Á vettvangi dagsins: Hallgrímur Sveinsson skrifar
Það vantar hugmyndaflug, kjark, þor og einbeitni til að styðja það sem fyrir er
Smáskammtalækningar leysa engan vanda
Uppákomur og upphlaup í fjölmiðlum vegna sjávarþorpa hér vestra hafa verið daglegt brauð að undanförnu.Og er ekki nýtt. Stundum oft á ári. Sárgrætilegt. Fólkið sem hér býr hefur veitt fisk, unnið í fiski, borðað fisk og talað um fisk alla sína tíð. Samt fær það ekki að róa til fiskjar á mannsæmandi hátt. Byggðakvóti, sérstakur byggðakvóti, strandveiðar, ferðamannakvóti. Alls konar rugl. Og fiskurinn syndir upp í kálgarða!
Byggðakvótar eru smáskammtalækningar sem leysa engan vanda. Svo segir framkvæmdastjóri LÍÚ. Þetta vita allir. Nema ráðamenn þjóðarinnar. Það þarf að skjóta fleiri stoðum undir atvinnuvegina hér vestra er tugga sem þeir hamra sífellt á. Bara brandari. Orðaleikur. Skal þó ekki gleyma fiskeldinu. En hugmyndaflug, kjark, þor og einbeitni til að styðja það sem fyrir er, hjálpa mönnum til sjálfshjálpar, vantar sárlega. Og almenna skynsemi.
Hallgrímur Sveinsson.