Dýrfirðingurinn: - Pálmar Kristmundsson er sextugur í dag
Einn af virtustu arkitektum landsins
Pálmar Kristmundsson arkitekt er einn af virtustu arkitektum landsins og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín og hönnun, bæði hér heima og erlendis. Hann hefur rekið arkitektastofu sína, PK Arkitektar ehf. í Reykjavík, frá árinu 1986 og meðeigandi hans frá árinu 2013 er Fernando de Mendonca arkitekt.
Meðal helstu verka Pálmars eru sendiráð Íslands í Berlín, Höfðatorg, deiliskipulag og skrifstofubyggingar, Árborg sumarhús, íþróttahús Ármanns í Laugardal, Birkimörk, sambýli í Hveragerði, og fjölmörg einbýlishús.
Verk hans hafa tvívegis verið tilnefnd til hinna virtu Mies van der Rohe-verðlauna og einnig hefur hann margsinnis hlotið verðlaun fyrir hönnun sína, meðal annars verðlaunin Architizer A+ fyrir Árborg sumarhús og turninn við Höfðatorg ásamt Dedalo Minosse-verðlaununum á Ítalíu fyrir Árborg. Þá hafa Pálmar og arkitektastofan orðið hlutskörpust í fjölmörgum samkeppnum og greinar um verk hans verið birtar í virtum erlendum tímaritum um hönnun og arkitektúr. Í mars 2014 kom út yfirlitsbók yfir verk hans, „Pálmar Kristmundsson arkitekt“, hjá sænska forlaginu Arvinius.
Eiginkona Pálmars er Sigríður Hermannsdóttir skrifstofustjóri og eiga þau fjögur börn og tvö barnabörn.
Pálmar er mikill íþróttamaður og hefur stundað keppnishjólreiðar frá því á námsárum sínum í Danmörku. Hann varð fyrsti Íslandsmeistari í hjólreiðum árið 1987 og er einn af frumkvöðlum keppnishjólreiða á Íslandi.
Morgunblaðið miðvikudagurinn 8. apríl 2015