A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
06.03.2014 - 19:37 | JÓH

Dýrfirðingar í Ísland got talent

Arnar og Agnes á Samfés 2011. Mynd: www.strandir.is
Arnar og Agnes á Samfés 2011. Mynd: www.strandir.is

Dýrfirðingar Agnes Sólmundsdóttir og Arnar Logi Hákonarson komust áfram í hæfileikakeppninni Ísland got talent síðastliðið sunnudagskvöld með flutningi á laginu The Cave eftir Mumford and Sons. Agnes lék auk þess á fiðlu og Arnar spilaði á gítar. Áheyrnarprufur fyrir keppnina fóru fram í haust þar sem dómnefnd, skipuð tónlistarmönnunum Bubba Morthens, Jóni Jónssyni og Þórunni Antoníu Magnúsdóttur, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir fyrrum menntamálaráðherra, valdi þá hæfileikaríkustu til að koma fram í sjónvarpsþáttum sem sýndir eru á Stöð 2.

 

Agnes og Arnar eru bæði búsett í Reykjavík núna þar sem þau stunda nám við Menntaskólann í Hamrahlíð, og eru á fullu að æfa söng og spila. „Við Arnar byrjuðum að spila saman fyrir svona 6 árum í tónlistarskólanum heima. Við höfum svo undanfarin 2-3 ár komið fram, meðal annars á Dýrafjarðardögum og fleiri viðburðum fyrir Vestan", segir Agnes. Þau sigruðu meðal annars í Vestfjarðakeppni Samfés árið 2011 ásamt vini sínum Patreki Ísari Steinarssyni, með flutningi á lagi sem var í íslenskri þýðingu Agnesar. Agnes segir að þetta ferli sé búið að vera mjög skemmtilegt og ekki hafi verið verra að fá jákvæð viðbrögð frá dómnefndinni. Til að komast áfram í keppninni þarf samþykki að minnsta kosti þriggja dómara og Agnes og Arnar fengu jákvætt svar frá þeim öllum. Það er til mikils að vinna því sigurvegarinn í Ísland got talent hlýtur 10 miljónir króna að launum.

 

Undanúrslit keppninnar verða sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 en það á eftir að koma í ljós hvort Agnes og Arnar komist áfram í þann þátt - þau hvetja einfaldlega alla til að fylgjast með! 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31