A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
08.10.2016 - 12:56 | Vestfirska forlagið,Guðmundur Jón Sigurðsson,Blaðið - Vestfirðir

Fimmtíu ár frá komu Sóleyjar ÍS 225 til Flateyrar: - "Fór með tollinn og tjald yfir til Dýrafjarðar"

Sóley ÍS 225 frá Flateyri. Ljósm.: Snorri Snorrason.
Sóley ÍS 225 frá Flateyri. Ljósm.: Snorri Snorrason.
« 1 af 51 »

Skip, ástir, öl og sjónvarp

Það var stór dagur á Flateyri Þegar tekið var á móti nýju skipi þann 27. maí 1966. Fólk mætti með gleði í hjarta og sól í sinni til að taka á móti einu glæsilegasta skipi síldveiðiflotans.

Bryggjan á Flateyri var þéttskipuð þegar Sóley ÍS 225 lagði að eftir heimferð frá Risör í Noregi hvar skipið var smíðað fyrir Kaupfélag Önfirðinga.

Minnir að hljómflutnings skáparnir sem komu með skipinu hafi heitið Radio Nett, um var að ræða stóra stofumublu sem innihélt plötuspilara og útvarp. Svona mublur voru til í öðruhverju húsi í þorpinu.

Trausti Friðbertsson Kaupfélagsstjóri fékk sjónvarp með skipinu, þetta var löngu áður en sjónvarpsútsendingar náðust í Önundarfirði. En greina mátti útlínur í snjókófinu á skerminum. Fyrir þá sem ekki muna að þá voru skjáir einatt kallaðir skermar í upphafi sjónvarpsaldar á Íslandi. Ég minnist Trausta í hópi áhugasamra og forvitinna þorpsbúa, útskýra hvernig veðurspáin væri, hann sagði vel mætti greina útlínur og hæðir og lægðir sæjust á skerminum. Fólk var forvitið því fæstir þorpsbúa höfðu séð sjónvarp þegar þetta var.

En það sem margir muna best við komu skipsins eru veitingarnar sem boðið var uppá. Solo og sælgæti fyrir ungviðið, en fullorðnir og þeir sem urðu fullorðnir innan fárra ára fengu bjór eins og hver og einn gat í sig látið. Þá var bjórinn á pari við sjónvarpið, óþekktur á Íslandi og bannaður í þokkabót.

Ástin endist eins og skipið

Það efaðist engin um að það voru hetjur sem komu með þetta mikla skip heim á Flateyri færandi hendi með framandi varning og fyrirheit um þénustu og mikla vinnu. En skipið kom líka með ást í litla þorpið.

Dóttir kaupfélagsstjórans kom með skipinu frá Noregi og við heimkomuna fór hún með tollinn og tjald og bauð ungum dreng í útilegu yfir í Dýrafjörð. Í þessa hálfu öld sem liðin er hafa þau Sunna og Dagur notið ástarinnar sem kviknaði þegar Sóley kom.

Koma skipsins var að vonum vítamínsprauta fyrir þorpið, ungir og fjörmiklir drengir kepptust við komast um borð. Í brúnni stóðu þeir Ari Kristjánsson frá Hafnarfirði sem var skipstjóri og Garðar Þorsteinsson stýrimaður. Skipið var því vel mannað og gekk vel eftir því.

Á 50. ára afmæli skipsins í vor bauð Menningarsjóður Allrahanda til afmælisferðar: „Brunað um boðaföll Sóleyjar á Suðurlandi“

Tugir manna og kvenna mættu á bryggjuna í Hafnarfirði þaðan sem lagt var upp í ferðina en skipið hefur legið þar við bryggju í sumar.

Kristjana og Erla, dætur Ara skipstjóra mættu til að fylgja hópnum úr hlaði. Erla hafði orð á því að skipstjórnin á Sóley hafi verið sú erfiðasta sem faðir þeirra hafi tekið að sér. Væntingarnar hafi verið svo miklar og von Flateyringa svo einlæg að allt gengi vel.

Sóley og Ari í dönskum blöðum

Það gekk eftir, skipinu gekk vel og varð farsælt fley í áratugi. Í Norðursjónum fiskaði Sóley svo vel að dönsk blöð birtu myndir af skipinu, Ara skipstjóra og áhöfninni. Eitt skipti kom skipið til hafnar að morgni og landaði fullfermi af síld. Á leiðinni á miðin um miðjan sama dag rakst skipið á vaðandi fisk og Ari kastaði þegar á torfuna. Skömmu síðar var skipið aftur lunningafullt við bryggju, smekkfullt af makríl. Það þótti danskinum merkilegt að fylla tvisvar sama daginn.

Lúxusrúta Gray Line – Allrahanda ók hópnum á Suðurland. Á leiðinni var rifjað upp að Sóley var einn af fyrstu skuttogurum landsins þegar smíðaður var toggálgi á skipið í Skipasmíðastöð Marzelíusar á Ísafirði. Skipið átti góða spretti á trollinu og náði meðal annars að vera tekið í landhelgi við Reykjanes.

Oddi hf á Flateyri keypti skipið af Kaupfélaginu 1972 og gerði út í sex ár. Hjálmur hf. var stærsti eigandi Odda.
Frá Flateyri var skipið selt til Stokkseyrar og auðvitað var komið við á hinni sunnlenska heimahöfn og rifjaðar upp ýmsar sögur af skipinu.

Í Þorlákshöfn var kíkt á Jóhönnu ÁR sem áður hét Vísir ÍS 171 og var gerður út frá Flateyri um árabil. Hannes Sigurðsson útgerðarmaður tók á móti hópnum sem átti með honum góða stund á Hafinu Bláa.

Ekki lengi gert...

Á kæjanum í Þorlákshöfn var rifjað upp að Guðbjartur Jónsson var eina vetrarvertíð fullgildur beitningamaður á báðum þessum stóru stálskipum sem sóttu stíft. Það féllu fáir dagar úr en Bjartur skilaði sínum 16 bölum alla daga. Þegar hann var spurður hvernig þetta væri eiginlega hægt kom hið fræga svar á augabragði: „Það er ekki lengi gert að beita í hálftíma.“
Næsti viðkomustaður var í Vogum á Vatnsleysu, þangað var skipið að lokum selt frá Flateyri. Í Vogum var hópnum tekið með kostum og kynjum og boðið til veislu. 

Gaman var að heyra hinn hálf tíræða öldung, Magnús Ágústsson segja frá því þegar þeir keyptu skipið. Hann sagði að skipstjórinn þeirra, Andrés Ágúst Guðmundsson, hafi fiskað svo mikið og viljað stærra skip til að fiska meira.

Einar Oddur magnaður

Þeir fóru saman og skoðuðu Sóley sem þá lá við bryggju í Hafnarfirði líkt og nú. Þeim leist vel á skipið og hringdu í Einar Odd og sögðust vilja kaupa það. „Það var alveg ótrúlegt að eiga við þennan mann, það stóð allt eins og stafur á bók. Ég hef ekki átt betri viðskipti í annan tíma. Það var magnað að kynnast þessum manni“ sagði Magnús útgerðarmaður í ræðu sinni. 
Þeir skiptu um nafn á skipinu og hét það Þuríður Halldórsdóttir GK 94. Það fór sem lagt var upp með, Andrés skipstjóri mokfiskaði á skipið. Í Vogum var skipið yfirbyggt og sett í það töluvert stærri vél en áður var, enda togkrafturinn lítill og stundum ekki vitað hvort verið væri að koma eða fara í Reykjanesröstinni.

Úr Vogum var skipið selt til Húsavíkur og hét þar Kristbjörg. Frá Húsavík fór Sóley á Sauðárkrók þar sem Dögun gerði það út þar til í vor að því var lagt þar sem vélin var enn og aftur orðin of lítil. Hjá Dögun hét skipið Röst SK 17. Forráðamönnum Dögunar þótti það merkilegt framtak og til eftirbreytni að halda með svo veglegum hætti uppá afmæli skips.

Brátt mun koma í ljós hvort Sóley eigi afturkvæmt til Flateyrar.

Guðmundur Jón Sigurðsson.

 

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30