A A A
  • 1926 - Jökull Sigtryggsson
  • 1946 - Katrín Eiríksdóttir
  • 1979 - Sólveig Eirný Sveinsdóttir
26.01.2016 - 11:22 | Vestfirska forlagiđ,Fréttablađiđ

Átti ekki ađ vera hćgt

« 1 af 6 »

Elís Kjaran Friðfinnsson ýtustjóri á heiðurinn af einum ævintýralegasta vegi landsins en hann tengdi Dýrafjörð og Arnarfjörð um Svalvoga nánast á seiglunni einni saman á áttunda áratugnum. Ragnar sonur hans fékk sína eldskírn á ýtunni við vegagerðina.

 

Sagt er að lofthræddir eigi lítið erindi um veginn sem Elís Kjaran Friðfinnsson og Ragnar Kjaran, sonur hans, ruddu frá Dýrafirði til Arnarfjarðar en leiðin er samt vinsæl. Göngu- og hjólreiðafólk fer þar um á hverju sumri og eins er talsverð umferð jeppa um þessa leið. Ragnar var 18 ára með föður sínum á ýtunni og segir hann hafa ráðist í verkið því það átti að vera ómögulegt.

„Fyrir kallinn var þetta bara áskorun. Það var búið að segja að þetta væri ekki hægt,“ segir Ragnar. „Það lá vegbútur undir Ófæruskriðu en svo þurfti að ganga rest. Kallinn fór alltaf aðeins lengra á hverju ári þegar hann var að hreinsa veginn á vorin og svo ákvað hann bara að sjá hvað við kæmumst langt,“ rifjar Ragnar upp. Hann vann til jafns við föður sinn á ýtunni og fékk þarna sína eldskírn. Segist ekki þekkja lofthræðslu frekar en faðir hans enda hefði þá lítið orðið úr verki. Þó hafi stundum farið aðeins um þá feðga.

„Þarna er um 200 metra kafli þar sem er nánast lóðrétt berg fyrir ofan smá stall og svo meira en lóðrétt þar fyrir neðan. Þá leist honum nú ekki á blikuna en við nöguðum þetta áfram, lengra og lengra,“ segir Ragnar.

Framtakið vakti athygli og brátt fóru fyrirmenni að kíkja í heimsókn. Meðal annars Steingrímur Hermannsson, þá samgönguráðherra.

„Steingrímur var verkfræð-ingur sjálfur og vildi sjá þetta. Þá vorum við komnir gegnum þverhnípið en fram undan var 700 metra kafli af stórgrýttri skriðu. Það virtist ekki nokkur leið að komast fram hjá og Steingrímur spyr hvernig í ósköpunum hann ætli að gera þetta. Hér þyrfti að sprengja. „Við förum þetta einhvern veginn,“ sagði kallinn bara og Steingrímur hristi hausinn.“

Elís og Ragnar ruddu veginn á lítilli TD8B jarðýtu, sem þeir á stórvirkari tækjum kölluðu Teskeiðina. „En hún sannaði sig, þetta hefði ekki verið hægt á stærri vél.“ Hann segir föður sinn hafa oft komist í hann krappan á Teskeiðinni og rifjar upp þegar raflína var lögð úr Mjólká yfir í Ísafjörð.

„Kallinn var uppi á fjallsbrúninni að jafna fyrir slóða, hafði farið of langt og gat ekki bakkað upp aftur. Þá var ekki annað að gera en fara áfram, rúmlega 60 gráðu halla niður kletta og skriðu. Hann sagði að það hefði aðeins farið um hann þegar dótið aftur í ýtunni fór út um framrúðuna. En niður komst hann.“

Fréttablaðið þriðjudagurinn 26. janúar 2016

« Apríl »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30