23. janúar 1907 - Togarinn -Jón forseti- kom
Íslendingar höfðu áður eignast grunnslóðartogarann Coot notaðan, en Jón forseti var úthafstogari. Með komu Jóns forseta hófst bylting í atvinnusögu íslensks sjávarútvegs og atvinnulífs, en sagt hefur verið að þá hafi tækniöld hafist á Íslandi. Halldór Kr. Þorsteinsson var fyrsti skipstjóri Jóns forseta.
Jón forseti þótti stór togari á þeirra tíma mælikvarða, 233 brúttórúmlestir. Eins var mjög til hans vandað, svo mjög raunar, að hann var talinn jafngóður þeim togurum, sem þá voru bestir á Englandi. Hann stóð þeim jafnvel framar að því leyti að við smíði hans hafði hann var sérstaklega styrktur til siglinga á norrænum slóðum.
Jón forseti var úr járni að mestu leyti, bæði skrokkur og yfirbygging. Í honum var gufuvél og var ganghraði um 10 mílur á klukkustund.
Troll Jóns forseta var í meginatriðum af sama tagi sem enn tíðkaðist 100 árum síðar, en þó miklum mun minna, aðeins um 40 metrar að lengd (svipað og togarinn), og riðið úr hampi. Jón forseti var síðutogari eins og allir togarar þess tíma.
Nafn togarans var til heiðurs Vestfirðinginum Jóni Sigurðssyni, helsta leiðtoga sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, en til þess var tekið að valsmerkið, hið nýja merki heimastjórnarinnar, var við sigluhún, þegar skipið kom til landsins.
Morgunblaðið og Wikipedia