A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
26.06.2015 - 07:06 | Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Áslaug Sólbjört Jensdóttir - Fædd 23. ágúst 1918 - Dáin 12. júní 2015 - Minning

Áslaug Sólbjört Jensdóttir
Áslaug Sólbjört Jensdóttir
Áslaug Sólbjört Jensdóttir fæddist á Læk í Dýrafirði 23. ágúst 1918.
Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 12. júní 2015.


Foreldrar hennar voru Ásta Sóllilja Kristjánsd., f. 6.1. 1892, d. 28.1. 1936, frá Breiðadal í Önundarf. og Jens Guðmundur Jónss., f. 6.9. 1890 d. 15.12. 1976 frá Fjallaskaga, Dýraf. Systk. Áslaugar: Jón Óskar, Jenna tvíburasystir, Sigríður, Hilmar, Kristján Svavar, Soffía Gróa og Gunnbjörn.

Áslaug giftist 15.5. 1941 Valdimari Kristinssyni, skipstjóra og bónda, f. 4.1. 1904 að Núpi, Dýraf., d. 1.9. 2003. Foreldrar hans voru Rakel Jónasd. frá Skúfsstöðum Hjaltadal og Kristinn Guðlaugss. bóndi, Núpi, frá Þröm í Garðsárdal.

Börn Áslaugar og Valdimars:
1) Ásta, m. Hannes N. Magnúss., d. 1992. a) Guðrún Margrét, m. Ingimar Ingas.: Stefanía Hanna Pálsd., Nína Margrét, Helena Ásta, b) Valdimar Kristinn, m. Michaela Hannesson: Finja Marie; 2) Gunnhildur, fv. m. Halldór Friðgeirss. a) Elín, fv. m. Jóhann S. Sævarss.: Sævar Helgi, Gunnhildur Ólöf, b) Rakel, m. Arnar Bjarnas.: Gréta, Halldór Egill, Áslaug Birna, María Anna, Ellen Elísabet, c) Auður, m. Bharat Bhushan: Amar Logi, Dhrev Þorvar, d) Halldór Gunnar, m. Ragnhildur Guðmundsd.: Ester María, Kara Sól, Mía Katrín, e) Valdimar Geir, m. Sigrún Baldursd.: Hedi Sólbjört, Emil Kjartan; 3) Rakel, m. Sigurður Björnss. a) Áslaug Magnúsd., m. Gabriel Levy: Gunnar Ágúst Thoroddsen, b) Sigurður Rúnar Magnúss., unnusta Regína Rist; 4) Hólmfríður, m. Birgir Sigurjónss.: a) Guðrún Lilja, m. Hákon Valss.: Tanja Sif, Aðalheiður Fríða, Birgitta Sól, Sólbjört Lilja, Valdimar Örn, b) Soffía Sólveig, m. Arnar Marvin Kristjánss.: Freyja Sif; 5) Kristinn, m. Guðrún Ína Ívarsd. a) Þorbjörg Ása, m. Finnbogi Hafþórss.: Skarphéðinn, Hrafnhildur, Egill, b) Valgerður Halla, m. Njörður Sigurjónss.: Kristinn, Hafliði, c) Áslaug Ína, samb. Thomas Már Greger: Ína Kolbrún, Dagbjört Laufey; 6) Jensína, m. Georg V. Januss.: a) Katrín, m Christian Elgaard: Mathilda Ása, Regína, b) Guðmundur Reynir, m. Dagný Ósk Halldórsd.: Halldór Vilberg, Valdís Harpa; 7) Ólöf Guðný, m. Björn Stefán Hallss.: a) Vera Þórðard., m. Philip Harrison: Mía Mist, b) Lára Þórðard. 8) Sigríður Jónína, fv. m. Ólafur Már Guðmundss.: a) Aðalheiður Jóhanna, b) Hrafnhildur Ólöf, fv m. Gunnlaugur Elsus.: Ólafur Björn, Skarphéðinn Arnar, Kristín Sigr. Kristmundsd., c) Sigurður Már, d) Gunnar Már, e) Kristófer Ingi Ingvarss.; 9) Viktoría, m. Diðrik Eiríkss.: a) Karítas, m. Ólafur Hrafn Höskuldss.: Höskuldur Hrafn, b) Kristinn. Pétur Garðarss. dvaldi hjá þeim hjónum á upvaxtarárum.

Áslaug ólst upp í Litla-Garði, Dýraf. Sautján ára gömul tók hún við búsforráðum með föður sínum, en móðir hennar lést um aldur fram. Árið 1941 lauk hún námi við Húsmæðrask. Ósk, Ísaf. Sama ár giftist hún Valdimari og fluttist að Núpi. Heimili þeirra var mannmargt og mikið um gestakomur og fundahöld er þau hjónin sinntu ábyrgðarstörfum fyrir samfélagið. Áslaug sá um landsímastöð fyrir Núpsskóla. Hún var víðlesin, fylgdist með þjóðmálum af þekkingu, var mikil ræðumanneskja og tók þátt í stjórnmálum og félagsmálum. Hún var formaður Kvenfélags Mýrarhrepps yfir 30 ár, sat í stj. Samb. vestf. kvenna og var í sóknarnefnd Núpskirkju. Hún gaf út ljóða- og smásagnab. Hvíslandi þytur í blænum, árið 2000. Hún ræktaði og nýtti jurtir til matargerðar.

Jarðarför Áslaugar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 26. júní 2015, kl. 15.

 

__________________________________________________________________

 

Minningarorð Davíðs og Valdimars Hauks Gíslasona

Við andlát Áslaugar Sólbjartar Jensdóttur hvarflar hugurinn aftur til miðbiks síðustu aldar. Þá var Áslaug eða Ása á Núpi eins og hún var kölluð af nágrönnum og vinum, húsmóðir í Kristinshúsinu, en það var kennt við tengdaföður hennar, Kristin Guðlaugsson. Áslaug og Valdimar eiginmaður hennar bjuggu á efri hæðinni og brátt fylltist íbúðin af glaðværum börnum, átta stúlkum og einkasyninum. Á neðri hæðinni bjuggu Haukur bróðir Valdimars og Vilborg Guðmundsdóttir eiginkona hans.

Heimilið var í næsta nágrenni við Héraðsskólann á Núpi og oft í mörg horn að líta. Þau hjónin sáu um símstöð fyrir nemendur skólans meðan símasamband var takmarkað í sveitinni. Bæði voru þau áhugasöm um velferð Dýrafjarðar og tóku mikinn þátt í öllu félagslífi í sveit og firði. Áslaug var lengi formaður Kvenfélags Mýrahrepps og síðar heiðursfélagi þess. Þrátt fyrir erilsöm störf á fjölmennu og gestkvæmu heimili náði Áslaug að lesa margar góðar bækur. Þá var hún ágætur ljóða- og sagnasmiður.

Kynni fólksins á Mýrum hófust á meðan Áslaug var heimasæta í Litla-Garði og styrktust eftir því sem árin liðu. Segja má að sérstaklega yngri börn Gísla og Guðrúnar á Mýrum hafi verið heimagangar í Kristinshúsinu. Tveim sonum þeirra, þeim Davíð og Valdimar, var komið þar fyrir til vetrardvalar er þeir gengu í barnaskóla á Núpi eftir að skólinn á innsveitinni var lagður niður, Valdimar á efri hæðinni og Davíð á þeirri neðri. Þar nutu þeir þeirrar hlýju og glaðværu gestrisni sem jafnan var í boði á báðum hæðum.

Fjölbreytt félagsstarf fór fram á heimili Valdimars og Áslaugar. Þar voru haldnir hreppsnefndarfundir um árabil meðan Valdimar var hreppsnefndaroddviti. Hreppsnefndarmönnum eru í minni hinar miklu og góðu veitingar sem húsmóðirin reiddi þar jafnan fram.

Að leiðarlokum þakka börn Gísla og Guðrúnar á Mýrum og makar þeirra Áslaugu trausta og einlæga vináttu og votta aðstandendum samúð.

Davíð og Valdimar

Haukur Gíslasynir.

 

________________________

Minningarorð Aðalsteins Eiríkssonar

Daginn sem fréttist af hjartaáfalli Áslaugar Sólbjartar vildi svo til að ég var á safninu að fletta minningarorðum sóknarprestsins í Dýrafjarðarþingum yfir moldum látinna Mýrhreppinga. Þeirra var ein Ásta Sóllilja Kristjánsdóttir dáin frá fárra mánaða dóttur sinni í janúar 1936. Líklega var það í sama rúmstæðinu í Litla-Garði og móðir mín, Kristín Jónsdóttir, hafði fæðst á haustmánuðum frostavetrarins 1917-1918. Áslaug tæpu árinu seinna á Læk.

Ásta Sóllilja, móðir Áslaugar, var tengdadóttir Jóns Gabríelssonar, útvegsbónda á Skaga. Jón gekkst fyrstur manna, utan stúlkunnar Gyðu, í ábyrgð fyrir stúkuhúsinu á Núpi, skólahúsinu sem varð. Presturinn var sr. Sigtryggur Guðlaugsson, hinn verðandi skólastjóri og Skrúðsbóndi. Elsti sonur Jóns var í byggingarnefndinni.

Jón Gabríelsson var einnig fyrstur kvaddur til liðs við þá bræður sr. Sigtygg og Kristin Guðlaugsson á Núpi í skólanefnd sem sr. Sigtryggur kallaði stjórnendur Ungmennaskólans á Núpi.

Nú er Núpsskóli allur og síðasta seinni tíma húsfreyja á Núpi kveður. Það eru sannarlega kaflaskil langrar sögu, mikils mannlífs, margra gleðistunda, barnsradda margra kynslóða. Heimili Áslaugar, Kristinshúsið, Núpsbærinn var bernskuheimur, allt að því annað bernskuheimili, okkar elstu systkinanna. Við sóttum kýrnar saman, Ásta, Pétur og ég, háðum keppni um fundinn hreiðurfjölda, lékum fallin spýtan, yfir, sto og höfðingjaleik. Kristinshúsið var óþrjótandi uppspretta leikja, brottfararstaður berjaferða inn í Holt, vettvangur snjóhúsagerðar, baksturs í búinu, jurtafræðslu og draugasagna. Þar var „Leikhúsið“ litla með undursamlegu veggfóðri.

Sr. Sigtryggur sagði um Ástu Sóllilju að á því heimili hafði hann séð auð hjartans mega sín mest. Gleðiljúfa, aðlaðandi viðmótið mætti gestinum. Hugþekkt hreinlætið, „snyrtnin“, hagnýtni og smekkvísi prýddu það sem þessi kona umgekkst.

Ása á Núpi, Áslaug Sólbjört, átti augsýnilega ekki langt að sækja sína gerð. Margt hefði hún getað lagt fyrir sig. Við spjölluðum stöku sinnum saman síðustu árin. Aldrei heyrði ég hana tala um að til væri betra hlutskipti en heimili og börn. Saknaði þess þó að komast ekki á Núpsskóla. Fía „litla systir“, móðurlaus, fyrsta æfing í barnfóstri. Alltaf var nóg af öllu, hvort heldur það var af grösum eða um sjávargötuna frá Litla-Garði um hlaðið á Læk eða frá Núpsbót að Núpi. Nei, á betra líf varð ekki kosið.

Það er líka bjart yfir minningu þessarar konu og samskiptum foreldra minna við hana og hennar fjölskyldu. Þær Litla-Garðs dætur, Kristín og Áslaug, yrktu ekki litla garða. Ellefu og níu áttu þær börnin. Ekki einungis gáfu þær þeim öllum gleðiríka og farsæla bernsku og æsku. Núpsnemendur áttu þeim fleira að þakka en þeir vissu. Þau hjónin Áslaug og Valdimar, Haukur og þau öll höfðu að sínu leyti hagsmuni skólans og skólastaðarins í fyrirrúmi í gjöfulli hefð þeirra bræðra Kristins og sr. Sigtryggs á Núpi. Mörg eigum við þar þakkir að flytja við leiðarlok.

Aðalsteinn Eiríksson.

 

Morgunblaðið föstudagurinn 26. júní 2015



 

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31