A A A
  • 1950 - Einar Helgason
  • 1978 - Gestur Magnús Magnússon
Hreinn Þórðarson á Auðkúlu býr sig undir að opna kaupfélagið á staðnum. Hann tók við formennsku í félaginu fyrir löngu síðan af Alla á Laugabóli og stjórnar því á sinn ljúfa hátt og með lempni. Hvað sagði ekki Njáll bóndi forðum: „Kemst þó hægt fari, húsfreyja.“ Ljósm.: H. S.
Hreinn Þórðarson á Auðkúlu býr sig undir að opna kaupfélagið á staðnum. Hann tók við formennsku í félaginu fyrir löngu síðan af Alla á Laugabóli og stjórnar því á sinn ljúfa hátt og með lempni. Hvað sagði ekki Njáll bóndi forðum: „Kemst þó hægt fari, húsfreyja.“ Ljósm.: H. S.

Aðalfundur Búnaðarfélags Auðkúluhrepps fyrir árið 2006 var haldinn að Auðkúlu í Arnarfirði laugardaginn 9. júní s. l. Að vanda var fundarsókn mjög góð, en flestir félagsmenn mættu nema Steinar R. Jónasson í Mjólkárvirkjun, en hann var uppi á þaki og var því löglega forfallaður.

Formaður félagsins, gamli hreppstjórinn Hreinn Þórðarson, bóndi á Auðkúlu, stjórnaði fundinum á sinn ljúfa hátt og urðu ekki mikil átök í umræðum, þó alltaf megi nú búast við slíku eins og við vitum.

     Ekki verður annað sagt en hagur félagsins sé nokkuð góður, svona eftir atvikum, því margar krónur eru í plús hjá Hildigunni Guðmundsdóttur, húsfreyju á Auðkúlu, en hún er gjaldkeri félagsins. Var jafnvel rætt um að verja sjóði þessum í eitthvað þarft verkefni, en engar ákvarðanir teknar að sinni.

     Úr stjórn átti að ganga Hallgrímur Sveinsson, ritari. Þar sem ekki er enn búið að reka hann úr félaginu, var hann endurkjörinn samhljóða. Enda neitaði hann að láta af embætti!

     Þá óskuðu tveir eftir að ganga í félagið, en það voru þau hjón Guðmunda Hreinsdóttir frá Auðkúlu og Guðjón Ingólfsson, Strandamaður. Voru þau að sjálfsögðu boðin innilega velkomin og fjölgar nú skart, því það munar um hvern einasta mann í félögum eins og búnaðarfélögunum, en þau eru sem kunnugt er grunneiningar bændasamtakanna. Upp með Vestfirði!

   Jæja. Að loknum hinum hefðbundnu störfum var komið að liðnum önnur mál eins og vant er. Í ljós kom að mönnum liggur ýmislegt á hjarta í Auðkúluhreppi hinum forna að vanda og var það auðvitað ekki allt fært til bókar. Það væri nú skárra! En nokkuð var þó fært í fundargerðarbókina og skal nú sitthvað rifjað upp af því sem fram kom mönnum til upplýsingar.

 

1. Æðarvarpið. Í hreppnum eru nú þrjú æðarver. Kom það fram hjá æðarbændum að varp er nú í allra síðasta lagi, jafnvel  tveimur vikum á eftir því sem gerist að jafnaði. Fuglinn er nú samt að skila sér vel þessa dagana.

Frú kría er alls ekki komin í sitt eðlilega stand, því kríuegg sjást varla ennþá. En hún lætur ekki sitt eftir liggja að verja vörpin fyrir krumma gamla og fleiri vágestum. Krían er dásamlegur fugl.

 

2. Vargurinn. Fram kom að mikið er um tófu á Laugabóli, sennilega aldrei verið meira, minkur er þar þó ekki mjög áberandi, en flugvargur ýmiskonar á sveimi, samt ekki örninn. Sá gamli sást þó á Hrafnseyri og Auðkúlu um daginn og varð uppi fótur og fit, en kom ekki að sök. 

 

3. Vegamálin. Það kom fram að sumir telja að vegurinn frá Ósi að Laugabóli sé nú einhver sá besti á Vestfjörðum og neitaði Árni  bóndi á Laugabóli því ekki. Hann sagði hins vegar að vegurinn frá Auðkúlu að Mjólkárvirkjun væri nú eitt þvottabretti og töldu menn að Vegagerðin hlyti nú að fara að hefla á þeim slóðum. Sumir láta sig meira að segja dreyma um einhvern ofaníburð, því verið er að mala og harpa efni á Grjóteyrinni utan Rauðsstaða. Þá sagði Árni að ekki væri ólíklegt að brú kæmi á Ósána innan tíðar og verður það gífurleg framför ef af verður.   

 

4. Jarðasölur. Spurst var fyrir um jarðasölur í hreppnum. Kom fram að Alþingi hefur heimilað ríkisstjórninni að selja jörðina Tjaldanes. Árni á Laugabóli sagðist vera hættur að fá Moggann og hefði ekki séð jörðina auglýsta. Eins og kunnugt er fór fram gullleit í Tjaldanesfelli fyrir nokkrum árum, en þar er elsta megineldstöð á Vestfjörðum og þar með á landinu. Kanadískt námufyrirtæki í samvinnun við Íslendinga kannaði gullæðar í Tjaldanesfelli og er víst væntanlegt aftur, svo það er til nokkurs að vinna fyrir duglega gullgrafara.

   Hreinn sagði frá því að til stæði gera kvikmynd sem á að gerast að einhverju leyti á Tjaldanesi, þannig að það er allt í loftinu á þeim slóðum.  

 

5. Fjarskipti. Hallgrímur sagði frá því að nú væri komið ADSL samband á Brekku og væri það gífurleg framför. Nú getur hann sent heilu bækurnar á einni eða tveimur mínútum hvert á land sem er og nokkrar litmyndir sem áður tók heilan dag að senda við mikinn kostnað, sendir hann nú á örskotsstund. Það sem meira er: Nú borgar kallinn bara 2,500,- kr. lágmarksgjald á mánuði fyrir ADSL tenginguna, en sambærikleg þjónusta upp á gamla móðinn kostaði jafnvel tugi þúsunda.

  

6. Puttalingar. Árni á Laugabóli sagði frá því að nú þegar puttalingarnir væru farnir að koma væri Vegagerðin á hjólum við að þjónusta þá. Svo þegar þeir hættu að koma á haustin væri ekki meira um það að tala. Ef það væri skafl á Hrafnseyrarheiðinni sem kostaði tuttugu þúsund að moka eða svo, þá væri það blákalt nei. 

Hann sagðist hafa tekið par upp á Ísafirði um daginn sem var að fara að skoða Fjallfoss og sagði að þau hefðu verið heppin að lenda á sér sem einmitt æki þar framhjá. Svo báðu þau hann um gistingu á Laugabóli og vildu svo endilega fá að sofa í hesthúsinu og fór það allt vel.

 

7. Þorskstofninn. Lýst var yfir miklum áhyggjum af ástandi hans. Töldu menn það algjöra fávisku að leyfa veiðar á hrygningarfiski svo dæmi sé nefnt. Árni sagðist hafa grun um að hlýnun sjávar og fleiri breytingar á þeim slóðum hefði meiri áhrif en menn gerðu sér kannski grein fyrir. Fundarmönnum þótti það undarleg afstaða sumra útgerðarmanna þegar þeir segðust ekki þola neinn niðurskurð núna á sókninni í þorskstofninn. Hvað ætla þessir menn að gera þegar þeir hafa veitt síðasta þorskinn, var spurt.

 

8. Skólamál og Pollýanna. Árni á Laugabóli ræddi skólamál og sagði að margt væri orðið skrýtið í þeim málum og það væri alltaf verið að lengja þessa blessuðu skóla og það mætti eiginlega ekki orðið senda börnin í sveit haust og vor, þá sjaldan kostur væri á því. Svo kom fram að börnin væru eiginlega hætt að leika sér úti í hópum eins og áður, eins og til dæmis í bílaleik, Fallin spýtan á haustin, Yfir, Stórfiskaleik, Höfðingjaleik og Hlaupa í skarðið, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er ekki nógu gott, ég verð að segja það.

    Hallgrímur fór svo að röfla um það að þegar hann kom inn frá verkum á föstudagskvöldið, opnaði hann sjónvarpið af rælni og bjóst við þessum vanalegu kennslustundum í glæpum og djöfulgangi. En viti menn! Var þá ekki verið að byrja að renna í gegn filmunni af henni Pollýönnu frá 1960, með þeim Hailey Mills, Jane Wyman og Karl Malden, svo einhverjir séu nefndir. Taldi hann slíkar myndir mannbætandi innan um allt ruslið og hefði hann hitt marga sem væru sömu skoðunar. Pollyönnurnar, sem alltaf reyna að gera gott úr öllum hlutum, eru sem betur fer víða til ef að er gáð. Þær kenna manni að sjá björtu hliðarnar í tilverunni, brosa, vingast, uppörva og hjálpa, eins og séra Baldur Kristjánsson sagði.

  

   Þess skal að lokum getið, að heiðursfélagi Búnaðarfélags Auðkúluhrepps er Sigurjón G. Jónasson á Lokinhömrum, en hann dvelur nú á Tjörn á Þingeyri. Eins og margir vita er Sigurjón einn af þessum gömlu góðu fjárræktarmönnum sem ekki geta lifað án sauðkindarinnar. Enn á hann nokkrar kindur hjá vinkonu sinni Guðrúnu á Brekku. Þar á meðal eru Lýsirófa, Fríðafríð, Hosa og Skottrófa og eru þær nú að fara á fornar slóðir á Svalvogahlíð og Lokinhamrafjörur.

   Fleira var gert, en verður ekki nánar tíundað hér, enda nóg komið.

 
Hallgr. Sveinsson

fundarritari.


« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31