A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
20.09.2017 - 17:29 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

Að fortíð skal hyggja: - „Það er ekki fyrir sofandi mann að búa á Rauðsstöðum“ - 3. grein

Hjónin á Rauðsstöðum, Þórarinn Ólafsson og Sigurrós Guðmundsdóttir. Með þeim á myndinni eru Sigríður Guðmundsdóttir og Sigríður Kristjánsdóttir frá Hjallkárseyri. Ljósm. úr fórum Gunnars Þórðarsonar frá Borg.
Hjónin á Rauðsstöðum, Þórarinn Ólafsson og Sigurrós Guðmundsdóttir. Með þeim á myndinni eru Sigríður Guðmundsdóttir og Sigríður Kristjánsdóttir frá Hjallkárseyri. Ljósm. úr fórum Gunnars Þórðarsonar frá Borg.
« 1 af 2 »

Rauðsstaðir voru mikil heyskaparjörð. Var þar kallað tólf karla engi að fornu mati og talið að aðeins þrjár jarðir á Vestfjörðum hefðu haft svo stórt engi.

   „Fremsti engjabletturinn í Rauðsstaðalandi heitir Fjarðarmýrar. Voru þær taldar álagablettur sem ekki mátti slá. Árin 1885-1892 bjó á Rauðsstöðum bóndi, sem hét Jón Björnsson. Hann hafði litla trú á þessu, og eitt sinn er heimaslægjur brugðust, sló hann þarna. Fóðraði hann lömb á heyinu og setti 35 á í vetrarbyrjun, en á jólum voru aðeins 6 lifandi.Vissi hann ekki, af hverju lömbin fórust. Ekki sló hann þar oftar.“

   Svo segir Þórður Njálsson, bóndi á Auðkúlu, í grein sinni um Auðkúluhrepp í Árbók Ferðafélags Íslands 1951.

   Ekki var heiglum hent að búa á Rauðsstöðum. Þar er allra veðra von, allan ársins hring. Rauðsstaðabændur áttu það á hættu að sjá á eftir heyjum sínum út á Borgarfjörð ef svo veltist á sumrin. Koma þar stundum miklir vindsveipir eða þyrilstrókar. Rafmagnsstaurar eru margir á Rauðsstöðum. Hafa þeir oft brotnað eins og eldspýtur í gegnum tíðina. Nokkuð af rafmagnslínum þar eru reyndar komnar í jörð ef við munum rétt.

   Já. Það er vissara fyrir vinnumennina við Dýrafjarðargöngin í Arnarfirði að hafa allan vara á gagnvart veðrum á þeim slóðum. Þar getur allt lauslegt fokið eins og hendi sé veifað og þegar minnst varir, eins og við höfum reynt að draga hér fram.

Ljúkum við þessum vangaveltum um Rauðsstaði með því að minna á orð Guðrúnar Jónsdóttur, eiginkonu Gísla Vagnssonar. Haft var eftir henni þegar talið barst að Rauðsstöðum og aðstæðum þar. Þau voru þar í húsmennsku þegar þau voru í tilhugalífinu, sem áður segir:

   „Það er ekki fyrir sofandi mann að búa á Rauðsstöðum.“  


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31