Að ganga í Háskóla alþýðunnar
Hvar hefur okkur Íslendinga borið af leið? Skyldi byrjunin hafa verið þegar þjóðin fór að ala upp kynslóðir sem sjaldan eða aldrei hafa þurft að dýfa hendi í kalt vatn? Nú skulum við kalla til þrjá menn sem segja frá göngu sinni í Háskóla alþýðunnar.
Fyrst skulum við kalla til á þessum fallega degi Steingrím Hermannsson, fyrrverandi forsætisráðherra. Hann segir svo í sínum merku endurminningum, sem Dagur B. Eggertsson skráði:
“Kynni mín af Vestfirðingum eru á við að ganga í marga háskóla. Þannig hef ég komist að orði allt frá fyrstu kosningabaráttu minni árið 1967. Þau kynni hefðu nægt mér sem fullgild ástæða til að fara í framboð. Þarna var alþýðan að störfum og hvergi var látið bugast þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífi eða hamfarir náttúrunnar. Sú saga sem fólst í samtökum fólksins og starfsháttum var mér ótæmandi lærdómssjóður. Af viðtölum við eldra fólk mátti læra margt um tíma sem var horfinn en varðveittist í frásögnum og endurminningum.”
Hallgrímur Sveinsson.