúkdóminn í þeim anda frá upphafi að vera alltaf hér og nú, að sögn Vilborgar. "Verkefnið var alltaf það sama, að eiga góðan dag, drekka gott kaffi og njóta þess sem hann var að gera í hvert sinn," lýsir hún. "Allir þessir litlu hlutir, þeir eru lífið og hamingjan. Hann var fyrirmyndin mín því hann var miklu flinkari í þessu en ég. Hann gat notið þess að vaska upp, sjá sápuna renna af diskunum, fegurðina í hvunndeginum. Ef við fórum saman í matvörubúð fór hann í lengstu röðina við kassana, fannst það svo góð þjálfun í að leiðast ekki og þjálfa sig í æðruleysinu.

Ég spurði: "Björgvin, getum við ekki drifið okkur núna?" Hann brosti bara og fór í lengstu röðina. Það var kúnst að læra að tileinka sér þetta viðhorf og ég mun alltaf búa að því."

 

Sorgin gjald fyrir ástina

 

Í síðasta þriðjungi bókarinnar lýsir Vilborg fyrsta árinu eftir að Björgvin lést og yfirskrift þess hluta er Ár snáksins. Því réðu margar einkennilegar tilviljanir sem voru kannski alls engar tilviljanir að sögn Vilborgar.

 

"Meinið sem maðurinn minn var með byrjaði í heilastöð sem heitir hippocampus á ensku en dreki á íslensku. Ég skrifaði fyrsta bloggpistilinn þremur dögum áður en við vissum það og talaði þar um krabbann sem dreka sem við, hinn hugrakki prins og undurfögur prinsessa, þyrftum að kljást við. Það

var tilvísun í drepfyndna barnabók sem dóttir mín átti eftir Margréti Tryggvadóttur með teikningum eftir Halldór Baldursson. Ég skannaði myndir úr henni inn í bloggið og hin undurfagra prinsessa skrifaði undir pistlana, hún var reyndar forljót á myndum Halldórs og prinsinn hafður blindur, svo hann sæi hana ekki!

 

Sex árum seinna, þegar Björgvin lá fyrir dauðanum á líknardeildinni í febrúarbyrjun, heyrði ég sagt frá því í sjónvarpi að 9. febrúar væri síðasti dagurinn í ári drekans, samkvæmt kínversku tímatali. Ég leit á manninn minn, sofandi djúpum svefni, og hugsaði: Hann skyldi þó ekki deyja á síðasta degi árs drekans? Svo gerði hann það, hann lést árla þennan laugardagsmorgun í faðmi mér. Þá tók ár snáksins við og það finnst mér fallegt því snákurinn er fornt tákn um eilífa endurnýjun lífsins. Hann skilur gamla haminn eftir en skríður áfram í glansandi nýju skinni, samur en samt nýr. Og það getur átt við okkur bæði, auk þess sem við fæddumst reyndar bæði á ári snáksins, 1965."

 

Þegar Björgvin var deyjandi kveðst Vilborg oft hafa hugsað til kærleiksorða Páls postula: Nú varir trú von og kærleikur, þetta þrennt og þeirra er kærleikurinn mestur. "Ég hef haldið mér í þessi orð. Þau voru höfð yfir í brúðkaupinu okkar sumarið 2006 og einnig í jarðarförinni hans og nú skynja ég þau á dýpri og sterkari hátt. Ég tel sorgina vera það gjald sem ég greiði fyrir ást mína til Björgvins og allt sem hann gaf mér, ástina, styrkinn og trúna á að allt fari vel, hvernig svo sem hlutirnir velkjast. Það er allt orðið hluti af mér núna og þannig lifir hann áfram í hjarta mér.

 

Fréttablaðið laugardagurinn 21. mars 2015

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30