A A A
  • 1922 - Gunnlaugur Sigurjónsson
  • 1974 - Þorleifur Kristján Sigurvinsson
  • 1980 - Var Jhon Lennon myrtur í New York
04.09.2017 - 06:54 | Björn Ingi Bjarnason,Hallgrímur Sveinsson,Morgunblaðið,Vestfirska forlagið,Sól­rún Lilja Ragn­ars­dótt­ir

Afi skellti sér í flugnám með son­ar­syni

Nafn­arn­ir tveir eru sam­mála um að flugið hafi gert þá enn nán­ari. Ljósm.: mbl.is/​Hall­ur Már
Nafn­arn­ir tveir eru sam­mála um að flugið hafi gert þá enn nán­ari. Ljósm.: mbl.is/​Hall­ur Már
« 1 af 2 »

Fyr­ir tveim­ur árum fór Jón­as Orri Matth­ías­son í kynn­is­flug ásamt afa sín­um og nafna, Jónasi Matth­ías­syni, og átti flug­ferðin held­ur bet­ur eft­ir að hafa áhrif á líf þeirra beggja með já­kvæðum hætti. Ann­ar tók ákvörðun um að láta gaml­an draum ræt­ast á meðan hinn fann framtíðar­starfið. Þeir voru varla lent­ir eft­ir ferðina þegar þeir voru báðir bún­ir að skrá sig í flugnám hjá flug­fé­lag­inu Geir­fugli.

„Þegar afi varð sjö­tug­ur þá fór­um við í kynn­is­flug sam­an. Við flug­um sam­an yfir Nesja­valla- og Þing­valla­svæðið og þá var ekki aft­ur snúið. Við ákváðum báðir að skrá okk­ur strax í nám og þar sem ég var ennþá í mennta­skóla þá skráðum við okk­ur á sum­ar­nám­skeið,“ seg­ir Jón­as hinn yngri um hvernig það æxlaðist að afi og barna­barn fóru að læra flug sam­an.

Blaðamaður hitt­ir nafn­ana í Fluggörðum við Reykja­vík­ur­flug­völl. Þar standa þeir hnar­reist­ir með kennslu­vél­ina á milli sín, af­inn og son­ar­son­ur­inn, báðir flug­menn. Ann­ar rúm­lega sjö­tug­ur og hinn rúm­lega tví­tug­ur. Sá yngri bú­inn að ljúka einka­flug­manns­prófi, að hefja at­vinnuflugnám, en sá eldri kom­inn með sólóflug­manns­próf og aðeins nokkr­um flug­tím­um frá einka­flug­manns­próf­inu.

Sá elsti til að hefja námið

Jón­as hinn eldri er 73 ára og er elsti ein­stak­ling­ur­inn sem lokið hef­ur sólóflug­manns­prófi hjá flug­fé­lag­inu Geir­fugli. Hann er jafn­framt sá elsti sem verið hef­ur í einka­flug­manns­námi hjá flug­fé­lag­inu. Hann get­ur þó ekki sagt með vissu hvort hann er elsti Íslend­ing­ur­inn til að ná þess­um áfanga, en það verður að telj­ast ansi lík­legt.

Líkt og áður sagði er hann aðeins hárs­breidd frá því að ljúka einka­flug­manns­próf­inu, en þegar son­ar­son­ur­inn seg­ir þetta al­veg að koma hjá hon­um, þá hlær af­inn og seg­ir hon­um að fara ekki fram úr sér. Þetta sé nú ekki al­veg í höfn. „Þetta stend­ur þannig að fyr­ir hvern einn tíma sem hann tek­ur, þá þarf ég að taka tvo,“ út­skýr­ir Jón­as eldri. Það tek­ur hann því lengri tíma að ljúka nám­inu. Skýr­ing­in á þessu mis­ræmi ligg­ur vænt­an­lega í ald­urs­mun­in­um, en það er óþarfi að hafa hátt um það.

„Ég er bú­inn að taka bók­lega hlut­ann og sólóflug­manns­prófið, þannig ég má fljúga einn und­ir eft­ir­liti. Ég á eft­ir taka kannski tvo tíma og þá get ég klárað. Þá má ég fljúga með farþega, en ég má ekki taka mik­inn pen­ing fyr­ir það,“ seg­ir hann kím­inn.

Þeir byrjuðu sam­an í bók­lega nám­inu sum­arið 2015 og tóku verk­lega tíma sam­hliða því. Svo kom smá hlé á nám­inu af óviðráðan­leg­um or­sök­um. „Það var veður og annað sem spilaði inn í. Veðrið var hund­leiðin­legt og það leið lang­ur tími á milli flug­tíma. Mér fannst ég alltaf vera í sömu spor­un­um. Maður þarf að vera í stöðugri þjálf­un ann­ars miss­ir maður þetta niður,“ seg­ir sá eldri. Jón­as yngri seg­ir skort á flug­kenn­ur­um líka hafa spilað inn í. „Þegar all­ir flug­menn fá vinnu sem flug­menn þá er eng­inn til að kenna.“

Valdi verk­fræðina fram yfir flugið á sín­um tíma

Þegar Jón­as hinn eldri skráði sig í námið sá hann ekk­ert endi­lega fyr­ir sér að hann yrði flugmaður. Hann langaði bara kynna sér bók­lega hluta náms­ins og læra aðeins um flugið.

„Þetta var þannig að ég mig langaði að fara með hon­um, alla­vega í bók­lega námið, af því þetta var nú gam­all draum­ur frá því í gamla daga. Ég þurfti á sín­um tíma að velja hvort ég ætlaði í verk­fræði eða í flug. Ég var tvíg­stíg­andi með þessa ákvörðun en hugsaði með mér að það væri ör­ugg­ara að fara í verk­fræði. Þetta var á þeim tíma sem maður hljóp ekk­ert í flug­manns­starfið. Það er ekki fyrr en ég er hætt­ur í verk­fræðinni að ég gríp tæki­færið núna,“ seg­ir hann og gleðin yfir þeirri ákvörðun leyn­ir sér ekki. „Það er kannski of seint, en skítt með það. Er á meðan er,“ bæt­ir hann við.

Að sjálf­sögðu gat hann ekki látið staðar numið við bók­lega námið, enda jókst áhug­inn með hverj­um tím­an­um, og næg­ur var hann fyr­ir. „Þegar við fór­um að fara í loftið þá varð þetta enn meira gam­an. Ég fram­lengdi þetta því aðeins og ákvað að drösl­ast áfram í sóló­prófið. Svo þegar það var komið, þá var fyrst gam­an,“ seg­ir hann og skell­ir up­p­úr.

Jón­as eldri tek­ur þó skýrt fram að gleðin hafi ekki fal­ist í því að losna við flug­kenn­ar­ana, enda hafi þeir verið hver öðrum betri og tekið hon­um mjög vel. Þó hann hafi verið aðeins eldri en aðrir. „Ég hef aldrei fundið fyr­ir því að ég sé eitt­hvað úr­elt­ur. Kannski hef­ur ein­hver hrist haus­inn bak við hurð, en það er bara eðli­legt,“ seg­ir hann hlæj­andi. „Þetta eru fag­menn fram í fing­ur­góma.“

Aðspurðir segja þeir ekk­ert ald­urstak­mark vera í flug­inu. Menn geti flogið svo lengi sem þeir stand­ast lækn­is­skoðun, en fara þarf í slíka á hverju ári.

Horfði dreym­inn á flug­vél­arn­ar út um glugg­ann 

Áhugi Jónas­ar eldri á flugi og flug­vél­um hef­ur alltaf verið mik­ill og þrátt fyr­ir að hann hafi valið verk­fræðina á sín­um tíma, var draum­ur­inn um að verða flugmaður aldrei langt und­an. Há­skóli Íslands var stund­um aðeins of ná­lægt Reykja­vík­ur­flug­velli fyr­ir ung­an mann með flug­dellu.

„Ég man eft­ir því þegar ég byrjaði í verk­fræðinni í há­skól­an­um. Þá var ég í aðal­bygg­ing­unni og glugg­inn snéri út að Reyja­vík­ur­flug­velli. Þá voru að fara í loftið Skyma­ster-vél­arn­ar, gömlu fjög­urra hreyfla. Þær fóru í gang með mikl­um lát­um og það fór ekki á milli mála hvenær maður átti að líta upp úr bók­un­um, hætta að fylgj­ast með kennslu og horfa á það sem máli skipti.“

Jón­as viður­kenn­ir að það hafi stund­um verið erfitt að sitja yfir verk­fræðibók­un­um og mæna út á flug­völl­inn. Hann rifjar upp þegar Gull­faxi, fyrsta þota Íslend­inga, kom til lands­ins árið 1967. „Þá fór ég á reiðhjóli út á völl. Það var mótt­taka og fólk safnaðist sam­an til að taka á móti vél­inni. Ég man að flug­stjór­inn var hálf­ur út um glugg­ann til að setja ís­lenska fán­ann í statíf. Þetta var meiri­hátt­ar at­höfn,“ seg­ir hann dreym­inn á svip þegar hann hugs­ar til baka.

Fékk að prófa flug­hermi hjá afa

Jón­as yngri bend­ir á að afi hafi samt látið flug­manns­draum­inn ræt­ast að ein­hverju leyti þegar hann fékk sér flug­hermi (flig­ht simulator) í tölv­una sína fyr­ir nokkr­um árum. Það var ein­mitt þar sem áhug­inn hjá þeim yngri kviknaði fyrst á flug­inu. „Mér þótti voðal­ega gam­an að fljúga þar. Aðal­sportið var reynd­ar að taka stærstu flug­vél­arn­ar og lenda þeim á minnstu flug­völl­un­um, sem er ekki hægt í al­vör­unni.“

Jón­as yngri var, eins og afi sinn, tví­stíg­andi með hvað hann langaði að læra, en flugið togaði og hann sér ekki eft­ir því að hafa valið þessa leið. „Þetta verður bara skemmti­legra og skemmti­legra. Það er allt önn­ur til­finn­ing núna en þegar ég var í nám­inu. Nú er ég að fljúga á eig­in for­send­um og get flogið með farþega.“

Hann hef­ur reynd­ar enn ekki flogið með afa sinn sem farþega en stefn­ir á að gera það sem fyrst. Ekki nema afi hans verði á und­an til að fljúga með hann. „Við þurf­um bara að hitta á rétt­an tíma, en það kem­ur. Hann verður líka að fá að klára sitt. Ég vil ekki hafa hann al­veg brak­andi fersk­an úr nám­inu, svo hann fari nú ekki að dæma mig,“ seg­ir Jón­as yngri sposk­ur.

Spurður hvort hann fari nú ekki að hætta þessu

En hvernig til­finn­ing er það fyr­ir Jón­as eldri að fá loks­ins að fljúga, eft­ir að hafa dreymt um það svo lengi? „Þetta er mjög góð til­finn­ing. Ég hef ferðast mikið með litl­um rell­um um æv­ina út af vinnu, og lent í ýmsu mis­góðu, en þegar maður sit­ur sjálf­ur og stýr­ir þá er maður kom­inn með allt aðra vídd. Þá er maður kom­inn með teng­ing­una. Þegar maður er far­inn að stjórna vél­inni þá get­ur maður ekki sleppt neinu.“

Jón­as eldri viður­kenn­ir að uppá­tæki hans, að læra að flug á gam­als aldri, hafi fram­kallað blend­in viðbrögð hjá vin­um og vanda­mönn­um. „Það voru ein­hverj­ir sem spurðu hvað ég væri að þvæl­ast í svona, hund­gam­all karl,“ seg­ir hann, en son­ar­son­ur­inn hef­ur aldrei ef­ast um afa sinn í flugnám­inu. „Það hef­ur aldrei verið neitt van­traust hjá mér.“ Sá eldri seg­ist stund­um spurður hvort hann ætli ekki að fara að hætta þessu, en það ætl­ar hann svo sann­ar­lega ekki að gera. „Ég herðist bara all­ur upp við að heyra svona.“

Nafn­arn­ir tveir hafa alltaf átt í góðu sam­bandi og verið frek­ar nán­ir, að eig­in sögn, en þeir eru sam­mála um að sam­eig­in­legt áhuga­mál þeirra hafi gert gott sam­band enn betra. „Áður fyrr fór­um við sam­an í veiðiferðir, til dæm­is upp í Hvamms­vík. Nú er það flugið og það hef­ur bara tví­eflt sam­bandið ef eitt­hvað er,“ seg­ir Jón­as yngri.

 

 

Sól­rún Lilja Ragn­ars­dótt­ir

sol­run@mbl.is


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31