Björgvin Hofs Gunnarsson - Fæddur 23. nóv. 1931 - Dáinn 24. ágúst 2017 - Minning
Foreldrar hans voru Gunnar Guðmundsson, f. 1898, og Guðmunda Jóna Jónsdóttir, f. 1905.
Björgvin kvæntist þann 16. júní 1979 Borghildi H. Flórentsdóttur, f. 6.9. 1941. Hann átti eina dóttur, Söndru, f. 2.2. 1962, með fyrri eiginkonu sinni, Svanbjörgu Hróbjartsdóttur.
Útförin fór fram frá Grafarvogskirkju í gær, 18. september 2017.
_______________________________________________________
Minningarorð Bjarna Guðmundssonar
Fyrir nokkru dreymdi mig að litskær ljós höfðu verið tendruð á bæjarhólnum að Hofi heima í Kirkjubólsdal, en þar voru ljós síðast slökkt fyrir réttum sextíu árum. Daginn eftir frétti ég lát Björgvins frá Hofi.
Björgvin var nægilega mörgum árum eldri en ég til þess að vekja eftirtekt mína og aðdáun fyrir margt í daglegu fari. Á Hofi var rekinn nútíma búskapur á þeirrar tíðar kvarða – vélar voru komnar til margra verka, að ég nú ekki gleymi honum Willys, Í-19.
Mjög ungur var Björgvin settur til að vinna með þessum tækjum og fórst það sérlega vel úr hendi. Vorið man ég til dæmis þegar hann vann stóra nýræktarsléttu með Fordson gamla, grjóthreinsaði flagið vendilega, lét sér ekki nægja að fleygja steinunum út fyrir spildubrún heldur ók þeim fram fyrir tún og hlóð þeim þar upp svo skipulega að okkur Kirkbælingum varð stór spurn hvaða hús Hofsmenn væru nú að reisa. Hleðsluna má enn sjá. Síðan herfaði Björgvin flagið svo kálgarður hefði getað orðið og var fljótur að; þá björtu vordaga fékk Fordson að sýna hvað hann gat og vélardynur ómaði um dalinn. Óneitanlega fannst okkur líka tignarlegt að sjá Í-19 aka við rykmökk áleiðis til Þingeyrar, sýnilega undir stjórn Björgvins, því Gunnar faðir hans ók jafnan af stillingu og með hægð, 20 km/klst. töldu kunnugir.
Og einn daginn blasti við okkur frá Bóli undarlegt merki í sumargrænum bæjarhólnum á Hofi. Snúningastrákur að sunnan tjáði okkur að þetta væru stafirnir OK, amerískt tákn sem mjög væri nú tekið að nota þar syðra. Það fréttist seinna að Björgvin hefði verið þar að verki, nýbúinn að hvetja ljá sinn; listfengi sláttumannsins hafði leitað útrásar en það var og er einkenni Hofsmanna að blanda daglegri iðju og þrá til listsköpunar saman til gagnlegs og gleðjandi árangurs.
Já, víst var Björgvin á Hofi í mínum augum mikill töffari, hefði það orð verið til á samvistardögum okkar heima í Kirkjubólsdal – og margra fleiri. Svo varð vík á milli vina. Skilvinda tímans hóf suðandi að vinna sitt verk. En eitt breyttist aldrei: Það var vinátta Björgvins og hlýhugur hans til æskuheimilis okkar á Kirkjubóli; draumljós mín í bæjarhólnum á Hofi minntu mig á það. Tryggð hans til dæmis við móður okkar og móðurbróður á meðan öll lifðu munum við systkinin ekki gleyma. Það vinarþel, með öllum æskuminningunum, er þakkað nú þegar Björgvin er allur. Fjölskyldu hans, systkinum og ástvinum öðrum sendi ég samúðarkveðju.
Blessuð sé minning Björgvins Hofs Gunnarssonar.