A A A
  • 1927 - Rannveig Guðjónsdóttir
  • 1970 - RAIVO SILDOJA
02.03.2015 - 06:40 | Hallgrímur Sveinsson

30 ár frá stofnun Leikfangasmiðjunnar Öldu hf

Allt klárt í vegagerðina! Lósm. H. S.
Allt klárt í vegagerðina! Lósm. H. S.
« 1 af 9 »

Í dag, 2. marz, eru liðin 30 ár síðan Leikfangasmiðjan Alda hf á Þingeyri var stofnuð af nokkrum bjartsýnismönnum.
Þessir kallar voru: Þorkell Þórðarson, Líni Hannes Sigurðsson, Guðmundur Valgeirsson, Kristján Gunnarsson, Ólafur V. Þórðarson, Elís Kjaran Friðfinnsson allir búsettir á Þingeyri og Hallgrímur Sveinsson, Hrafnseyri. Hlutaféð var samkv. stofnsamningi 120 þús. kr.

Stjórn félagsins skipuðu Hallgr. Sveinsson, formaður, Ólafur V. Þórðarson fundaritari og Elís Kjaran Friðfinnsson, meðstjórnandi. Kristín Lýðsdóttir frá Þingeyri sá um bókhald í sjálfboðavinnu. Endurskoðendur voru þeir Tómas Jónsson og Guðmundur Friðgeir Magnússon á Þingeyri. Að sjálfsögðu einnig í sjálfboðavinnu! Reikningsuppgjör annaðist Ingimundur T. Magnússon, viðskiptafræðingur Rvk.

Alls voru haldnir 36 stjórnarfundir samkv. fundargerðabók, sá fyrsti 2. marz 1985 og sá síðasti 17. marz 1991.

   Upphaf þessa ævintýris var að Hallgrímur Sveinsson hóaði saman hópi af áhugamönnum um atvinnumál á Þingeyri og nágrenni. Héldu þeir nokkra fundi á heimili hans og komu þar ýmsir aðrir við sögu en hér eru nafngreindir. Þá var auðvitað mikið talað og spekúlerað. Var meðal annars talað um að athuga með stofnun og starfrækslu eftirtalinna fyrirtækja:

Fiskréttaverksmiðja, bakarí, kexverksmiðja, samlokuframleiðsla, sælgætisverksmiðja, samsetningarverksmiðja fyrir alls konar tæki, sultugerð, fiskeldi, gjafavöruframleiðsla, skóiðnaður, ullariðnaður, teppaverksmiðja, búsáhaldaframleiðsla, tölvuframleiðsla og ýmislegt skylt henni, fatagerð, lífefnaiðnaður, einkum innyfli fiska, umbúðaframleiðsla og leikfangaframleiðsla. Margt fleira var skoðað og þar á meðal að kaupa fyrirtæki í rekstri. Leikföngin voru svo niðurstaðan. 
  

Í bréfi frá Hallgr. Sveinssyni til félaga hans, sem þá var trúnaðarmál, en er það ekki lengur, segir m. a. svo: 

              „-----    Fyrst í stað skulu aðeins framleidd tvenns konar leikföng, nefnilega:

Vörubílar úr timbri. Hverjum bíl skal fylgja skráningarnúmer, t. d. Í-432, A-300 o.s.frv. Þá skulu fylgja hverjum bíl skoðunarvottorð. Enginn bíll skal vera eins málaður.

Fólksbílar úr timbri. Um þetta leikfang skulu gilda sömu lögmál og um vörubílinn. Ef til vill gæti þetta líka verið jeppi. 

 

Auðvitað skiptir miklu máli að hönnun þessara leiktækja verði góð. Þetta verði sterkir og eigulegir bílar sem allir strákar vilja eignast. (Svo. Hvar voru stelpurnar þá?) Jafnframt verður þetta að vera auðvelt í framleiðslu. Erum við menn til að hanna þetta sjálfir?

Setjum svo að við klárum okkur af þessu. Þá mundi næsta skrefið vera útvegun húsnæðis hér á Þingeyri ásamt kaupum á „kombineraðri“ smíðavél og mönnum í vinnu. Reiknum með að þetta gangi líka upp. Þá er lokaskrefið eftir og það er sölumennskan.

   Mín hugmynd er sú, að hver bíll verði pakkaður inn í sérstakan kassa, helst laglegan með einhverjum áletrunum. Þetta má þó ekki vera of dýrt. Nú. Síðan „köstum“ við þessu inn á markaðinn í vor með samræmdri auglýsingaherferð, til dæmis undir mottóinu:

   Hvort er betra fyrir barnið þitt að glápa á videó eða fara út í bílaleik?

   Er ekki liklegt að allir strákar vilji eignast bíl með númerinu hans pabba?

„---- Nú geri ég ráð fyrir að þið teljið þetta all svæsna loftkastalabyggingu hjá mér. Ef svo er,

þá er ekkert við því að gera. En eftir því sem ég hugsa þetta mál lengur þess betur líst mér á það. Hér er um að ræða lágmarksstofnkostnað, sem við ráðum alveg við sjálfir. Engin „hengingarlán“ eða opinber fyrirgreiðsla. Föllum eða stöndum sjálfir með okkar fyrirtæki eins og kallinn í Stykkishólmi.

   Jæja drengir. Fimm þúsund vörubílar á segjum eitt þúsund krónur stykkið gerir fimm milljónir brúttó. Ég nefni þetta svona til umhugsunar.“

                Svo mörg voru þau orð og fleiri. Segja má að þetta bréf hafi verið sá útgangspunktur sem leikfangasmiðirnir á Þingeyri horfðu til.

   Kristján Gunnarsson frá Hofi hannaði svo vörubílinn og gerði vinnuteikningar. Var þar byggt á gamalli vörubílahefð sem hafði viðgengist hjá strákum hér vestra og víðar í áratugi. Konan hans Kristjáns, hún Alda Sigurðardóttir, gaf svo bílnum nafn og þar var kominn dýrfirski vörubíllinn Dúi. Það var auðvitað af því hann dúaði. Var með gúmmífjöðrum og alls konar öðrum útbúnaði sem var nýjung hjá Kristjáni. 

   Starfsmannafjöldi var breytilegur eftir árstímum fyrstu sex árin sem félagið starfaði. Vanalega 3-4 í fullu starfi.

   Meðal þeirra voru: Róbert Daníel Kristjánsson, sem átti sennilega lengstan starfstíma, bráðungur þá, Elís Kjaran, Þorkell Þórðarson frá Auðkúlu, sem báðir höfðu titilinn verkstæðisformenn, Ólafur V. Þórðarson frá Auðkúli,  Björn Henrý Kristjánsson frá Múla, Magnús Helgi Guðmundsson frá Brekku, Sigurður Guðmundsson frá Hjarðardal,  Kristján Þórarinsson frá Þingeyri og Þórður J. Sigurðsson frá Ketilseyri. Hallgrímur Sveinsson var framkvæmdastjóri í hjáverkum og sendisveinn öll sex árin. Fjármál Öldunnar voru alla tíð erfið umrætt tímabil. Sum árin var þó hagnaður. Ekki var það óalgengt að sendisveinninn lánaði fyrirtækinu fjármuni þegar svo bar við.

   Þegar upp var staðið og fyrirtækið selt Kaupfélagi Dýrfirðinga, fengu allir sitt.

Einn bíll á hverja 100 Íslendinga

Þann 1. nóv. 1987 símar Hulda Sigmundsdóttir, fréttaritari Morgunblaðsins á Þingeyri, frétt til blaðsins .

Þar segir hún m. a. svo:

„Leikfangasmiðjan Alda hf. á Þingeyri hefur nú starfað í tvö og hálft ár. Þar hafa starfað að meðaltali 4 starfsmenn í fullu starfi þetta tímabil. Aðal framleiðsluvara fyrirtækisins hefur verið dýrfirski vörubíllinn Dúi, sem nú er framleiddur í þremur gerðum. Tvö þúsund og fjögur hundruð stykki hafa verið smíðuð af leikfangabílnum Dúa, eða um einn bíll á hverja hundrað Íslendinga.

   Þá hefur Leikfangasmiðjan Alda framleitt dúkkuvagna með gamla laginu, rugguhesta, kúluspil og nýja spilið Einmenning. Öll þessi leikföng eru úr tré sem og vörubíllinn Dúi.“

 

Kaupfélag Dýrfirðinga keypti Ölduna 1991 af eigendum hennar og rak hana í nokkur ár. Þá keypti Sófus heitinn Guðmundsson trésmíðameistari fyrirtækið. Síðan hefur Úlfar sonur hans framleitt Dúa bíla og selur þá á Netinu.

Nánar verður sagt frá rekstri Leikfangasmiðjunnar Öldu hf síðar á öðrum vettvangi.

Rúsínan í pylsuendanum: Þann 30. apríl n. k. mun Dúi litli koma á Evrópufrímerki sem verður dreift um allan heim!  

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31