Gamli sýslumaðurinn tekur hreppsnefnd Auðkúluhrepps í bakaríið!
Gamli sýslumaðurinn fór í yfirreið um Auðkúluhrepp í gær. Var sá gamli með stóru bókina með sér og þá er nú yfirleitt ekki von á góðu! Enda urðu menn felmtsfullir á bæjunum og hlupu inn frá verkum þegar þeir sáu sýsla með bókina. Fóru að hugsa um vexti og vaxtavexti og dráttarvexti líka af þeim, enda margir skuldunum vafnir hjá embættinu.
Þannig er, að oddviti hreppsins hefur komið sér upp Harley Davidson mótorhjóli, enda er hann generalagent fyrir þá verksmiðju á Íslandi og Vestmannaeyjum. Fer hann nú varla orðið neitt um hreppinn nema á mótorhjólinu. Gamli sýslumaðurinn hafði eitthvað frétt af þessu og bað oddvitann að sækja sig til höfuðstaðar Vestfjarða og reiða sig um hreppinn á bögglaberanum. Það var auðvitað upplagt, enda þeir miklir mátar. Sá gamli fór fram á að þeir fengju að fara um göngin. Það var auðvitað meira en sjálfsagt, og gerði allur gangamannskapurinn honnör þegar þeir spíttuðu þar í gegn.
Hreppsnefnd Auðkúluhrepps hélt svo fund að Gljúfrá í gær kl. 17,00. Eins og allir vita er það jörð Jóns Sigurðssonar og þar er Valdimar hreppstjóri á Mýrum fæddur sem kunnugt er. Tilefni fundarins var náttúrlega eftirlitsferð og yfirreið gamla sýslumannsins um hreppinn sama dag.
Sýsli gamli tók hreppsnefndina í bakaríið. Vísaði hann til hinna gömlu refsiákvæða í Jónsbók, paragraff 42, gr. 16, þar sem fjallað er um rangar ályktanir opinberra umsýslumanna in solidum. Þegar hann opnaði stóru bókina fór að fara um hreppsnefndarmenn. Svo skellti hann bókinni aftur og sagðist ekki þangað kominn til að dæma einn eða neinn upp á vatn og rúgbrauð. Áminnti hann nefndarmenn um sannsögli og að haga sér alminlega. Einnig nefndi hann að menn verði líka stundum að gera að gamni sínu. Annars væri ekkert gaman að þessu veseni öllu. Brosti svo í kampinn.
Yfirvaldið brýndi hreppsnefndina á eftirfarandi:
1. Hann mælir með að Auðkúluhreppur verði endurreistur. Sagði að sér líkaði vel að hreppurinn yrði áfram á undan sinni framtíð.
2. Hann sagðist hafa innsiglað plastverksmiðjuna í Hokinsdal. com og útibúið í Gíslaskeri í dag. Hann áminnti hreppstjórann um að vera harður í plastinu, þó svo vonlaust væri að banna allt plast eins og er. Það væri þó skínandi fordæmi að loka verksmiðjunum. Þar er uppsprettan sagði hann og lamdi í borðið.
3. Hann átaldi hreppsnefndina harðlega fyrir að hafa Fjármálaeftirlit Auðkúluhrepps í fjársvelti. Það yrði að fylgjast með peningaþvættinu. Svo væri það öruggt að hreppurinn væri orðinn að skattaskjóli. Átaldi hann yfirbankastjóra Einkabanka Auðkúluhrepps fyrir að vera of linur í sóknum. Bætti svo við að margur yrði af aurum api.
Fleira spaklegt nefndi hann og verður frá því sagt seinna.
Svo fékk sá gamli einn sexara með hreppsnefndinni og þá var hann ánægður. En það má aldrei vera meira en einn, sagði hann og vitnaði í Gunnlaug heitinn lækni á Þingeyri. Sagði hann það hafa verið þannig, að þegar Gunnlaugur fór í vitjanir í Auðkúluhrepp, þá var alltaf stoppað við Ölstein á Hrafnseyrardal og fengið sér einn. Aldrei meira. Þetta hafði hann eftir heiðursmanninum Skarphéðni Njálssyni, bróður Þórðar hreppstjóra á Auðkúlu, sem oft var fylgdarmaður Gunnlaugs.
Fleira ekki gert, fundi slitið.
Grelöð Bjartmarsdóttir, jarls á Írlandi
fundarritari