ÁFANGA LOKIÐ
Í byrjun september 1954 vorum við að baksa við að leggja veg um Ófæru í Dýrafirði og að Hvallátursdalsá og yrði þá akfært fyrir fjörð til Þingeyrar. þetta var erfiður kafli, mikil aurbleyta .
Guðni á Sæbóli kom á Sandsýtunni og ýtti forinni aftur og aftur undan hallanum í sjóinn sem varð móruður langt út á fjörð--veiðilendur hafarnarins ekki kræsilegar rétt á meðan. Svo var fenginn trukkur frá Flateyri, tíu hjóla með drif á þrem hásingum. Hann öslaði foraðið og dreifði burðarefni svo fært yrði öðrum vörubílum að komast yfir.
Í lok venjulegs vinnudags vorum við nærri því að ná endum saman. , sáum til lands og við kvöldverðarborðið var ákveðið að fara út aftur og klára. Verkstjórinn var til í tuskið. Menn snæddu í hvelli, tóku stóra bita og tuggðu lítið og svo var rokið af stað.
Það tók ekki langan tíma að tengja. Þar með var akfært til Þingeyrar !!!. Enginn borði var klipptur og hefur þó skærum verið brugðið á loft af minna tilefni en því að loksins var akfært um heila sýslu, Vestur -Ísafjarðarsýslu.
Við fórum til Þingeyrar að verki loknu, standandi á vörubílspalli, sem er auðvitað ólöglegt, ókum stuttan hring um plássið og höfðum hátt. Þannig var tilkynnt um lok þessa áfanga.
Verkstjórinn okkar var Þorsteinn Ólafsson. Vinir og samstarfsmenn hans á mörgum sviðum kvöddu hann í gær. Hann hafði lokið einum áfanga enn .
Hann gat að leiðarlokum litið yfir farinn veg og sagt:
Sjá, það var harla gott. Góður verkstjóri og leiðbeinandi á vegum og í kennarastarfi.
Blessuð sé minning hans.
Myndin sem fylgir þessum pósti er tekin sumarið 1953. Þorsteinn á leið sjóveg frá Þingeyri í Lambadal , hjá honum situr Pétur, sonur Þorsteins og konu hans Ólafar sem var matráðskona vinnuflokksins.
Af Facebook-síðu Emils Ragnars Hjartarsonar.