02.11.2009 - 15:08 | BB.is
Frummatsskýrsla vegna Dýrafjarðarganga lögð fram
Þar segir að aðeins ein leið komi til greina og nær vegstæðið frá u.þ.b 815 m sunnan Mjólkár í Arnarfirði að Dýrafjarðarbrú. Í Borgarfirði, innfirði Arnarfjarðar, verður gangamunni rétt utan við Rauðsstaði í 36 m hæð. Gangamunninn í Dýrafirði verður í 67 m hæð við Dranga. Með framkvæmdinni styttist leiðin frá Mjólká að Dýrafjarðarbrú um 27,4 km. Nýlögn og uppbygging eldri vega verða samtals 7,8 km auk þess sem göng verða 5,6 km. Framkvæmdin í heild verður 13,4 km.
Vegalengd á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar er nú 173 km að sumri en að vetri þegar Hrafnseyrarheiðin er lokuð er hún 609 km. Með jarðgöngum á milli Arnar- og Dýrafjarðar verður vegalengdin á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar 146 km. Þegar vegur um Dynjandisheiði verður lagfærður verður heilsárstenging á milli Barðastrandarsýslna og Ísafjarðarsýslna. „Þrátt fyrir að Dynjandisheiði verði ekki lagfærð í þessari framkvæmd þá mun leiðin á milli sýslanna vera opin í fleiri daga um vetur þar sem að Hrafnseyrarheiðin hefur verið aðal farartálminn t.d. vegna snjóflóðahættu. Ætla má að betri samgöngur og þá sérstaklega styttri ferðatími auki samskipti á milli Barðastrandar- og Ísafjarðasýslna. Þannig eiga íbúar svæðisins auðveldara með að sækja þá þjónustu sem þeim er nauðsynleg og sterkari þjónustukjarni gæti þróast á Vestfjörðum“, segir í skýrslunni.
Í skýrslunni kemur einni fram að tilkoma jarðganganna geti spornað gegn fólksfækkun sem hefur verið talsverð á svæðinu síðustu ár. „Stærra þjónustu- og menningarsvæði getur skapað fjölbreyttara atvinnulíf og hjálpað samfélögunum að vera sveigjanlegri til að takast á við breytingar í atvinnuháttum og samfélagsþróun. Auknir möguleikar íbúa til þess að taka þátt í og sækja félagsstarfsemi og menningarviðburði hver hjá öðrum styrkir líka og eflir samfélagið.“
Frummatsskýrslan liggur frammi til kynningar frá 2. nóvember til 15. desember á skrifstofum Ísafjarðarbæjar og Bæjar - og héraðsbókasafninu á Ísafirði, í Þjóðarbókhlöðunni og hjá Skipulagsstofnun. Allir hafa rétt til að kynna sér frummatsskýrsluna og leggja fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 15. desember 2009 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 150 Reykjavík.
thelma@bb.is