A A A
16.06.2010 - 12:23 | bb.is

Fransína mús í Simbahöllinni

Simbahöllin er staðsett í einu elsta húsi Þingeyrar
Simbahöllin er staðsett í einu elsta húsi Þingeyrar
Kaffihúsið Simbahöllin á Þingeyri verður opið á hverjum degi frá og með föstudeginum. Simbahöllin var opnuð í fyrra eftir töluverðar endurbætur á húsinu, sem er eitt elsta hús Þingeyrar. Sigmundur Jónsson kaupmaður reisti það árið 1916 og rak þar lengi fjölbreytta verslun. Hafði húsið verið í niðurníðslu er nýir eigendur hófust handa við að breyta því í kaffihús og menningarmiðstöð þar sem tónleikar, myndlistasýningar og ljóðalestur fara fram. Næsti áfangi hússins verður opnaður á laugardag en miklar endurbætur hafa staðið yfir á kjallaranum í vetur. „Þetta verður bjórkjallari fyrir þá sem vilja en einnig bara hluti af kaffihúsinu fyrir þá sem vilja sitja niðri, svo er líka hægt að opna þar dyrnar sem snúa út að hafi og þá getur fólk sest fyrir utan," segir Janne Kristenssen annar vertinn í Simbahöllinni.

Í tilefni af sumaropnunartímanum verður margt í boði í Simbahöllinni um helgina. Á föstudag verður Fransína mús úr Stundinni okkar stödd á kaffihúsinu frá kl. 16-16.45. Öll börn eru velkomin. Um kvöldið verður síðan uppistandseinleikurinn Dagbók Önnu Knúts - Helförin mín sýndur. Í tilefni af opnun kjallarans á laugardag verður boðið upp á grillaðar pylsur og bjór kl. 20 auk þess sem fólki er velkomið að koma með kjötmeti með sér á grillið. Um kvöldið mun síðan tónlistarmaðurinn Biggibix spila fyrir gesti Simbahallarinnar.
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30