A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
20.06.2017 - 07:05 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Birkir Friðbertsson - Fæddur 10. maí 1936 - Dáinn 5. júní 2017 - Minning

Birkir Friðbertsson (1936 - 2017).
Birkir Friðbertsson (1936 - 2017).

Birkir Friðbertsson fæddist 10. maí 1936 í Botni í Súgandafirði.
Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði 5. júní 2017.

Foreldrar hans voru Friðbert Pétursson og Kristjana Guðrún Jónsdóttir.

Birkir gekk í Barnaskólann á Suðureyri og Gagnfræðaskólann á Akranesi og útskrifaðist sem búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri árið 1954.

Birkir giftist Guðrúnu Fanný Björnsdóttur, f. 16.7. 1936, þann 13.11. 1957.

Þau eignuðust sex börn;
1) Björn, f. 6.7. 1956, k.h. Helga Guðný Kristjánsdóttir, hann á fimm börn og fjögur barnabörn.
2) Hörður, f. 16.8. 1958, k.h. Málfríður Waage, hann á tvö börn og þrjú barnabörn.
3) Fjóla, f. 21.4. 1960, m.h. Ingvar Valur Gylfason, hún á þrjú börn og fjögur barnabörn.
4) Lilja, f. 31.7. 1962, m.h. Torfi Guðmundsson, hún á tvö börn og tvö barnabörn.
5) Björk, f. 6.4. 1968, m.h. Haraldur Örn Hannesson, hún á eina dóttur og stjúpson.
6) Svavar, f. 18.9. 1972, k.h. Svala Sigríður Jónsdóttir, hann á þrjú börn.

Birkir bjó alla sína ævi í Súgandafirði, fyrst á búi foreldra sinna í Botni en árið 1958 stofnuðu þau Gunný nýbýlið Birkihlíð. Hann var bóndi í Birkihlíð alla sína starfsævi, en sinnti þar fyrir utan félagsmálum af miklum krafti. Má þar meðal annars nefna setu á búnaðarþingi fyrir Búnaðarsamband Vestfjarða frá 1983-1997 og formaður Mjólkursamlags Ísfirðinga 1977-1992, en þar sat hann í stjórn til 1994.

Hann var lengi þátttakandi í sveitarstjórnarmálum í Suðureyrarhreppi.

Birkir var framkvæmdastjóri útgáfufélags BSV og lagði þar fram mikla vinnu. Einnig gaf hann út „Ljóð og litlar vísur“ með eigin ljóðum. Hann var skátaforingi skátafé- lagsins Glaðherja í Súgandafirði í nokkur ár og félagi frá stofnun þess árið 1953 og starfaði með tveimur Lionsfélögum á norðanverðum Vestfjörðum á mismunandi tímum.

Birkir var í varastjórn raforkubænda frá stofnun 1999-2002 og í aðalstjórn frá 2002-2007 og þar af formaður 2005-2007 og 2012- 2014.

Birkir var einnig í forsvari fyrir hóp innan Fornminjafélags Súgandafjarðar, sem skráði öll þekkt örnefni í Súgandafirði inn á myndir sem varðveittar eru á vef félagsins.

Birkir var jarðsunginn frá Suðureyrarkirkju föstudaginn 16. júní 2017.

 

Í dag. þriðjudaginn 20. júní, verður haldin minningarathöfn í Guðríðarkirkju klukkan 13.

 

__________________________________________________________________________

 

Minningarorð Valdimars Gíslasonar á Mýrum í Dýrafirði

 

Í dag verður borinn til grafar Birkir Friðbertsson, bóndi í Birkihlíð í Súgandafirði. Fyrir 60 árum vorum við herbergisfélagar á Hvanneyri. Síðan þá hafa tengsl okkar verið vinátta og samvinna að ýmsum málefnum, einkum á vegum Búnaðarsambands Vestfjarða og útgáfunefndar þess. Birkir var ötull málsvari vestfirskra bænda, sat í stjórnum margra samtaka á þeirra vegum og var málsvari þeirra út á við, s.s. á Búnaðarþingi og Stéttarsambandsfundum.

Birkir var góður og virkur fundarmaður, rökfastur og lipur ræðumaður og afburðaritari fundargerða. En hans veigamesta starf fyrir vestfirska bændur og Vestfirðinga alla var útgáfustarfsemi unnin á vegum útgáfunefndar Búnaðarsambandsins. Má hiklaust segja að þar hafi hann unnið stórvirki. Á sínum tíma var samþykkt á aðalfundi Búnaðarsambands Vestfjarða að láta rita sögu byggðar í Ísafjarðar- og Barðastrandarsýslum sem er starfssvæði sambandsins.

Dráttur varð á framkvæmd verksins í áratugi. Þar kom að kosin var útgáfunefnd til að standa að þessu verki. Birkir var þar einn nefndarmanna. Vegna dugnaðar hans, áhuga og færni hvíldi starfsemin að mestu á hans herðum. Nefndarfundir voru haldnir í Birkihlíð hjá þeim ágætu hjónum, Birki og Gunný eins og hún er jafnan kölluð. Eftir umræður og sam- þykktir var það Birkir sem tók að sér framkvæmd þeirra. Síðan var sest að glæsilegu kaffihlaðborði sem Gunný framreiddi. Nú hafa komið út fimm rit sem merkt eru Vestfjarðarit I-V. Rit I og II fjalla um Vestur-Ís., III um VesturBarð., IV um Austur-Barð og V um Inndjúpið í Norður-Ís. Umsjón með fjármögnun og sölumálum rita I-IV hefur Birkir haft. Gerð Vestfjarðarits V var að mestu á annarra höndum þótt Birkir kæmi einnig þar að á seinni stigum. Þess má líka geta að Birkir var búinn að leggja grunn að Vestfjarðariti VI sem fjalla á um byggð í Útdjúpi. Vonandi tekst að ljúka því verki. Birkir þáði ekki laun fyrir sín miklu störf að útgáfumálum. Hann kleif hinn erfiða hjalla fjármögnunar og skilar skuldlausu búi og fjölda bóka sem seljast jafnt og þétt. Þá er það mikilvægt að öll Vestfjarðaritin fimm sem út eru komin eru þeim sem að gerð þeirra komu til mikils sóma. Einnig má geta þess að Birkir, með aðstoð Alþingis, náði að láta tölvusetja hið mikla vinnuhandrit Kjartans Ólafssonar um Vestur-Ís.

Það er nú aðgengilegt öllum sem áhuga hafa. Hér hefur aðallega verið fjallað um tómstundastörf Birkis, en hann var þó fyrst og fremst hörkuduglegur bóndi.

Í Botni hafa nú þrír ættliðir byggt upp myndarlegt stórbýli. Birkir var góður hagyrðingur og hafa birst á bók ljóð og lausavísur eftir hann.

Það var föst venja þegar Birkir kom að Mýrum að fá hann til að yrkja vísu í gestabók hússins. Það var jafnan auðsótt. Ég birti hér eina af þessum vísum. Þar kemur nákvæmlega fram það sem ég myndi vilja sagt hafa við hjónin í Birkihlíð:

Oft var fundur ykkur hjá
er þá ljúft að muna,
og ég þakka ykkur má
alla vináttuna.

Ég færi þakkir fyrir samstarf og vináttu í 60 ár. Gunný og fjölskyldu votta ég samúð.


Valdimar H. Gíslason og fjölskylda, Mýrum.

 

 

Morgunblaðið 16. júní 2017.


 

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31