Frumkvöðullinn Frederick Howell – ferðagarpur og ljósmyndari
Framandi fuglar í frumstæðu landi
Þessir bresku 19. aldar ferðamenn sem komu hingað til lands á sumrin voru brautryðjendur. Það má líta á þá sem fyrstu alvöru ferðamennina á Íslandi. Þeir voru reiðubúnir að greiða fyrir leiðsögn, leigu á farskjótum, gistingu, mat og annað sem þeir þurftu meðan á dvöl þeirra stóð. Þetta voru vissulega framandi fuglar samanborið við innfædda þar sem þeir stóðu kannski í miðbæ Reykjavíkur með vel hirt skegg, snyrtilega klæddir í bresk tvíddföt, með húfur eða hatta og á vönduðum skóm eða í reimuðum stígvélum. Væru konur með í för þá voru þær í síðum og vönduðum pilsum, kannski í kápum og gjarnan með glæsilega hatta á höfði.
Hið framandi fólk skar sig úr en það var reiðubúið að leggja mikið á sig til að kynnast landi og jafnvel þjóð. Hingað komið fór það á smávöxnum en fótvissum Íslandshestum um vegleysur í hrjóstrugu landi, eða sigldi með bátum með ströndinni. Allt var ótrúlega frumstætt samanborið við hið iðnvædda Bretaveldi. Hjólið var t. a. m. nánast óþekkt uppfinning á Íslandi, húsakostur víða vægast sagt frumstæður og hreinlæti ábótavant. Maturinn var skrítinn og íbúar þessa harðbýla lands oft rúnum ristir af erfiðu lífi sem byggði á sjálfsþurftarbúskap og sjósókn. En þetta var sagnaþjóðin. Það voru forfeður þessa fólks sem höfðu fært í letur ódauðlegar bókmenntir. Þetta voru afkomendur Egils, Njáls og Gunnars, Hallgerðar, Auðar og Guðríðar: fólksins í fornsögum Íslendinga.
Heillandi og hrollvekjandi
Þegar aftur var komið heim til Bretlands skrifuðu sumir af þessum Íslandsgestum ferðalýsingar sem komu út á bókum. Það var enda frá mörgu að segja.
Ísland var virkilega land sem bjó yfir miklum firnum sem ekki var að finna heima á Bretlandseyjum. Þar voru jöklar og eyðisandar, straumharðar ár og tignarlegir fossar, eldfjöll og hraunbreiður. Oft lentu ferðalangarnir í miklum svaðilförum með vosbúð og hrakningum. Það var kannski ekki undarlegt þó þeir yrðu að létta á hugum sínum þegar heim var komið. Þetta var oft gert með því að færa í letur lýsingar bæði á heillandi upplifunum á þessari dularfullu eyju en líka skelfilegum minningum sem vöktu hroll þess sem mundi allt til æviloka.
Fyrstur á Hvannadalshnjúk
Enginn vafi er á að hinn velski skólastjóri, kvæntur maður og þriggja barna faðir, hafði lesið þessar frásagnir af Íslandi. Hann var enda kominn hingað fyrsta sinni með ákveðið markmið í huga. Howell hafði lesið um hæsta tind Íslands, Hvannadalshnjúk á Öræfajökli. Þarna á öndverðri 19. öld hafði mikið fjallgönguæði gripið um sig víða í Evrópu og ekki síst á Bretlandseyjum. Veröldin var full af tindum sem menn áttu eftir að sigra. Það varð hreystimennum keppikefli að verða fyrstir upp á hina ýmsu fjallatoppa.
Howell taldi réttilega að enginn hefði klifið Hvannadalshnjúk. Hann reyndi við tindinn í þessari fyrstu Íslandsferð sinni en varð frá að hverfa. Sumarið eftir var Howell aftur kominn til Íslands og nú var förinni aftur heitið á hæsta tind landsins. Þangað náði breski skólastjórinn fyrstur manna ásamt tveimur íslenskum bændum sem voru í fylgd með honum.
Landið heimti líf hans
Næstu sumur eftir átti Howell síðan eftir að heimsækja Ísland ítrekað því hann gerðist leiðsögumaður samlanda sinna hér á Íslandi. Hann skipulagði sumarferðir breskra ferðamanna hingað til lands. Það má því segja að Fredrick Howell hafi verið frumkvöðull í ferðaþjónustu á Íslandi. Til að kynna landið og þessar ferðir hóf hann að halda fyrirlestra, skrifa greinar í ferðatímarit og sýna myndir. Hann skrifaði líka eina bók um Ísland sem kom út 1893. Howell keypti sér myndavél á þrífót og virtist óþreytandi að fara um Ísland að sumarlagi þar sem hann tók fjölda ljósmynda. Það er svo enn til marks um þrautseigju og dugnað Fredricks Howell að árið 1899 vann hann nýtt afrek í fjallamennsku. Þá varð hann einn í hópi þriggja Breta og tveggja Íslendinga sem urðu fyrstir til að ganga þvert yfir Langjökul.
Því miður fór svo að þetta land sem hafði heillað Howell svo mjög að hann mátti heita gagntekinn af því, heimti að lokum líf hans. Þann 3. júlí 1901 drukknaði Frederick Howell í Héraðsvötnum í Skagafirði, fjörutíu og fjögurra ára gamall. Þar var Howell sem leiðsögumaður á ferð með hóp breskra ferðamanna er hann féll af hesti sínum þegar fólkið freistaði þess að ríða vötnin. Howell hlaut hinstu hvílu í Miklabæjarkirkjugarði og þar eru jarðneskar leifar hans í dag.
Merkur frumherji
Það er greinilegt að Frederick William Warbeck Howell varð gagntekinn af Íslandi, náttúru þess, menningu og íbúum. Howell hugðist senda frá sér nýja bók með ljósmyndum sínum frá Íslandi.
Myndirnar hans, sem að sjálfsögðu eru allar svarthvítar, eru margar hverjar ákaflega fallegar. Hann hafði næmt auga hins árvökula gests. Hann sá greinilega þá fegurð sem aðrir uppgötvuðu ekki fyrr en löngu síðar. Sumar myndanna voru síðar gefnar út á póstkortum. Þannig urðu þær til þess að kynna Ísland.
Í upphafi 20. aldar fór að verða til vísir að ferðaþjónustu á Íslandi. Fyrstu hótelin risu. Þegar leið á öldina fóru skemmtiferðaskip að koma reglulega að sumarlagi. Eftir seinni heimsstyrjöld komust svo á reglubundnar flugsamgöngur við umheiminn. Ekki þarf að hafa langt mál um það hvernig ferðaþjónustan hefur síðan sprungið út á síðustu árum og er í dag orðin ein helsta tekjulind þjóðarinnar.
Þó að í sumar verði liðin 116 ár frá dauða Fredericks Howell þá lifir minning þessa merka manns vegna hinna einstöku ljósmynda sem liggja eftir hann. Hans mætti þó líka einnig minnast sem þess frumkvöðuls sem hann var í að ferðast um landið og kynna það á erlendum vettvangi. Hefði lífshlaupi Fredricks Howell ekki lokið svo sviplega og honum auðnast lengra líf er enginn vafi á að hann hefði skilið eftir sig miklu stórkostlegri arfleifð en hann þó gerði.
Á ferðum sínum um Ísland fór Frederick Howell um Kjósina, Hvalförð, á Akranes, í Borgarfjörð, hringinn um Snæfellsnes og í Flatey á Breiðafirði. Þessar ferðir voru farnar á árunum 1895–1900. Í blaði Vesturlands er birt úrval þessara mynda. Til frekari gamans, fróðleiks og til að sýna tíðarandann fylgja líka með tvær ljósmyndir sem Howell tók í Reykjavík.
Birtist fyrst í Vesturlandi, smelltu hér til að lesa blaðið.