Ályktun frá Þingeyrarakademíunni: Eldri borgarar sem lítið hafa til að moða úr fái starfslokasamning nú þegar!
Um 2000 eldri borgarar hafa ekkert nema mjög naumt skammtaðan lífeyri frá Tryggingastofnun til að lifa á. Flestir þeirra hafa unnið við undirstöðuatvinnuvegi okkar allt sitt líf. Þjóðin á þeim mikið að þakka.
Við borgum þeim sem ekki vita aura sinna tal afturvirkar launahækkanir upp á fleiri milljónir króna. En aldrei hafa menn heyrt talað um afturvirkar launahækkanir handa þeim sem virkilega þurfa á því að halda. Þeir sem nóg hafa, þurfa ekki meira, en fá alltaf meira og meira. Svo fær þetta lið starfslokasamninga á silfurfati. Fyrir hina kostar það eilífa baráttu og endalaust stríð að fá nokkrar krónur í vasann. Er ekki eitthvað bogið við þjóðfélag sem lætur þetta viðgangast?
Þingeyrarakademían gerir það að tillögu sinni að nú þegar verði gerður starfslokasamningur við þá svokölluðu „heldri borgara“ sem lítið hafa til að moða úr. Við erum ekki að tala um 150 milljónir króna ofan á himninháar launagreiðslur. Nei, nei, við biðjum bara um 2 milljónir, skattfrjálst, í starfslokasamning fyrir alla aldraða sem lifa á naumasta skammtinum. Þetta fólk hefur unnið baki brotnu fyrir landið alla sína tíð og á þetta inni hjá ríkissjóði. Þó fyrr hefði verið.
Það þarf engan starfshóp eða nefnd í þetta mál. Vilji og forgangsröðun er allt sem þarf.