18.05.2015 - 20:21 | BIB,Ferðamálastofa
71.600 FERÐAMENN Í APRÍL 2015
Tæplega 72 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í apríl síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 12.400 fleiri en í apríl á síðasta ári.
Aukningin nemur 20,9% milli ára.
Aukning hefur verið milli ára alla mánuði frá áramótum eða 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar og 26,8% í mars.
Um þrír af hverjum fjórum ferðamönnum í apríl árið 2015 voru af tíu þjóðernum. Bretar voru fjölmennastir eða 26,4% af heildarfjölda en næstir komu Bandaríkjamenn eða 15,2% af heildarfjölda. Þar á eftir fylgdu Norðmenn (6,9%), Danir (6,0%), Þjóðverjar (5,2%), Svíar (4,6%), Frakkar (4,1%), Kanadamenn (3,4%), Kínverjar (2,4%) og Spánverjar (2,0%).
Ferðamálstofa greinir frá.