Sesselja Sóldís í faðmi Guðmundar Grétars föður síns á Kirkjubóli kemur í hús. Hún var næst yngsti smalinn. Viktor í Hvammi frændi hennar til vinstri.
Þríf stórsmalar koma galvaskir heim tún á Brekku. Sigrún á Kirkjubóli, Dagbjartur og Valdimar á Brekku.
Farið yfir sviðið við heimkomu. Frá vinstri eru Dagbjartur, Valdimar, Viktor, Sigþór fjallkóngur, eiginkona hans Sigríður og Gunnar Þór. Í baksýn er Brekkuhvilft. Þar voru hátt í þrjátíu fjár og velgdu þær mönnum undir uggum!
Guðmundur Rúnar í faðmi Sigrúnar frænku sinnar á Kirkjubóli var yngsti smali dagsins.
Tekið var hraustlega til matar síns. Á borðum um helgina var einstök kjötsúpa með öllu tilheyrandi eftir Dagbjart yfirmatreiðslumeistara, enda stóðu menn á blístri!Frú Guðrún reiddi fram sínar frægu hveitikökur og gömlu Hrafnseyrarvöfflurnar.
Nafnarnir Magnús vatnsveitustjóri í Fellasókn og Magnús Helgi Guðmundsson forstjóri og þjálfari Bocchia klúbbsins á Þingeyri segja hvor öðrum skemmtisögur úr smalamennskunni.
Carla og Benjamín, nýbúar á Bakka, smakka á Dagbjartarkjötsúpunni. Svo er auðvitað kaffi á eftir að vanda. Dagbjartur og Valdimar í baksýn.
Þeir Magnús frá Ketilseyri og Bjössi á Ósi bíða eftir fjalla vegum nýjum!
Um helgina var víða smalað og réttað í Dýrafirði. Í gær, laugardag var hið besta smalaveður en í dag, sunnudag, brá til mikillar úrkomu í gusum, jafnvel slyddu á fjöllum sögðu háfjallasmalar. Nú er víða hætt að rétta í réttum hér um slóðir. Sumsstaðar fer sú athöfn fram í fjárhúsunum.
Á Brekku í Brekkudal var mikið fjör. Smalamennskan gekk mjög vel þegar upp var staðið, enda harðsnúið smalalið á öllum aldri sem lagði hönd á plóg báða dagana.
Meðf. myndir voru teknar í dag af H. S.