Bernharður Marsellíus Guðmundsson - Fæddur 7. júlí 1936 - Dáinn 17. júní 2015 - Minning
Foreldrar Bernharðs voru Guðmundur Bernharðsson, f. 10. nóvember 1899 í Hrauni, Ingjaldssandi, d. 18. nóvember 1989, og Kristín Jónsdóttir, f. í Grunnavík 21. júní 1901, d. 15. nóvember 1969. Systkini Bernharðs eru: Finnur Hafsteinn, f. 20. júlí 1926, d. 6. ágúst 1997, Ásvaldur Ingi, f. 20. september 1930, Sigríður Kristín, f. 5. mars 1932, og Þóra Alberta, f. 31. mars 1942.
Bernharður var kvæntur Guðrúnu Hansínu Jónsdóttur, f. 8. september 1938. Þau eignuðust þrjú börn og fósturdóttur:
1. Kristín Heiðrún, f. 12. nóvember 1956, d. 9. júlí 2014. Eiginmaður hennar var Guðmundur Níels Guðnason, f. 23. mars 1946. Börn: a) Kristrún Klara, f. 22. júní 1973, börn: Hafdís Elva, f. 17. mars 1990 og Ástþór Rúnar, f. 5. desember 1996. Hafdís var fóstruð hjá Bernharði og Guðrúnu, maki hennar er Andri Helguson, börn: Daníel Karl, f. 13. maí 2011 og Snædís, f. 13. desember 2014, b) Hörður Rúnar, maki hans er Heiða María Helgadóttir, börn: Margrét Heiðrún, f. 2. desember 2000, Helga María, f. 9. desember 2009, Hrafn Marsellíus, f. 17. desember 2012, c) Bernharður Marsellíus, maki hans er Sigríður Ólafsdóttir, börn: Ólöf María, f. 1. apríl 2004, Arnar Guðni, f. 19. júní 2006 og Agnes Klara, f. 17. júní 2011.
2. Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, sonur hennar er Elvar Þór, f. 15. janúar 1986.
3. Jón Valgeir, maki hans er Margareta Olsen, börn: Tinna, f. 14. júní 1985, Magnús Þorri, f. 14. janúar 1987, Elísabeth Tanja, f. 4. október 1989, Martin Leo, f. 6. janúar 1998, Magdalena Guðrún, f. 15. nóvember 2001.
Bernharður og Guðrún hófu búskap í Brautarholti Skutulsfirði árið 1956 þar sem Bernharður sá um kennslu barna í sveitinni. Á Ísafirði starfaði hann við Skipasmíðastöð Marsellíusar. Árið 1961 hóf Bernharður nám við Kennaraskóla Íslands og átti eftir að helga sig kennslu út starfsævina. Hann kenndi við Leirárskóla (Heiðarskóla) í Leirársveit 1965-1967, var skólastjóri við grunnskólann í Hnífsdal 1967-1976, kenndi við Digranesskóla í Kópavogi 1976-2001 og Engidalsskóla 2002-2003. Mörg sumur tók Bernharður að sér jarðýtustjórn við vegagerð og fleiri störf.
Eftir að formlegri starfsævi lauk var Bernharður sístarfandi við smíðar og ræktun ásamt konu sinni á landareign þeirra, Sævangi í Dýrafirði. Tónlist og tónlistariðkun, sérstaklega með harmonikkuleik, var mikilvægur hluti af lífi Bernharðs frá barnæsku. Hann var heiðursfélagi í Harmonikkufélagi Vestfjarða.
___________________________________________________________
Minningarorð Þóru Albertu Guðmundsdóttur
Nú þegar við kveðjum kæran bróður og vin leitar hugurinn vestur til Dýrafjarðar og til æskustöðvanna á Ingjaldssandi þar sem við systkinin ólumst upp.
Ég á margar góðar minningar um Marsa, en það hann var alltaf kallaður heima.
Hann var mér góður bróðir og ég sem litla systir sóttist snemma eftir að vera í návist hans, vildi fylgja honum eftir í leik og starfi. Hann sagði mér sögur, glettist við mig og var reyndar öllum ljúfur og góður drengur. Hann lærði snemma að taka til hendinni eins og títt er um sveitabörn og var alla tíð verklaginn og vandvirkur, sama hvað hann tók sér fyrir hendur.
Ungur að árum kynntist hann Guðrúnu og þá eignaðist hann þann ævivin sem alltaf hefur staðið við hlið hans. Saman hafa þau skilað ótrúlega miklu verki og látið sér mjög annt um afkomendur sína og veitt öllum börnunum í fjölskyldunni mikinn stuðning. Bernharður valdi sér hugsjónastarf er hann varð kennari. Hann var farsæll í starfi og lagði sig fram um að efla hvern einstakling sem í hans umsjá var.
Tónlist veitti honum mikla gleði alla tíð. Ungur lærði hann að spila á harmóniku og oft greip hann í nikkuna sér til gleði og hvíldar. Eftir að Bernharður hætti kennslu byggðu þau Guðrún sér fallegt hús í Dýrafirði og nefndu það Sævang. Nú hófst nýr kafli í lífi þeirra. Þau tóku til við að rækta og fegra umhverfi sitt og segja má að þarna hafi þau búið sér til sælureit úti og inni. Ég veit að bróðir minn naut þess að vera úti í friðsælli náttúrunni og fylgjast með gróðrinum og dýralífi á þessum fallega stað og til þess er gott að hugsa.
Nú þegar komið er að kveðjustund er hugur okkar hjá Guðrúnu því hennar missir er mikill og öll fjölskyldan á um sárt að binda. Er við hugsum til hans er þakklæti okkur ofarlega í huga, þakklæti fyrir að hafa átt hann að öll þessi ár og fyrir öll góðu verkin hans og umhyggju.
Einlægar samúðarkveðjur frá okkur og fjölskyldu okkar.
Þóra Alberta og Bjarni.
Morgunblaðið mánudagurinn 29. júní 2015