A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
21.07.2016 - 08:25 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Elísabet Sigurjónsdóttir - Fædd 14. ágúst 1924 - Dáin 1. júlí 2016 - Minning

Elísabet Sigurjónsdóttir (1924 - 2016)
Elísabet Sigurjónsdóttir (1924 - 2016)
Elísabet Sigurjónsdóttir fæddist 14. ágúst 1924 á Þingeyri. Hún lést 1. júlí 2016 á hjúkrunarheimilinu í Bolungarvík.

Elísabet ólst upp á Granda í Brekkudal í Dýrafirði. Foreldrar hennar voru Sigurjón Sveinsson, bakari og bóndi, og Guðrún Sigríður Guðmundsdóttir húsmóðir. Elísabet var næstyngst sex systkina sem nú eru öll látin. Þau voru Jóhanna, Haraldur, Gunnar, Gunnlaugur og Jónína. Elísabet gekk í barnaskóla á Þingeyri.

Elísabet fluttist til Bolungarvíkur 1947 og giftist Bernódusi Erni Finnbogasyni, f. 21.2. 1922, d. 17.4. 1995. Foreldrar hans voru Finnbogi Kr. Bernódusson og Sesselja Sturludóttir.

Elsa og Berni, eins og þau voru ávallt kölluð, hófu fyrst búskap að Hafnargötu 7. Árið 1952 keyptu þau jörðina Þjóðólfstungu og fluttu þangað 1. júní sama ár. Jörðin var að mestu óræktuð og húsakostir lélegir en saman byggðu þau upp jörðina og stunduðu kúa- og fjárbúskap og skiluðu af sér afurðamiklu búi á stórri uppræktaðri jörð þegar þau hættu búskap í Tungu 1. desember 1987 og fluttu þá niður á Skólastíg 12 í Bolungarvík.

Elsa og Berni eignuðust átta börn, þau eru:

1) Finnbogi, f. 7.12. 1947, kvæntur Arndísi Hjartardóttur og eiga þau sex börn og 11 barnabörn.
2) Sigríður, f. 5.9. 1951, maður hennar var Gísli Friðriksson en hann lést 1987 og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn.
3) Sveinn, f. 18.6. 1953, kvæntur Sigríði Káradóttur og eiga þau tvö börn og fjögur barnabörn. 4) Sesselja, f. 9.7. 1956, gift Kjartani Bjarnasyni og eiga þau þrjú börn og sex barnabörn.
5) Trausti, f. 26.4. 1959, fyrrverandi eiginkona hans er Hjördís Jónsdóttir og eiga þau fjögur börn og fjögur barnabörn. Sambýliskona Trausta er Guðrún Steingrímsdóttir.
6) Jón Pálmi, f. 22.8. 1962, kvæntur Guðlaugu Brynhildi Árnadóttur og eiga þau tvö börn og tvö barnabörn.
7) Guðlaug, f. 9.7. 1964, á þrjú börn, tvær stjúpdætur og sjö barnabörn.
8) Hildur, f. 7.10. 1969, fyrrverandi eiginmaður hennar er Karvel L. Hinriksson og eiga þau þrjú börn og þrjú barnabörn.

Elsa vann öll hefðbundin sveitastörf jafnt utan sem innandyra og var hver stund notuð og dagarnir oft langir á stóru heimili. Hún var mikil handavinnukona og lék allt í höndum hennar, hvort heldur sem var fatasaumur, útsaumur, prjónaskapur eða hvað annað sem hún tók sér fyrir hendur. Þegar heilsa hennar fór að gefa sig flutti hún á hjúkrunarheimilið í Bolungarvík 2013.

Útför Elísabetar fer fram frá Hólskirkju í Bolungarvík í dag, 21. júlí 2016, klukkan 14.

_______________________________________________________________________________

 

Minningarorð Hildar Bernódusdóttar

Það líður margt í gegnum hugann þegar ég sest niður til að skrifa minningarorð um konu sem nú er farin á vit feðra sinna, konu sem bar mig í heiminn og hjúfraði að sér, sem heitt mig elskaði og fyrirgaf mér. Það er svo erfitt að færa allar minningar og tilfinningar um móður sína í fáein orð. Elsku mamma kvaddi þessa jarðvist að kvöldi 1. júlí síðastliðins. Södd og sæl lífdaga enda svo fyllilega búin að skila sínu, á 92. aldursári og búin að ala af sér átta börn og vinna hörðum höndum alla sína ævi. Mér er efst í huga þakklæti og ást þegar ég hugsa um mömmu.

Mamma var mikil handavinnukona og það var í raun alveg sama hvað hún tók sér fyrir hendur í þeim efnum. Og eru ófáir hlutirnir sem hún hefur gert og gefið. Hún t.d. saumaði upphlut á dúkkuna mína og þá gerði hún millurnar og hólkinn á skotthúfuna úr perlum og svona mætti lengi telja. Dýrmætar gjafir sem gerðar eru af mikilli natni og ómetanlegt að eiga.

Mamma var ekki mikið fyrir að láta á sér bera en hún hafði gaman af að vera innan um fólk og þá sérstaklega fjölskylduna og skemmti sér oft vel við að hlusta á hina þó að hún legði ekki alltaf mikið til málanna, og hún gat hlegið svo hjartanlega að tárin runnu niður kinnarnar.

Mamma kom oft til mín á Akranes og dvaldi þá jafnvel í nokkrar vikur í einu og áttum við þá góðar stundir saman og ekki síður krakkarnir mínir sem elskuðu að fá ömmu sína í heimsókn. Þeim, eins og hinum barnabörnunum, fannst líka gott að koma á Skólastíginn og fá þá nýbakaðar skonsur eða pönnukökur hjá ömmu.

Elsku mamma, takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér og börnunum mínum. Ég veit að nú ertu búin að hitta pabba sem án efa hefur verið orðinn óþolinmóður að bíða eftir þér og hefur tekið þér opnum örmum.

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði að sér.

Hún heitast þig elskaði' og fyrirgaf þér.

Hún ætíð er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf.

 

Og loks þegar móðirin lögð er í mold

þá lýtur þú höfði og tár falla' á fold.

Þú veist, hver var skjól þitt, þinnskjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

(Ómar Ragnarsson)

Þín

Hildur.

 

Morgunblaðið fimmtudagurinn 21. júlí 2016


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31