A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
20.02.2017 - 13:31 | Vestfirska forlagið,Blaðið - Vestfirðir,Björn Ingi Bjarnason

Árbók Barðastrandarsýslu 2016

Árbók Barðastrandarsýslu 2016.
Árbók Barðastrandarsýslu 2016.

Sögufélag Barðastrandarsýslu hefur nýlega gefið úr árbók Barðastrandarsýslu fyrir árið 2016. Þetta er 27. árgangur árbókarinnar.

Ritstjóri árbókarinnar er Daníel Hansen og aðrir í ritnefnd eru; Lilja Magnúsdóttir, Páley Kristjánsdóttir og Rögnvaldur Bjarnason.

Í formála Daníels Hansen segir að það sé þó nokkuð afrek fyrir fámennt félag að gefa út eina bók á ári, en það sé "allt gert af miklum áhuga á átthögunum, ekki hvað síst hjá þeim sem yngri eru og leita í rætur sínar." Þá vekur Daníel athygli á því að mikið efni sé til þar sem margir forfeðranna hafi haft þörf fyrir að skrifa niður margvíslegt efni og þannig séu til heilu stílabækurnar.
En það er ekki nóg að eiga efnið heldur þarf það að vera aðgengilegt. Daníel Hansen hvetur yfirvöldd í Barðastrandarsýslu til þess að koma upp skjalasafni í sýslunni. Þar væri hægt að safna saman öllu því efni sem til er og annars yrði væntanlega hent.

Í árbókinni er margvíslegt efni.

Finnbogi Jónsson frá Múla á Skálmarnesi skrifar um smalamennskur í Múlasveit í A-Barð. Finnbogi lést á síðasta ári og er hans minnst í árbókinni. Ólína Kristín Jónsdóttir skrifar um móður sín Aðalheiði Hallgrímsdóttur, sem bjó lengi á Mýrartungu II í Reykhólahreppi. Aðalheiður var virk í félagsstarfi í hreppnum. Hún sat í stjórn kvenfélags Reykhólahrepps, Ungmennafélagsins Aftureldingar , Alþýðubandalagsins og var fyrsti formaður félags herstöðvarandstæðinga í Austur Barðastrandarsýslu. Aðalheiður hefur starfað í Barðstrendingafélaginu eftir að hún flutti suður og hefur síðustu 15 árin verið í stjórn félagsins. Einkum er þó kynntur kveðskapur Aðalheiðar, en hún er skáld gott eins og hún á ættir til á Snæfellsnesi.

Þar er að finna ljóðið Ég bíð:

Ég bíð eftir bjartari framtíð
börnum mínum til handa,
ég bíð eftir brosi í augum
barna fátækra landa,
ég bíð eftri vori að verma
visnaðar kaldar rætur,
ég bíð eftir sólvermdu sumri
með síbjartar, lognkyrrar nætur.

Ég bíð eftir betri heimi,
að birti hjá örsnauðum manni,
ég bíð eftir friði og frelsi
og fögnuði í sérhverjum ranni,
ég bíð eftir syngjandi svönum
og sól líti geislandi og bjarta,
ég bíð eftir heilsteyptum heimi,
huggandi sorgbitið hjarta.

Elva Björg Einarsdóttir kynnir bók sína Barðastrandarhreppur - göngubók, sem kom út á síðasta ári og hefur verið kynnt hér í blaðinu. Bókin er mikil að vöxtum og mikil alúð hefur verið lögð í hana. Trúlega er göngubókin merkasta rit um Vestfirði sem kom út á síðasta ári.

Vísindamenn Fornleifstofnunar Íslands skrifa um athuganir sínar á Skipaeyri í Þorskafirði í landi Kinnarstaða við austanverðan fjörðinn. Telja þeir að vísbendingar séu um að þar hafi verið heygður fullorðinn einstaklingur á hefðbundnum greftrunarstað og í vandaðri gröf en fleiri grafir þurfi að finnast til þess að staðfesta að svo sé.

Lang viðamesta frásögnin í árbókinni eru minningar Kristjáns Ólafssonar frá Ytri Miðhlíð á Barðaströnd. Hann var fæddur 1899. Ingimundur Andrésson skráði frásögnina upp úr handriti sem fannst í gestabók í dánarbúi Kristjáns. Margt fleira forvitnilegt er að finna í árbókinni sem er fáanleg hjá útgefanda.

 

Blaðið Vestfirðir.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31