Ég dey frekar en að standa mig ekki
„Ég elska bækur og ég skrifa um það sem brennur á mér að upplýsa og gera heiminn betri. Það kemur ekki til mála að lyppast niður,“ segir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir rithöfundur, sem fagnar því að þrjátíu ár eru síðan hún sendi frá sér fyrstu bók sína. Hún segist núorðið þola illsku heimsins betur.
Ég varð óvart rithöfundur, það er mín lukka. Þó að upplýsingin hafi kennt okkur að hugsa vísindalega eru örlögin og tilviljanir enn að kasta okkur fram og til baka, rétt eins og á miðöldum. Ég er ekki ein af þessum sterku stelpum sem ákváðu þegar þær voru litlar að þær ætluðu að verða skáld, en ömmur og afar og mamma og pabbi hafa kannski hvíslað að mér að ég gæti eitthvað, því ég sagði einhvern tíma að ég ætlaði að verða blaðamaður eða þingmaður. Hvíslið hefur skilað sér,“ segir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, rithöfundur og sagnfræðingur, sem nú fagnar því að þrjátíu ár eru liðin frá því að hún sendi frá sér fyrstu bók sína.
Bækurnar eru orðnar tuttugu og tvær og eru af ýmsum toga; sagnfræðibækur, skáldsögur, ljóðabækur, ævisögur, sögulegar ævisögur, skáldævisögur, ættarsögur og síðast var það sjálfsævisaga.
„Seint og um síðir hef ég, þessi lina kerling sem ég er, lært að ég verð að standa með sjálfri mér og þess vegna dreif ég í að halda upp á útgáfuafmælið mitt. Hér var fullt hús og mikil gleði.“
Að kafa með réttu hugarfari
Þórunn segist hafa áttað sig á því nýlega að fjórar fyrstu bækurnar sínar hafi hún verið beðin um að skrifa.
„Það var mín gæfa. Ég lærði reikning í barnaskóla svo ég gæti lagt saman gæfur mínar og ógæfur, og ég er í svo miklum plús, að hafa fengið að vinna við það sem mér finnst skemmtilegt. En þetta brúna á borðinu á milli bókanna minna er öll drullan, erfiðleikarnir og sársaukinn sem það útheimtir. Ég dey frekar en að standa mig ekki, þannig er það með mig,“ segir hún þar sem hún situr við borð í stofunni heima þar sem þær hvíla allar bækurnar hennar.
„Það eiga ekki allir lífið sitt svona, að geta lagt það á borð. Ég elska bækur líka sem fyrirbæri, af því þær eru svo hógværar, þær eru ekki að öskra eins og arkitektúr, en það þarf að minna á þær, og maður verður að standa með hugsjón sinni. Ég elska bækur og ég skrifa um það sem brennur á mér að upplýsa og gera heiminn betri. Það kemur ekki til mála að lyppast niður.“
Þórunn segir þá vera örlagavalda látna vini hennar hjá Sögufélaginu, Björn Þorsteinsson og Einar Laxness. „Allt byrjaði þetta á því að Björn bað mig um að skrifa sögu Jarðræktarfélags Reykjavíkur. Ég horfði á hann undrunaraugum og hugsaði hvort hann elskaði mig ekki, hvort hann ætlaði virkilega með mig ofan í hundleiðinlega jörðina. En ég dreif mig í að skrifa Cand. mag.-ritgerð um þetta félag, sem var heilmikil vinna en líka hugljómun, því allt er skemmtilegt þegar maður kafar ofan í það með réttu hugarfari. Einar Laxness, forseti Sögufélags, sá að ritverkið passaði í ritröð félagsins og ég bætti í ritgerðina mína og úr varð fyrsta bókin mín, Sveitin við Sundin, um búskap í Reykjavík frá 1870 til 1950. Sú bók er í raun hversdagssaga, sem er miklu skemmtilegra en að nálgast söguna í gegnum pólitík og karla.“
Megas var til í slaginn
Eftir útkomu fyrstu bókarinnar var leitað til Þórunnar með að skrifa ævisögu gamals bónda í Reykjavík, sögu Einars Ólafssonar í Lækjarhvammi. Hún tók verkið að sér og afraksturinn var önnur bók hennar, Af Halamiðum á Hagatorg.
„Við þá vinnu komst ég í tölvu í Bændahöllinni og meðan ég sat þar kom til mín annar dásamlegur gamall bóndi, Sigurður Líndal frá Lækjarmóti í Húnavatnssýslu, og spurði hvort ég vildi ekki skrifa um forföður hans, Snorra á Húsafelli. Ég sagði já, og þegar ég var búin að því og hafði fengið tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir þessa þriðju bók mína, Snorra á Húsafelli, þá sagði Eggert maðurinn minn við mig eldsnemma einn morguninn: „Æ, viltu ekki skrifa sögu Megasar?“ Ég hitti Megas á götu þann sama dag og hann var til í slaginn. Úr varð fjórða bókin mín, Sól í Norðurmýri, sem við Megas skrifuðum saman.“
Konur verða að standa saman
„Ég áttaði mig á því þarna, fjögurra bóka kerling sem ég var orðin, að kannski gæti verið að ég væri rithöfundur. Ég hafði fengið verðlaun fyrir ritgerð í barnaskóla og kennarar í menntaskóla höfðu hvatt mig til að skrifa, svo ég vissi alveg að ég gæti þetta. En þessi voðalega blíða sem kemur með estrógeninu gerir mann linan í að trúa á sjálfan sig. Það að vera blíð þýðir samt ekki að undir blundi ekki kraftur, enda hafa íslenskar kerlingar gert ótrúlega hluti og afrekað. Við konur verðum að standa með konum, en við byrjum ekki fyrr en eftir fimmtugt þegar við erum lausar við eggjabakkana að slaka á í samkeppni við aðrar konur og förum að styðja og elska hver aðra,“ segir Þórunn og bætir við að undir niðri sé trukkur í henni. „Þegar eggin fóru og estrógenið hvarf úr mér kom meiri gribba í mig og nú þoli ég betur illsku heimsins.“
Ég hélt við yrðum drepin
Þórunn segist ekki vilja gera upp á milli bókanna sinna en að skrifa margar þeirra hafi verið mjög menntandi fyrir hana.
„Til dæmis stóra verkið mitt, bókin um Matthías Jochumsson, Upp á Sigurhæðir, ég lærði við þá vinnu allt um þennan uppreisnargjarna mann sem dró inn í landið nýja guðfræði sem tók bókstafinn úr sambandi og varð til þess að við gátum hangið í Guði. Og þegar ég vann að bókinni minni um kristni á Íslandi komst ég inn í hugmyndasöguna í kristninni.
Hún er líka mjög eftirminnileg ástarsagan Dagur kvennanna, sem ég skrifaði með Megasi. Ég hélt við yrðum drepin fyrir að gera grín að hinum helga Kvennadegi. En við lifðum af og fengum rauðu fjöðrina fyrir hana, verðlaun fyrir besta klámið.“
Þórunn segir skáldskapargyðjunni og sagnfræðigyðjunni líða vel saman í hausnum á henni núna.
„En þær voru í stríði, af því að úti í samfélaginu þykir fínna að vera skáld en sagnfræðingur.“
Núna er Þórunn að vinna að bók um Skúla fógeta, sem er stórt og mikið verk, og hún er á leið til Kaupmannahafnar í Jónshús þar sem hún ætlar að sinna því. „Ég vil verða heiðursdoktor áður en ég drepst úr elli eða krabbameini,“ segir hún að lokum og hlær, en meinar það.
Dagskrá um rithöfundarferil Þórunn verður í Hannesarholti 15. október klukkan 15
Morgunblaðið 27. ágúst 2016