A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
22.01.2018 - 18:25 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,BLÁBANKINN á Þingeyri,Björn Ingi Bjarnason

Af hugsjón og ástríðu

Dýrfirðingurinn Marsibil Kristjánsdóttir og  Arnfirðingurinn Elfar Logi Hannesson að Gíslastöðum í Haukadal í Dýrafirði..
Dýrfirðingurinn Marsibil Kristjánsdóttir og Arnfirðingurinn Elfar Logi Hannesson að Gíslastöðum í Haukadal í Dýrafirði..

Árið 1989 komu saman á heimavistina á Núpi í Dýrafirði Bílddælingur og Þingeyringur. Hvort um sig staðráðið í æskuljóma sínum að fella heiminn að fótum sér, en felldu í stað hugi saman svo heitt og innilega að ekki hefur fallið úr síðan. Eins og samvaxin skopparabolti, frjáls og straumlínulaga hafa þau síðan skoppað saman í gegnum lífið og komið víða við. Marsibil Kristjánsdóttir og Elfar Logi Hannesson eru listamenn af guðs náð. Hvar sem Elfar Loga hefur borið niður hefur hann komið að uppsetningum leikrita og listrænn hugur myndlistamannsins Marsibilar skapað úr hverju sem var, hvað sem var.

Frá Núpi yfir á Bíldudal, til Reykjavíkur, Kaupmannahafnar, Ísafjarðar og til Þingeyrar. Ævintýrin eru mörg þar sem m.a. koma við sögu leiklistar-, gullsmíða og fatasaumsnám í Kaupmannahöfn, umsjón með morgunsjónvarpi barnanna á RÚV, leikstjórn víðsvegar um Ísland, myndlistasýningar, yfirvofandi sjoppurekstur á Bíldudal og nokkur börn.

Svo virðist sem það skipti ekki öllu máli hvar þau ber niður, heldur miklu fremur hvað þau hafa fyrir stafni hverju sinni. Ástríða þeirra fyrir sköpun og samfélagshugsjón eru augljóst leiðarstef í þeirra lífsverki. Að leggja alúð við það samfélag sem þau búa í og næra sköpunina og menningarlífið á hverjum stað hverju sinni.

Þau eru skapandi frumkvöðlar sem hafa meðvitað eða ómeðvitað skapað aðstæður fyrir líflegar menningarhringiður sem síðan hafa haft varanleg áhrif á samfélagið þar sem þau búa. Þar má nefna kaffihúsið þeirra Langa Manga á Ísafirði sem er sprottið úr ákalli þeirra eftir kaffihúsamenningu sem þau þekktu frá Kaupmannahöfn og Reykjavík; þar sem samlíf frjórra huga fær að blómstra. Langi Mangi stóðst þær væntingar fyllilega og meira til, en kaffihúsið varð suðupottur menningar og listalífs í þau ár sem þau ráku staðinn. 

Listakaupsstaður var annað slíkt verkefni en það var listasamvinnurými rekið í húsi Fánasmiðjunnar á Ísafirði. Þar voru vinnustofur fyrir listamenn til útleigu fyrir lága upphæð, gallerý, fínt sýningarrými þar sem margar uppfærslur leikrita voru settar á svið og framar öllu, skapaðist þar listamannasamfélag sem þroskaðist og efldist svo um munaði með ónefndum áhrifum fyrir samfélagið á Ísafirði. 

Meðfram stöðugri listsköpun, myndlistarsýningum, leikritum, leiklistarhátíðum á þeirra vegum og öðrum skapandi verkefnum hafa þau Marsibil og Elfar Logi enn á ný sett á laggirnar menningarrými. Þau festu kaup á gamla félagsheimilinu í Haukadal í Dýrafirði,en það er reisulegt hús með prýðilegum sal og sviði, eldhúsi og svefnlofti. 

Húsið var fyrst ætlað sem sumarhús fjölskyldunnar en hefur smám saman þróast sem menningarmiðja ýmissa viðburða. Húsið nefna þau Gíslastaði en Elfar Logi hefur nú um árabil holdgerst sem Gísli Súrsson í einleik sínum um hina fræknu hetju, og gerist Gísla saga Súrssonar einmitt, líkt og margir vita, í Haukadal í Dýrafirði ekki svo fjarri félagsheimilinu.

Á Gíslastöðum hafa þau haldið reglulega menningartengda viðburði, staðið fyrir námskeiðum af ýmsu tagi s.s. jurtalitunarnámskeið með íslenskum jurtum og járnsmíðanámskeið, ásamt því að taka á móti skólahópum, sýningargestum og hverjum þeim sem eiga leið um. Í þessu rými mætast á lífrænan hátt leiklistin og myndlistin, samfélagshugsjónin og sköpunin.

Gíslastaðir er verkefni í mótun og má segja að sé enn að slíta barnsskónum því möguleikar húsnæðisins til að gefa sköpuninni lausan tauminn eru ótakmarkaðir og framtíðin björt.

 BLÁBANKINN á Þingeyri.



 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31