A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
02.09.2015 - 08:17 | BIB,Morgunblaðið

Ástralía, Höfn og forsetahús

Ljósm.: Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is
Ljósm.: Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is
« 1 af 2 »

• Þingeyrarþorp er fullt af gömlum húsum • Bæjarprýði og öll eiga húsin sína sögu sem spannar oft marga áratugi

„Mörg hús hér í þorpinu hafa verið gerð upp svo að prýði er af. Hins vegar eru nokkur sem bíða endurbóta og vonandi verður hafist handa þar á næstu misserum,“ segir Ólafur Steinþórsson á Þingeyri. Þau Sigríður Bryndís Helgadóttir eiginkona hans búa í húsinu að Fjarðargötu 10a, sem byggt var árið 1895. Það var flutt hingað til lands tilhöggvið frá Þýskalandi, en nokkuð var um það í kringum aldamótin 1900 að byggingar sem reistar voru á Íslandi kæmu hingað sniðnar af erlendum snikkurum. Í umræddu húsi bjó fyrst Adolf Wendel kaupmaður, þýskur að uppruna, sem höndlaði á Þingeyri. Árið 1946 fékk húsið svo nafnið Höfn.

Ólafur Steinþórsson var lengi bóndi í Fremri-Hjarðardal við Dýrafjörð en flutti til Þingeyrar árið 1989. Keypti þá áðurnefnt hús, sem stendur á svæði sem í daglegu tali nefnist Bali. „Ég tók þetta hús allt í gegn og lagfærði,“ segir Ólafur, sem er þjóðhagi. Lagtækur í ýmsum verkum, bæði smíðum og múrverki, sem hann hefur sinnt lengi.

Fjarðargata er meginæð Þingeyrarkauptúns. Hús númer 13 við götuna er niðri í flæðarmáli og er byggt 1905. Þar var fyrsta aðsetur Kaupfélags Dýrfirðinga en seinna voru þar íbúðir. Húsið gengur nú undir nafninu Ástralía. Það kemur til af því að upp úr 1983, þegar mikill uppgangstími var í byggðarlaginu og landburður af fiski hvern dag, vantaði fólk til starfa í frystihúsinu. Var því leitað eftir verkafólki frá útlöndum og kom til starfa hópur ungra kvenna frá Eyjaálfu. Flestar voru þær frá Ástralíu og af því spratt nafngiftin.

Sögur segja að oft hafi verið gestkvæmt hjá stúlkunum og í því sambandi má minna á frægan bókartitil, Allir eru ógiftir í verinu. Að minnsta kosti var eitthvað um að Vestfjarðapiltar og ástralskar konur rugluðu saman reytum.

„Það mætti gjarnan gera Ástralíu upp,“ sagði Ólafur þegar hann labbaði með blaðamanni um götur Þingeyrar og sagði þeim síðarnefnda sögur úr mannlífi byggðarlagsins.

 

Bretar borguðu til sjúkrahúss

Við staðnæmdumst líka við húsið Fjarðargötu 8, sem var fyrsta sjúkrahúsið á norðanverðum Vestfjörðum. Það var byggt 1908 og rúmaði átta sjúklinga. Bretar voru á þessum tíma mikið við veiðar við Vestfirði og komu til viðgerða á Þingeyri með skip til viðgerða og menn sem þurftu læknishjálp. Úr sjóðum heimsveldisins breska fékkst því styrkur sem var nærri því helmingur byggingakostnaðar. Húsið gegndi upphaflegu hlutverki til 1949 en var þá selt sem íbúðarhús sem nú hefur verið gert upp.

Fleiri hús á þessum slóðum vekja eftirtekt, svo sem við Fjarðargötu 5. Það er yfirleitt kallað Simbahöllin, nefnt eftir verslun Sigmundar Jónssonar sem þar var lengi. Þar er nú rekið kaffihús. Að Brekkugötu 26 er hefðbundið íbúðarhús í stíl svonefndra prófessorabústaða við Aragötu og Oddagötu í Reykjavík sem reistir voru upp úr 1950.

 

Í þriðja og fjórða lið

Síðastnefnda Brekkugötuhúsið sem hér er gert að uppfjöllunarefni er yst við götuna og er númer fimm. Þar bjuggu lengi hjónin Svanhildur Egilsdóttir og Ólafur Ragnar Hjartar – og þar dvaldist hjá þeim löngum á æskuárum sínum dóttursonur þeirra, Ólafur Ragnar Grímsson, nú forseti Íslands. Húsið hefur látið verulega á sjá, en Ólafur Steinþórsson segir að bæjarbót væri að endurgerð hússins þar sem frændi hans ólst að stórum hluta upp, en þeir forsetinn eru frændur í þriðja og fjórða lið og þekkjast vel.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 2. september 2015.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30