A A A
  • 1950 - Einar Helgason
  • 1978 - Gestur Magnús Magnússon
10.06.2017 - 21:27 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Af vettvangi dagsins: - Æðarvarpið gengur nokkuð vel en það er vargur í véum!

Tíð hefur verið hagsæð hér um slóðir fyrir æðarfuglinn það sem af er vori. Og nú er komið að því að æðurin fer að leiða út sem kallað er. Þá fara að sjást ungar með stoltum mæðrum sínum. En melrakkinn gerir æðarfuglinum lífið leitt eins og oft áður. Minkur og flugvargur eru einnig til staðar, en sú lágfætta er þó skæðust í æðarvörpunum að vanda. Þetta hefur verið mikil barátta að sögn æðarbænda og ekkert lát á.

Hreinn Þórðarson, hreppstjóri á Auðkúlu í Arnarfirði, ver æðarvörpin á Hrafnseyri og Auðkúlu með kjafti og klóm eins og sagt er. Hann felldi 13. tófuna á þessu vori í fyrrinótt og mink fékk hann í kaupbæti eins og oft áður. Sömu sögu er að segja frá Mýrum, Læk og Hólum, stærstu æðarvörpunum í Dýrafirði. Þar eru menn gráir fyrir járnum og dugar ekki til.  

   Nú er það vitað mál að melrakkinn á sinn þegnrétt í landinu ekki síður en mannskepnan. Hann var hér áður en hún kom til. En það verður að segjast eins og er: Ef menn vilja hafa æðarvarp, þá verður að verja það. Það er sem sagt ekki mannvonskan ein sem stjórnar æðarbændum. Æðardúnninn er stórkostleg útflutningsafurð. Þeir sem kunna með byssu að fara eru stór þáttur í því dæmi.


« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31