Dóra Laufey Sigurðardóttir - Fædd 16. des. 1928 - Dáin 1. júní 2017 - Minning
Foreldrar hennar voru sr. Sigurður Zóphonías Gíslason, prestur Staðarhólsþinga í Dalasýslu en síðan í Sandaprestakalli í Dýrafirði, f. 15. júlí 1900, d. 1. jan. 1943, og Guðrún Jónsdóttir, f. 5. jan. 1904, d. 9. sept. 1963.
Systkini hennar:
Ólöf húsmæðrakennari, f. 25.11. 1927, d. 4.8. 1995, Jón, f. 14.3. 1932, hljómlistarmaður, d. 30.4. 2007, Ásgeir, f. 11.11. 1933, tónl.skólastj., Jónas Gísli, f. 22.5. 1935, símvirki, Gunnar, f. 25.1. 1939, endurskoðandi.
Maki 1) (28.8. 1954) Hörður Kristinsson loftskeytamaður, f. 27.8. 1929 í Hafnarfirði, fórst með togaranum Júlí 8.2. 1959.
Maki 2) Gissur V. Kristjánsson hdl. Þau skildu.
Synir hennar; Kristinn Harðarson, f. 28.5. 1954, verkfræðingur, og Sigurður Harðarson, f. 26.9. 1957, iðnverkamaður. Maki Ólöf Erlingsdóttir, f. 26.6. 1956, þau skildu.
Dóttir þeirra Ingibjörg Sigurðardóttir grafískur hönnuður, f. 12.12. 1985. Maki Vignir Sigurðsson, f. 3.12. 1985, læknir. Börn þeirra Sigurður Elí Vignisson, f. 12.5. 2011, og Ronja Vignisdóttir, f. 11.8. 2013.
Dóra Laufey ólst upp á Þingeyri við Dýrafjörð fram á unglingsaldur þar til hún flutti til Reykjavíkur. Hún lauk gagnfræðaprófi við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og stundaði síðar nám við Húsmæðraskólann á Staðarfelli. Hún hóf ung störf á Landsímanum í Reykjavík þar til hún hóf búskap með manni sínum í Hafnarfirði. Sem ung ekkja og einstæð móðir hóf hún störf fyrst á Bæjarskrifstofu Hafnarfjarðar og síðar hjá Pósti og síma í Hafnarfirði þar sem hún starfaði óslitið til 1998 þegar hún fór á eftirlaun.
Útför Dóru Laufeyjar Sigurðardóttur fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 12. júní 2017.
_____________________________________________________________________________
Minningarorð Hjartar Þórarinssonar
„Ástríki frelsari vor, Drottinn Jesús Kristur. Lofaður sértu og vegsamaður fyrir kærleika þinn og að þú manst stöðugt til vor, sérð þarfir vorar og kemur til vor til þess að hjálpa oss...“ Þessi fyrirbæn föður hennar mun ekki hafa verið sú eina sem fylgdi börnum hans og hefur hjálpað þeim á örlagastundum þeirra.
Við kveðjustund elskulegrar mágkonu ríkir söknuður og mikil þökk fyrir liðnar samverustundir um langa ævi.
Þær systur, Ólöf mín, sem lést 1995 og Dóra voru mjög samrýndar og milli þeirra ríkti ávallt náið trúnaðarsamband. Milli þeirra og yngri bræðranna fjögurra var ætíð mikil vinátta sem var mikill styrkur. Ótímabært fráfall föður þeirra átti örugglega sinn þátt í því að þjappa þeim systkinum og móður þeirra vel saman. Dóra, sem var næstelst, var nýorðin 14 ára þegar séra Sigurður lést í snjóflóði þar sem hann var einn á ferð á nýársdag 1943 á leið að Hrauni í Keldudal til messuhalds. Engin áfallahjálp var til staðar við það mikla áfall í fjölskyldunni og mun skortur á nauðsynlegri umræðu hafa markað djúpt ör í tilfinningalíf systkinanna. En fjölskyldan vann einhuga saman og mestu brotsjóum örlaganna var bægt frá.
En margt breyttist í lífi Dóru við fráfall föðurins. Fyrirhuguð ferð systranna beggja um vorið til inntökuprófs við Menntaskólann á Akureyri var slegin af en faðir þeirra var búinn að undirbúa þær undir prófið í Unglingaskólanum sem hann hafði veitt forstöðu í mörg ár á Þingeyri. Ekkjan og börnin öll fluttu til Reykjavíkur síðar um árið. Dóra lauk skólagöngu í Reykjavík og á Húsmæðraskólanum á Staðarfelli þar sem Ólöf mín var skólastjóri.
Önnur holskefla örlaga féll yfir þegar Hörður, fyrri eiginmaður Dóru, fórst sviplega með togaranum Júlí 8. febr. 1959. Þá kom enn á ný í ljós hversu samrýndar systurnar og fjölskyldan öll var. Við Ólöf fluttum þá tímabundið til Dóru til Hafnarfjarðar og þar náðu systurnar að vera saman einn vetur. Það var aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig Dóra náði að takast á við þetta áfall og byggja upp kjark sinn og framtíðarstarf ásamt því að vinna að uppeldi tveggja sona sinna af mikilli kostgæfni. Samfélagið veitti henni bæði fjárhagslegan og andlegan styrk sem var alveg ómetanlegur.
Dóra giftist síðar Gissuri Kristjánssyni. Það var alla tíð mjög notalegt að koma á heimili þeirra. Þar ríkti rausn og góð samvera og þar áttum við Ólöf margar ánægjulegar stundir.
Þolgæði í veikindum og áföllum á lífshlaupinu var styrkur Dóru alla tíð. Eftir langvinn veikindi er það huggun ástvina hennar að: „Ástríki frelsari vor kemur til vor til þess að hjálpa oss.“ Megi hún njóta fagnandi komu til nýrra heimkynna.
Blessuð sé minning Dóru og sendum við Bryndís, Sigrún og fjölskylda innilegar samúðarkveðjur til Kristins, Sigurðar, Ingibjargar og barnabarnanna.