Elís R. Helgason - Fæddur 4. jan. 1939. Dáinn 16. okt. 2017 - Minning
Foreldrar hans voru Huld Þorvaldsdóttir, f. 17. mars 1915 í Svalvogum í Dýrafirði, d. 22. nóvember 2008, og Helgi Sigurðsson, f. 6. september 1906, d. 19. desember 1960.
Huld giftist Helga Brynjólfssyni, f. á Þingeyri 6. október 1918, d. 7. febrúar 2004 og gekk hann Elísi í föður stað.
Systir Elísar samfeðra er Helga Þóranna, f. 1944, og systur hans sammæðra eru: Unnur Ríkey, f. 1949, Sigurborg Þóra, f. 1950, og Marta Bryngerður, f. 1954.
Elís kvæntist Ingu Guðríði Guðmannsdóttur, f. 18. mars 1941. Foreldrar hennar voru Guðmann Magnússon, f. 5. desember 1908 á Eystri-Dysjum í Garðahreppi, d. 11. júní 1981, og Úlfhildur Kristjánsdóttir, f. 11. desember 1911 í Langholtsparti í Árnessýslu, d. 9. júlí 2003.
Elís og Inga eignuðust fjögur börn:
1) Guðmann, f. 27. desember 1958, fyrrv. maki Sigrún Jónsdóttir, f. 1956, og eiga þau eina dóttur, Ingu Huld, f. 1982, gift Kára Frey Þórðarsyni f. 1984 og þau eiga Matthildi Leu og Emmu Rún. Sambýliskona Guðmanns er Anne Katerine Hame.
2) Valborg Huld, f. 3. maí 1960, gift Birni Geir Ingvarssyni, f. 1960, börn þeirra eru: a) Árdís, f. 1978, gift Sæmundi Friðjónssyni, f. 1979, og eiga þau Tinnu Rut, Tómas Orra og Bjarka Friðjón. b) Birna Hrund, f. 1988, sambýlismaður Tryggvi Stefánsson, f. 1988, og eiga þau Arnar Elís og Atla Hrafn. c) Elís Rafn, f. 1992, sambýliskona Hanna María Jóhannsdóttir, f. 1992.
3) Úlfhildur, f. 8. febrúar 1962, gift Snæbirni Tryggva Guðnasyni, f. 1961, börn þeirra eru: a) Elísa, f. 1986, sambýlismaður Frank White f. 1978 og eiga þau Úlf Snæ. b) Hrafnhildur, f. 1991, sambýlismaður Ísak Þórhallsson, f. 1990. c) Stefán Örn, f. 1993. Fyrir átti Snæbjörn tvö börn: d) Guðrún, f. 1980, uppeldisdóttir Úlfhildar, sambýlismaður Stefán S. Jónsson, f. 1975. Guðrún á tvær dætur frá fyrra sambandi, Snædísi Birnu og Brynju Karen e) Guðni Steinar, f. 1982.
4) Elsa Kristín, f. 20. september 1966, gift Gunnari Viggóssyni, f. 1964, börn þeirra eru: a) Hildur Ösp, f. 1996, b) Hulda Björk, f. 2001, c) Halldór Viðar, f. 2005.
Eftir barnaskólagöngu á Þingeyri fór Elís í héraðsskólann að Núpi í Dýrafirði og lauk þaðan prófi. Síðan lá leið hans í Samvinnuskólann á Bifröst og útskrifaðist hann þaðan 1958. Elís sótti einnig margs konar verslunartengd námskeið.
Hann vann í ýmsum verslunum og kjörbúðum, lengst af sem verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis, KRON. Árið 1980 var hann ráðinn aðstoðarkaupfélagsstjóri KRON og lauk starfsævi sinni sem sölumaður hjá Osta- og smjörsölunni.
Elís átti ýmis áhugamál; m.a. stangveiði, ferðalög, fótbolta og berjatínslu. Hann var í Dýrfirðingafélaginu og sinnti þar stjórnarstörfum um tíma, spilaði bridge m.a. í Bridgedeild Breiðfirðinga, var í sóknarnefnd Fella- og Hólakirkju og félagi í Rotarýklúbbi Reykjavíkur – Breiðholts.
Útför Elísar Rósants fer fram frá Digraneskirkju í dag, 27. október 2017, klukkan 13.
________________________________________________________________________
Minningarorð Snæbjörns Tr. Guðnasonar
Nú kveð ég þig hinstu kveðju, kæri tengdapabbi og vinur. Sár söknuður í bland við þakklæti fyrir fallegar minningar um þig í gegnum tíðina ryðjast fram í hugann og erfitt til þess að hugsa að þær verði ekki fleiri.
Þú hafðir sýnt miklar framfarir í endurhæfingu í kjölfar veikinda og við trúðum öll á frekari bata, eins og þú. Daginn áður en kallið kom fékkst þú „útivistarleyfi“ frá sjúkrahúsinu, til að fara heim á Vestó einn dagpart og kanna hvort allt væri ekki örugglega „í orden“ og njóta samvista með fjölskyldunni.
Engan óraði fyrir því að þetta yrðu síðustu samverustundir okkar, en minningar frá þessum degi þeim mun dýrmætari. Kveðjustundin, þegar við hjónin höfðum fylgt þér aftur á stofuna þína um kvöldið, var full þakklætis og eftirvæntingar um frekari bata af þinni hálfu, þú með bros á vör og ánægjublik í augum, sæll og sáttur eftir ánægjulegan dag heima á Vestó með fjölskyldunni.
„Takk fyrir allt og sjáumst á morgun.“
Kæri Elís, ég er þakklátur fyrir hvernig þið hjónin tókuð mér, og ungunum mínum tveimur, opnum örmum þegar ég og dóttir þín, hún Úlla, fórum að rugla saman reytum. Þið skutuð yfir okkur skjólshúsi meðan við biðum eftir að fá fyrstu íbúðina okkar afhenta. Ég hugsa með mikilli hlýju og þakklæti til þessa tíma á Vestó, ómetanlegrar aðstoðar ykkar og gestrisni.
Okkur tengdasonum þínum hefur verið mikið kappsmál að aðstoða þig við ýmis viðvik. Að fá tækifæri til að endurgjalda ómælda aðstoð, ást, umhyggju og stuðning ykkar í gegnum tíðina.
Ófár heimsóknir þínar með kjöt í frystikisturnar okkar og fleira góðgæti sem ávallt kom sér vel. Umhyggja þín og næmi fyrir fjölskyldu og vinum, barnabörnum og vinum þeirra átti sér engin landamæri. Áhuginn var því mun meiri ef viðkomandi var líka ættaður að vestan.
Ein fyrsta gjöfin frá þér inn á okkar heimili var forláta postulínsplatti með mynd frá heimahögum þínum á Þingeyri með áletruninni: „Gott sprettur af góðri rót.“ Hafði alltaf gaman af því þegar þú komst í heimsókn og kannaðir hvort hann væri ekki örugglega á áberandi og góðum vegg í íbúðinni.
Þú sýndir áhugamálum barna þinna og þeim íþróttum sem barnabörnin stunduðu mikinn áhuga. Mættir á leiki, fimleikasýningar og oftar en ekki þið hjónin saman. Þau lögðu sig líka sérstaklega vel fram ef þau vissu af Ella-afa og Ingu-ömmu í stúkunni.
Þú varst mikil tilfinningavera, náttúruunnandi, veiðimaður, virkur í félagsmálum og vel liðinn maður á allan hátt. Sannur vinur vina þinna.
Í fjölskylduferðum til Dýrafjarðar sagðir þú okkur skemmtilegar sögur frá uppvaxtarárum þínum, skólaárunum á Núpi og prakkarastrikum ykkar félaganna þar, sem munu lifa með fjölskyldunni um ókomna tíð.
Það voru mikil forréttindi að eiga þig að sem tengdaföður. Barnabörnin eiga eftir að sakna Ella afa sárt og missir þeirra er mikill. Fallegar minningar um þig munu styrkja þau í sorg þeirra.
Elsku Inga, samkennd og kærleikur fjölskyldunnar hefur sannast á undanförnum dögum. Megi fallegar minningar um góðan dreng gefa þér og öðrum í okkar fjölskyldu styrk.