A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
27.07.2017 - 08:42 | Björn Ingi Bjarnason,Hallgrímur Sveinsson,Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Ferðamennirnir öflugir við veiðarnar

Róbert Schmidt stillir sér upp með veglegan feng. Hann segir fjóra stangveiðimenn hæglega geta landað 5-600 kg af afla daglega ef vel fiskast.
Róbert Schmidt stillir sér upp með veglegan feng. Hann segir fjóra stangveiðimenn hæglega geta landað 5-600 kg af afla daglega ef vel fiskast.

Viðskiptavinir Iceland ProFishing eru einkum frá Þýskalandi og dreymir um að veiða risastóra þorska á stöng. Aðsóknin er góð og nú þegar er búið að bóka meira en 65% af lausum plássum næsta sumars.

Vestur á Flateyri og Suðureyri má sjá glaðbeitta erlenda menn við bryggju alla daga sumarsins, þar sem þeir landa tugum tonna af afla. Þessir kátu gestir fá þó ekki greitt fyrir fiskinn, heldur borga þeir fyrir þann lúxus að fá að veiða í friðsælum fjörð- unum, og koma margir ár eftir ár.

Veiðimennirnir sem um ræðir eru viðskiptavinir sjóstangveiðifyrirtækisins Iceland ProFishing, systurfélags ferðaskrifstofunnar Iceland ProTravel.

„Reksturinn hófst árið 2007 og voru þá keyptir hingað tuttugu og tveir sjóstangveiðibátar. Byrjaði starfsemin mjög vel og fékk byr undir báða vængi þegar strax fyrsta sumarið veiddist 175 kg risalúða sem vakti mikla athygli. Til viðbótar við bátana, sem núna eru sextán talsins, voru flutt inn kanadísk einingahús, níu sett upp á Flateyri og þrjú á Suðureyri, og fleiri hús sem fyrir voru á svæðinu ýmis keypt eða tekin á leigu,“ útskýrir Róbert Schmidt sem heldur utan um reksturinn.

Iceland ProFishing tekur á móti gestum frá byrjun apríl og út septembermánuð. Er aðsóknin mjög góð og upplýsir Róbert að nú þegar sé bú- ið að bóka 65% af lausum plássum næsta árs og að jafnaði um 700-800 manns sem koma árlega til að veiða.

Þrátt fyrir þennan mikla fjölda gesta hefur fyrirtækið litla yfirbyggingu og gestirnir að mestu leyti sjálfum sér nægir. „Við erum með einn starfsmann á Flateyri og annan á Suðureyri, en sjálfur flakka ég á milli staðanna,“ segir Róbert.

„Síðan erum við með sölumann í Hamborg í Þýskalandi, en þar býr einnig Guð- mundur Kjartansson sem er framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins, og heimsækir hann Ísland af og til. Loks erum við með einn starfsmann til viðbótar í Reykjavík og heldur hann utan um flutninga ferðamannanna frá Keflavík og upp á hótel, og tryggir að þeir komist áleiðis vestur á firði með leiguflugi.“

Geta lært að sigla í fræðslumiðstöðinni

Á hverjum báti þarf a.m.k. einn áhafnarmeðlimur að hafa skemmtibátaréttindi og segir Róbert það eiga við um flesta kúnnana enda reyndir sjóstangveiðimenn. „Þeir sem ekki eru með réttindin geta setið námskeið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða og klárað þar skriflegt próf. Síðan tek ég gestina í verklega kennslu og öryggisfræðslu, og þar með hægt að veita þeim leyfi til að sigla bátunum tímabundið.“

Segir Róbert að viðskiptavinirnir kunni yfirleitt vel til verka, og um helmingur viðskiptavina hvers árs hafi heimsótt Iceland ProFishing áð- ur. „Þeir sem eru nýgræðingar eða ögn óöruggir fá meiri hjálp þangað til þeir treysta sér til að halda óstuddir af stað í leit að stærsta fiskinum.“

Hvert hús og hver bátur getur að hámarki rúmað sex manns en Róbert segir að meðaltali fjóra í hverjum hóp. Í kaldari mánuðunum, þegar meiri líkur eru á að ekki viðri vel til veiða, kostar vikan um 900-1000 evrur á manninn miðað við að fjórir ferðist saman, og er þá innifalin gisting, leiga á bát, bílaleigubíll, innanlandsflug og hótelgisting. „Á háannatímanum fer verðið upp í 1.500 evrur á mann sem er í júní og júlí,“ upplýsir Róbert.

Hópurinn sem stundar sjóstangveiði hjá Iceland ProFishing er öðruvísi en sá sem sækir í laxveiði- árnar. Segir Róbert að viðskiptavinirnir séu hvorki rokkstjörnur né stórlaxar úr viðskiptalífinu. „Að uppistöðunni til eru þetta ósköp dæmigerðir þýskir sjóstangveiðimenn sem hafa mikið ferðast til Noregs til að veiða, en síðan fengið áhuga á Íslandi. Þeir vilja helst veiða alla daga vikunnar, en ef bræludagar koma inni á milli nota þeir tímann til að fara í skoðunarferðir um Vestfirði. Mín tilfinning er að þetta séu sæmilega vel stæðir einstaklingar, stundum vinahópar og stundum hjón með stálpuð börn, og svo inni á milli hefð- bundnir verkamenn sem eru kannski tvö eða þrjú ár að safna sér fyrir ferð- inni.“

En af hverju að ferðast alla leið til Íslands til að stunda sjóstangveið- arnar? Hvað sjá erlendu ferðamennirnir við það að veiða á Vestfjörðum? Er ekki ágætis fiskur í Noregi, og jafnvel á exótískari stöðum eins og í Karíbahafinu eða undan ströndum Argentínu?

„Það sem okkar viðskiptavinir eru fyrst og fremst að sækja í er frið- sældin. Þeim þykir notalegt að vera í fámennu sjávarþorpi þar sem engin umferðarljós eru við göturnar og ró yfir mannlífinu. Hér eru þeir velkomnir gestir og lífga upp á bæinn, fá sér snæðing á veitingastöðunum, kaupa sér nesti áður en haldið er úr höfn og fá sér bjór eftir góðan veiðidag. Hafa þeir líka margir á orði að meira sé af fiski í sjónum hér hjá okkur en í norsku fjörðunum, og meiri líkur á að stór þorskur bíti á agnið. Markmiðið er iðulega að ná í 15-25 kg þorska, og nokkuð algengt að 20-30 kg þorskar veiðist.“

Landa 140 tonnum

Frístundabátar eru kvótaskyldir og kaupir Iceland ProFishing kvóta úr sérstökum potti sem eyrnamerktur er starfsemi af þessum toga. Er allur afli vigtaður við löndun, og verkaður í frystihúsunum á Suðureyri og Flateyri. „Í fyrra veiddu gestir okkar 140 tonn, mestmegnis þorsk,“ upplýsir Róbert svo að ljóst er að erlendu gestirnir draga hvergi af sér við veið- arnar. Róbert segir ekki óvenjulegt að hver bátur landi um 5-600 kg af fiski daglega þegar vel viðrar og vel veiðist. Leggja bátarnir oftast af stað um kl. 9 og eru komnir aftur að landi 7-8 tímum síðar. „Gestirnir eiga ekki fiskinn þó að þeir fái að nýta kvótann sem við höfum keypt. Hins vegar fá þeir að taka nokkra fiska með sér í soðið eins og sjómenn gera yfirleitt og svo hafa þeir valkost um að kaupa 20 kg fiskitöskur frá fiskvinnslunni Íslandssögu á Suðureyri sem samanstanda af frosnum bein- og roðlausum steinbít og þorski.“

Greinilegt er að reksturinn gengur vel hjá Iceland ProFishing en Róbert bendir á að það hafi líka góð áhrif á nærsamfélagið að fá þennan fjölda gesta, og mjög gaman að sjá hversu margir ferðamenn leggja í dag leið sína á fjarlægustu odda Vestfjarða. „Þó að Suðureyri sé ekki stórt bæjarfélag, og íbúarnir aðeins 300 talsins, þá verður mjög líflegt í þorpinu yfir sumarmánuðina, þökk sé ferðamönnunum. Fyrirtækin sem bjóða upp á þjónustu fyrir þennan hóp gæta þess líka að starfa í sátt við heimamenn. Margir njóta góðs af og dreifist ávinningurinn um stórt svæði, og t.d. sækja sumir af okkar viðskiptavinum sér þjónustu alla leið til Ísafjarðar á meðan á dvöl þeirra stendur.“

Morgunblaðið 27. júlí 2017

 

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31