20.06.2016 - 09:16 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið
20. júní 2016 - Lengsti dagur ársins
Sumarsólstöður eru í dag, mánudaginn 20. júní, en þá er sólargangur lengstur. Sólstöður eru klukkan 22:34, samkvæmt Almanaki Háskóla Íslands. Lengsti dagur ársins er því í dag, en nýliðin nótt var sú stysta.
Sólstöður verða þegar stefna mönduláss jarðar er til miðju sólar. Gerist þetta tvisvar sinnum á ári, sumarsólstöður á tímabilinu 20. til 22. júní, þegar sólargangurinn er lengstur, og vetrarsólstöður 20. til 23. desember, þegar sólargangurinn er stystur.
Eftir daginn í dag fer sólin aftur að lækka á lofti og dagarnir munu því styttast jafnt og þétt þangað til á vetrarsólstöðum, sem í ár verða 21. desember.
Morgunblaðið mánudagurinn 20. júní 2016